Fangar fái ekki að misnota aðstöðu sína

Fangi sem notar tímann í fangelsinu til að byggja upp vöðvamassa er með því að misnota aðstöðu sína, segir fangelsismálastjóri.

 Ég skil hvað hann á við. Það er hægt að nota sterkan skrokk til illra verka og útlit vöðvatrölls eitt og sér er ógnvekjandi. Ég hef reyndar ekki séð neina rannsókn sem sýnir fram á fylgni, hvað þá orsakasamband milli vaxtarlags og ofbeldisverka en já ég hef sjálf tilhneigingu til vera hræddari við stæðilegan síbrotamann en íþróttaálfinn. Það er heldur ekkert sem bendir til þess að það minnki slysahættu í fangelsum að fjarlægja lóð. Ef út í það er farið eru dæmi þess að brotnir tannburstar hafi verið notaðir til að stinga menn á hol en ég held samt að tannburstar hafi ekki verið bannaðir í fangelsum ennþá. En já, ég er hræddari við að reiðan mann með lóð en reiðan mann með tannbursta, þannig að ég skil alveg pælinguna hjá fangelsismálastjóra.

Enn hefur enginn verið dæmdur fyrir aðild sína að efnahagshruninu en það hlýtur að koma að því. Ekki viljum við að misyndismenn noti afplánunartímann til að byggja upp og viðhalda þeim hæfileikum sem gerðu þeim fært að slá ryki í augu almennings, eftirlitsstofnana, fjölmiðla og stórnmálamanna. Menntun má nota til ills ekkert síður en vöðvaafl og það var einmitt þekking þessara sniðugu stráka, ásamt persónutöfrum þeirra sem gerði þá færa um að byggja upp óréttlátt efnahagskerfi, fá Alþingi til að setja lög sérstaklega í þágu auðvaldsins og rústa svo öllu draslinu með slæmum afleiðingum fyrir hina fátæku þótt þeir sem ábyrgðina bera séu óðum að ná fyrri völdum.

Nú vænti ég þess að fangelsismálastofnun sé sjálfri sér samkvæm og banni föngum að lesa viðskiptafræði, markaðsfræði, sálarfræði og önnur fög sem mögulegt er að nota til ills. Sudokugátur, krossgátur, tölvuspil og aðrar þrautir sem þjálfa minni, rökhugsun, viðbragðsflýti og aðra greindarþætti, verði einnig bannaðar enda eru gáfaðir glæpamenn ekki síður hættulegir en sterkir. Einnig að tekið verði fyrir allar tilraunir til að byggja upp sjarmerandi karakter. Föngum verði þannig bannað að segja brandara, óska öðrum en nánustu aðstandendum til hamingju með afmælið, bursta tennurnar og brosa.

Við skulum líka athuga að menn komast sjaldan til valda með vöðvaafli. Yfirleitt eru það félagstengsl, mælska og sérþekking sem koma mönnum í aðstöðu sem hægt er að misnota. Fangelsismálayfirvöld telja sig bera ábyrgð á því í hvaða ástandi þau skila mönnum út úr fangelsinu og á sama hátt og það að svipta menn lóðum mun draga úr ofbeldishvöt þeirra, verður væntanlega best hægt að uppræta valdsækni fjárglæframanna með því að banna þeim að afla sér þekkingar og slíta félagstengsl þeirra við jafningja sína og valdamenn. Brýnast af öllu er þó að banna þeim að skrifa og tala. Neinei, ekki að svipta þá öllu lesefni eða taka frá þeim skriffæri, það er alveg óþarfi að vera ómannúðlegur og vitanlega á fangelsismálastjóri að styðja heilbrigða hugarrækt og tjáningu. Það er því mikilvægt að fangar fái tækifæri til að perla og púsla, spjalla við sér heimskari menn, lesa einhverjar hættulausar fagurbókmenntir og skrifa stíla eftir forskrift. Bara ekki eitthvað sem þeir sjálfir telja að nýtist þeim þegar þeir koma út.

Annars gleður það mig að heyra að fangelsismálastofnun telji sig bera ábyrgð á því í hvaða ástandi menn koma út úr fangelsi. Ég hef aldrei heyrt þetta fyrr og fagna þessu nýja og jákvæða viðhorfi. Það verður spennandi að heyra hvaða kröfur nákvæmlega fangelsismálayfirvöld gera til sjálfra sín í þeim efnum og hvernig þau fylgja þeim markmiðum eftir.

Share to Facebook

One thought on “Fangar fái ekki að misnota aðstöðu sína

  1. ——————————

    Það er nú bara verið að fjarlægja ákveðin lóð, en ekki leggja af almenna líkamsræktar-aðstöðu. Þetta er hinsvegar afburðar vel skrifuð grein. Takk.

    Posted by: Sveinbjörn Þorkelsson | 30.04.2011 | 13:17:36

Lokað er á athugasemdir.