Eru mótefnamælingar raunhæfar á næstunni?

Þann 4. apríl sagði Kvennablaðið frá því að Íslensk erfðagreining hefði pantað búnað til að mæla mótefni við kórónuveirunni og að Kári Stefánsson reiknaði með að mælingar myndu hefjast í þessari viku. Þetta kom fram í svari Kára við spurningu sem Facebooknotandi velti upp um það hversu margt fólk hefði þegar smitast og myndað ónæmi.

Ætla má að möguleikinn á að mæla mótefni gegn veirunni muni hafa mikil áhrif á það hversu hratt verður hægt að aflétta samkomutakmörkunum og öðrum varúðarráðstöfunum og víða er verið að þróa slík próf. Í Þýskalandi er stefnt að því að hefja kerfisbundnar mótefnamælingar um miðjan apríl.

Það eru þó skiptar skoðanir um hversu raunhæft það er að árangursríkar mótefnamælingar geti hafist á næstunni og ljóst er að tilraunir með þróun heimaprófa hafa enn ekki skilað þeim árangri sem vænst var. Síðustu vikuna í mars var stór pöntun slíkra prófa til Spánar endursend til Kína þar sem prófin reyndust gölluð.

Bretar höfðu gert ráð fyrir að heimapróf kæmu á markað í þessari viku en hafa nú gefið það út að þau séu ennþá allt of óáreiðanleg til þess að vera nothæf. Það verður því einhver bið á því að hægt verði að panta heimapróf á netinu.

Prófessor við Oxford háskóla bendir á að ýmsar aðrar kórónuveirur sem eru sífellt í umferð geti örvað framleiðslu mótefna gegn þeirri veiru sem nú herjar á heimsbyggðina. Til þess að þróa próf sem gefur áreiðanlegar niðurstöður þurfi mikinn fjölda blóðsýna úr fólki sem hefur smitast af veirunni og náð bata en einnig úr blóðgjöfum sem gáfu blóð áður en farsóttin fór af stað.

Mér hefur ekki tekist að ná tali af Kára Stefánssyni til að afla nánari upplýsinga um áreiðanleika þeirra prófa sem Íslensk erfðagreining hyggst nota í mótefnamælingum sem eiga að hefjast í vikunni.

Share to Facebook