Gullkorn úr stóra vegatálmunarmálinu

Lesendum til skemmtunar ætla ég nú loksins að birta nokkur gullkorn úr vitnaleiðslum og málflutningi í stóra vegatálmunarmálinu. Þess ber að geta að ég hef ekki upptökur tiltækar, svo þótt ég setji þetta upp sem samtöl getur vel verið að orðalag sé lítillega breytt og það sama á við um atburðaröðina.

Það er mikil synd að geta ekki sýnt svipbrigði og raddblæ. Ég hef alltaf haldið að Boston Legal þættirnir sýndu fremur ótrúverðuga mynd af réttarhöldum en eftir þessa kómidíu er ég alvarlega að hugsa um að skella mér í lögfræði.

1.  gullkorn

Verjandi: Gátu bílar komist fram hjá hindruninni?
Vitni (lögreglumaður): Nei.
Verjandi: Nú hafa aðrir lögreglumenn borið að bílum hafi verið ekið fram hjá. Tók vitnið ekki eftir því að það væri gert?
Vitni: Nei, ég sá það ekki enda var í nógu öðru að snúast.

Semsagt: Starfandi lögreglumaður tekur ekki eftir því sem er að gerast á vettvangi, ekki einu sinni stórum bílum sem er ekið út af veginum, af því að hann hefur í nógu að snúast. Það ber auðvitað að hafa í huga að á staðnum voru 9 mótmælendur, þar af 6 fastir undir bílum, 2 sitjandi inni í lögreglubíl og einn uppi í krana. Líklega hafa ekki verið nema um 10 lögreglumenn á staðnum (bílarnir voru farnir fram hjá áður en sérsveitin bættist í hópinn), auk öryggisvarða og vitanlega ekki á nokkurn mann leggjandi að hafa auga með umferð framhjá hindruninni á meðan mótmælalega þessa hræðilega hóps stóð yfir enda í nógu að snúast.

2. gullkorn

Verjandi: Ógnuðu ákærðu lögreglunni eða öðrum á staðnum?
Vitni (lögreglukona): Nei.
Verjandi: Létu þeir á einhvern hátt ófriðlega eða sýndu ögrandi framkomu?
Vitni: Nei, þau voru alveg róleg, sögðu eiginlega ekki neitt.
Verjandi: Voru ákærðu handjárnaðir?
Vitni: Já, eða sumir voru benslaðir.
Verjandi: Af hverju var rólegt fólk sem ögraði engum handjárnað?
Vitni: Ja, það bara  … Það er bara gert. Við höfum rétt til þess.
Verjandi: Er það venja lögreglunnar að handjárna fólk sem sýnir engan mótþróa og er ekki með nein læti?
Vitni: Neei. Ekki venjulega.
Verjandi: Hvaða venjur gilda um það hvort fólk sem lögreglan hefur afskipti af er handjárnað eða ekki?
Vitni: Ég get ekki svarað þessari spurningu.

Semsagt: Annaðhvort eru ekki til nein viðmið um það hvernig eigi að fara með handtekið fólk, og það er þá algerlega geðþóttaákvörðun lögreglunnar hverju sinni, eða þá að þeir sem sjá um að handtaka fólk og handjárna, vita ekki hverjar reglurnar eru.


3. gullkorn

Verjandi: Nú hefur vitnið borið að ákærðu hafi setið sallaróleg í bílnum um nokkra hríð áður en var lagt af stað. Hvað varð til þess að ákveðið var að handjárna fólkið?
Vitni (lögreglumaður): Það er bara góð regla að handjárna fólk áður en er lagt af stað. Maður veit aldrei hvað getur gerst. Það hefur komið fyrir að fólk sturlist skyndilega.
Verjandi: Var eitthvað í fari ákærðu sem gaf lögreglunni tilefni til að hafa áhyggjur af því?
Vitni: Nei, ekki beinlínis, þau voru ekkert að slást en það þótti bara öruggara.

Jamm.

4. gullkorn

Verjandi: Getur vitnið gefið einhverjar skýringar á því hversvegna þótti nauðsynlegt að handjárna fólkið?
Vitni (lögreglumaður): Maður veit náttúrulega ekkert hverskonar fólk þetta er. Þarna var nú t.d. maður af erlendu bergi brotinn.

