Gjöf til Stöðvar 2 – leiðbeiningar handa Ómari

Þegar Paul Ramses var fluttur nauðugur úr landi, vissi ég ekkert um stjórnmál og samfélagsástand í Kenía, annað en að eftir mannskæðar ættbálkaerjur í kjölfar kosningasvindls, hefðu óvinir ákveðið að deila með sér völdum. Mál flóttamannsins og fjölskyldu hans vakti áhuga minn og ég hef lesið fjölda greina um Kenía síðan.

Fyrir nokkrum dögum dró ég í efa að Ómar Valdimarsson hefði haft nægilega góðar heimildir til að fullyrða að allt væri með kyrrum kjörum í Kenía. Eftir því sem ég les meira, verð ég forvitnari um það hvaða mannréttindasamtök geti hafa gefið honum svo villandi upplýsingar og hvaða erlendu fréttamiðlar það eiginlega eru sem staðfesta það mat. Það er alveg sama hvar mann ber niður á internetinu. Fréttastofum CNN og BBC auk fjölda minni fréttamiðla og vefsíðum ýmissa mannréttindasamtaka ber saman um það að það sé alls ekki allt í góðu lagi í Kenía. Þvert á móti eru ennþá mörg þúsund manns á vergangi, lifa við sára fátækt og þora ekki að snúa til heimkynna sinna.

Kannski ætti stöð 2 að senda Ómar Valdimarsson á endurmenntunarnámskeið. Það þyrfti alls ekki að vera langt eða dýrt, bara svona 10 mínútna tilsögn í þeirri kúnst að nota google.com. Ég lýsi mig hér með reiðubúna til að kenna honum það sjálf, án endurgjalds. Fréttastofa hafi samband við mig til að innheimta gjöfina.

Share to Facebook