Frekjur

frekjurÉg tími ekki að eyða þessum hálfa frídegi mínum í rannsóknarvinnu svo takið því sem ég segi með fyrirvara, en mig minnir að um helmingur þess fjár sem ríki og sveitafélög setja í menningarmál, fari í íþróttastarf.

Því spyr ég fávís konan; af hverju þarf að loka öllum helstu leiðum inn í miðborg Reykjavíkur, svo fólk geti hlaupið á miðri götu, og það á einum af þeim dögum sem mestrar umferðar er að vænta um miðbæinn? Ég hef ekkert á móti því að fólk hreyfi á sér skankinn ef það endilega vill en af hverju getur það ekki bara hlaupið á öllum þessum íþróttavöllum sem ég og aðrir skattgreiðendur höfum verið neydd til að borga undir það? Eða í Elliðaárdalnum? Eða á fáförnum götum? Hvaða nauðsyn krefst þess að stofna til umferðaröngþveitis á Hringbraut, Sæbraut og Hverfisgötu? Hvað ætli íþróttahreyfingin segði við því ef tölvunördasamtökin tækju sig til, einmitt á einhverjum allsherjar íþróttaálfsdegi og fylltu öll stærstu íþróttahúsin af tölvum og sjónvörpum?

Ég hef ekki gert neina vísindalega rannsókn á innræti íþróttafólks en mér sýnist það almennt vera að kafna úr frekju. Reykjavíkurmaraþonið er bara eitt dæmið. Starf grunnskólanna er einnig truflað með íþróttauppákomum á hverju einasta ári svo nokkuð sé nefnt.

Share to Facebook