Ég kann ekki við að birta mynd af þessum hræðilega útlendingi án leyfis en þeir sem hafa nægan áhuga á því að sjá hillaríusinn í þessu til að finna sjálfir út hvað hann heitir ættu endilega að nota google til að sjá mynd af honum.

5. gullkorn

Fjöldi lögreglumanna hefur komið fram og lýst því hvað einn mótmælenda hafi sett sjálfan sig og aðra í gífurlega lífshættu með því að klifra upp í krana. Reyndar á ég nú dálítið erfitt með að átta mig á þessari lífshættu þar sem maðurinn var auðvitað með ágætan öryggisbúnað. Hvað þá að öðrum hafi staðið hætta af honum, önnur en sú að þurfa að horfast í augu við óþægileg skilaboð sem hann hengdi upp í kranann (en það var tilgangur hans með klifrinu). Sannleikurinn um áliðnaðinn er reyndar óþægilegur en lífshættulegur er hann nú ekki. Hvað um það, nú kemur fram vitni sem hefur nokkra sérstöðu meðal lögreglumanna.

Verjandi: Kannast vitnið við að kraninn hafi verið hreyfður á meðan ákærði var uppi í honum?
Vitni: Já. Hann var of hátt uppi til að hægt væri að ná tali af honum og þessvegna ákváðum við að fá stigabíl til að komast að honum. Við þurftum að hreyfa kranann til þess.
Verjandi: Telur vitnið að lögreglan hafi sett ákærða í hættu með því að hreyfa kranann?
Vitni: Nei, ég bar það undir stjórnanda kranans og hann taldi það ekki áhættusamt ef væri farið varlega.

Af þessu má ráða: Það er lífshættulegt að vera uppi í krana. Nema hann sé á hreyfingu. Annars er nú skemmtilegt að geta þess að kranaklifrarinn er sá eini í málinu sem ekki er ákærður fyrir óhlýðni við lögreglu. Enda þurfti engan stigabíl til að ná honum niður. Hann klifraði sjálfur niður þegar hann var búinn að koma borðanum fyrir, enda var það eini tilgangur hans með aðgerðinni.

6. gullkorn

Saksóknari hefur beðið vitnið (lögreglumann) að lýsa því sem gerðist á vettvangi. Hluti af framburði er á þessa leið:

Eva og Haukur voru þarna í forsvari og þau fóru í það að þýða það sem við sögðum fyrir þá sem skildu ekki íslensku. […] Við báðum þau að koma þeim fyrirmælum til fólksins að það ætti að fara en þau neituðu samstarfi.

Hmmm?
Reyndar er það alveg rétt að ég neitaði að gefa öðru fólki fyrirmæli enda er ég engin lögga. Ég minnist þess hinsvegar ekki að hafa tekið að mér túlkunarstarf fyrir lögregluna, hvað þá að mig renni í grun hvern fjandann ég hef átt að vera að þýða, fyrst það voru ekki fyrirmæli um að hætta aðgerðum. Reyndar minnist ég þess ekki að hafa talað við neinn útlending á meðan á þessu stóð (enda var ég handtekin fyrst og hafði því ekki mikil tök á að hafa samskipti við þau yfirhöfiuð) Ég ætti líklega að senda lögreglunni reikning fyrir þjónustuna.

7. gullkorn

Ákæruvaldið rigsar inn í réttasalinn með heljarmikinn málmhólk í fanginu og leggur fyrir dómara sem sönnunargagn.

Dómari (gáttaður á svip): Hvert er sönnunargildi þessa gagns? Hvað vill ákæruvaldið sanna með þessu?
Ákæruvaldið: Ég legg þetta fram til að sýna fram á hvernig mótmælendur blekktu lögregluna. Þau héldust aðeins í hendur inni í hólknum en létu lögregluna halda að þau hefðu hlekkjað sig saman.
Dómari: Þarf vikilega að leggja þetta fram? Það eru til myndir af öllum hlutum sem voru notaðir.
Ákæruvaldið: Það dugar hugsanlega.
Dómari: Hverjir ákærðu notuðu þennan hólk?
Ákæruvaldið nefnir tvö nöfn, hvorttveggja nöfn fólks sem er ekki á staðnum.
Dómari: Þú getur ekki lagt þetta fram sem sönnunargagn því það er ekkert þetta fólk sem er verið að rétta yfir. Það er búið að dómtaka málið á hendur x og y.
Ákæruvaldið: Tveir þeirra sem eru fyrir rétti í dag notuðu sambærilegan hólk.
Dómari: Geturðu lagt þann hólk fram?
Ákæruvaldið: Nei en þetta sýnir hvernig þau blekkja lögregluna.

Það er reyndar alrangt hjá Þvaglegg sýslumanni að tveir þeirra sem voru fyrir rétti hefðu notað sambærilegan hólk, en það skiptir svosem litlu máli. Þetta var allavega Boston Leagal augnablik, ég hefði alls ekki viljað missa af því.

8. gullkorn

Úr málflutningi ákæruvaldsins:

… sem kom fram í máli Evu Hauksdóttur, sem segist vera norn en það er nú ekki lögverndað starfsheiti og athyglisvert að vita hvað felst í því.

Ég átti nú von á ýmsum rósum frá Þvaglegg sýslumanni. En mér datt samt ekki í hug að hann væri svo rökþrota að hann gripi til þess að reyna að nota óvenjulegt starfsheiti til að ómerkja framburð minn. Enn síður datt mér í hug að hann væri nógu vitlaus til að nota orðalagið ‘lögverndað starfsheiti’ enda búið að útiloka býsna marga frá því að teljast marktækir fyrir rétti ef lögverndað starfsheiti er skilyrði til þess.

Ég býst fastlega við að Þvagleggur sýslumaður komi í heimsókn á næstu dögum til að kynna sér starfsemi norna. Ég lofa hér með að sýna honum nokkuð sem honum þætti í alvörunni mjög athyglisvert.

 

Share to Facebook

One thought on “Gullkorn úr stóra vegatálmunarmálinu

  1. ———————–

    maður er svo gott sem orðlaus yfir þessari steypu, samúðarkveðjur Eva að þurfa að standa í svona rugli.

    og orð Þvagleggs dæma sig sjálf, það bendir til vonds málstaðar þegar gripið er til svona „röksemda“

    Posted by: baun | 13.06.2008 | 22:02:23

    ———————–

    Ef þú hefðir kallað þig „skáld“ sem er annað ólögverndað starfsheiti (og byggir í raun á svipuðum forsögulegum hugmyndum um yfirnáttúrulega ofurkrafta) þá hefði hann ekki sagt múkk.

    Posted by: Elías | 14.06.2008 | 11:18:47

    ———————–

    Ég gæti auðvitað kallað mig ráðgjafa, fyrirlesara, goðsagnagrúskara, rúnaspeking, spákonu, matselju, búðarkonu, galdrauppskriftahöfund, handverkskonu, skrautgripahönnuð, lúsaeitursblandara (spurning hvort ég ætti ekki að titla mig alkemista út á það?)textasmið, prófarkarlesara og verslunareiganda. Hefði ég talið einhvern þessara þátta í starfi mínu styðja rétt minn til að mótmæla náttúruspjöllum og stríðrekstri hefði ég dregið hann fram en starf mitt kemur þessu máli bara ekkert við.

    Það er annars umhugsunarvert hversvegna fólk sem kemur fyrir rétt er beðið að greina frá starfsheiti sínu óháð því hvort það skiptir einhverju máli frekar en t.d. heilsufari eða tónlistarsmekk. Getur kannski hugsast að eimi eftir af þeirri hugmynd að séra Jón sé marktækari en Jón bóndi og Jón bóndi marktækari en Jón öryrki?

    Posted by: Eva | 14.06.2008 | 13:45:44

    ———————–

    LOL. Það á ekki að skipta réttarkerfið neinu máli hvað sakborningar vinna við og gott að einhver nennir að ögra svona reglum.

    Posted by: GK | 16.06.2008 | 10:12:12

Lokað er á athugasemdir.