Erlenda löggu til að rannsaka Valtý Sigurðsson

Ef marka má umfjöllun helgarblaðs DV um rannsókn á dauða piltanna sem fundust látnir í Daníelsslipp 1985, er full ástæða til að vinnubrögð lögreglunnar verði rannsökuð sem sakamál.

Ekki kemur á óvart að Valtýr Sigurðsson, fyrrum ríkissaksóknari, hafi synjað endurupptöku en þetta er ekki eina dæmið um að hann hafi staðið í vegi fyrir því að sannleikurinn um vinnubrögð lögreglu sé afhjúpaður. Við getum t.d. minnst framgöngu hans þegar Magnús Leopoldsson vildi að fram færi rannsókn á því hversvegna Leirfinnur var gerður eftir ljósmyndum af Magnúsi. Valtýr birti ennfremur persónuupplýsingar í heimildarleysi í tengslum við málið í Daníelsslipp og hefur enn ekki virt úrskurð Persónuverndar um að fjarlægja þær af netsíðu embættisins. Mörg dæmi mætti nefna um hneykslanlega framgöngu Valtýs í starfi ríkissaksóknara og væri við hæfi að hans ferill sætti ítarlegri rannsókn.

Mál mannanna í Daníelsslipp er heldur ekkert eina dæmið þar sem margt bendir til glæpsamlegra vinnubragða lögreglu. Geirfinnsmálið má ekki gleymast. Þvagleggur sýslumaður má ekki gleymast. Stuðningur lögreglunnar við njósir Mark Kennedy má ekki gleymast. Við leikmenn þurfum að halda afglöpum lögreglunnar til haga því ekki veitir ríkissaksóknaraembættið henni aðhald, svo mikið er víst.

Nauðsynlegt er að rannsaka afglöp og glæpastarfsemi lögreglu og réttarkerfisins. En hver á að rannsaka lögguna? Jú það eru menn ríkissaksóknara. Valtýr vildi með öllum ráðum halda mistökum og glæpum lögreglunnar leyndum og enn er ekki komið í ljós hvort Sigríður er eitthvað skárri en þar sem embætti ríkissaksóknara er ekkert annað en önnur deild í sömu stofnun má sannarlega deila um réttmæti þess. Og hver ætti að rannsaka ríkissaksóknara? Vinir hans í löggunni kannski eða á innanríkisráðuneytið að setja einhverja aðra vini Valtýs í málið?

Eðilegast væri að leita til útlanda. Fá óháða rannsóknarnefnd fólks sem ekki hefur spjallað huggulega við ríkislögreglustjóra á götu, setið með Valtý á kaffihúsi eða hitt Gísla Pálsson í barnaafmæli hjá vinkonu sinni. Ísland er of lítið og tengsl mektarmanna of mikil innbyrðis til að hægt sé að ætlast til hlutlausra vinnubragða.

Ég geri mér engar vonir um að Ögmundur kalli til erlenda aðila til að rannsaka starfsferil Valtýs og mistök og glæpi lögreglunnar. Það kemur því í hlut fjölmiðla. Þeirra sem þyrla upp ryki þegar löggan klúðrar málum nógu rækilega en fylgja slíkum málum sjaldan eftir. Riifja þau svo kannski upp í gúrkutíð 20-30 árum síðar.

Sumarið 2009 dó maður í fangaklefa á Hverfisgötunni. Skýring lögreglu var sú að hann hefði hengt sig í teppi, útafliggjandi í fleti sínu. Við getum reiknað með að upp úr 2030 fari íslenskir fjölmiðamenn að velta því fyrir sér hvað gerðist.

Share to Facebook

One thought on “Erlenda löggu til að rannsaka Valtý Sigurðsson

  1. ——————————————-

    skrítið að ekkert hafi heyrst í fjölmiðlum um mannslátið í fangaklefanum á Hverfisgötu (2009) – ótrúlegt raunar

    Posted by: Sjöfn Kristjánsdóttir | 15.08.2011 | 11:51:46

    ——————————————-

    Mér skilst nú að fólki hafi í gegnum tíðina tekist að kyrkja/hengja sig við ótrúlegustu aðstæður.

    Þykir fólki eitthvað gefið að mannslátið í fangaklefanum hafi ekki verið eins og lögreglan segir?

    Posted by: Kristinn | 15.08.2011 | 14:22:07

    ——————————————-

    Afhverju getur fólk bara ekki sagt „já“ það er margt sem mætti rannsaka í þessum efnum.

    Það eru einstaka þættir sem maður er kannski ekki 100% sammaál í þessari grein en þessir örfáu þræðir sem maður hefur athugasemdir við draga ekki úr nauðsyn virkrar endurskoðunar á vinnubrögðum yfirvalda.

    Það þarf þessa virku endurskoðun á ákvöðunum, dómum og verklagi.

    Hvort sem um ræðir að yfirvöld taki sér vald sem þau hafa ekki, hvort þau brjóti á mannréttindum, hvort þau brjóti gegn jafnréttislögum, hvort þau mismuni fólki eftir uppruna, stöðu eða fjárhag… eða bara einhverju…

    Ef afleiðingarnar af því að misnota vald sitt hjá hinu opinbera eru = engar, þá er næsta víst að þeir sem þar starfa eru að misnota vald sitt í dag.

    Posted by: Kjartan Kjartansson | 15.08.2011 | 14:32:18

    ——————————————-

    btw: já, nokk sammála, það er margt sem mætti rannsaka í þessum efnum.

    Posted by: Kristinn | 15.08.2011 | 16:16:40

    ——————————————-

    Kristinn það er ekkert sjálfgefið í þessu máli og einmitt þessvegna á að rannsaka það. Venjan er sú að rannsaka sjálfsvíg með því hugarfari að hugsanlegt sé að það sé ekki sjálfsvíg og samkvæmt fjölmiðlaumfjöllun á sínum tíma, stóð til að þetta mál yrði rannsakað eins og önnur mál þar sem sjálfsvíg er fyrsta skýringin. Aldrei hefur frést neitt af því hvort sú rannsókn fór fram og því síður hvað kom út úr henni. Við eigum rétt á því að vita orsökina þegar maður deyr í höndum eina fólksins í landinu sem hefur lagalegan rétt til að beita ofbeldi.

    Posted by: Eva | 17.08.2011 | 17:28:32

    ——————————————-

    Eva
    Mér finnst kannski óþarfi að lögreglan sé alltaf
    rannsökuð, en það ætti að vera nóg að einn eða fleiri aðstandendur þess sem brotið er á krefjist svara til að þá sé sett í gang ferli þar sem t.d. er náð í erlenda sérfræðinga til að kanna málið.

    Eitthvað slíkt gæti ég ímyndað mér að væri jákvætt fyrir gæði starfa lögreglunnar.

    mbk,

    Posted by: Kristinn | 18.08.2011 | 14:02:54

    ——————————————-

    Af hverju er minni ástæða til að rannsaka svona mál þegar lögreglan á í hlut en annað fólk? Heldurðu að löggan sé öðru fólki ólíklgri til að drepa mann eða heldurðu kannski að ef ég hringi á sjúkrabíl til að sækja lík af manni sem gisti heima hjá mér, og gef þá skýringu á dauða hans að hann hafi hengt sig í teppi útafliggjandi, að þá yrði það ekki rannsakað nema ættingjar hans krefðust þess?

    Mér finnst ekki góð hugmynd að aðstandendur þurfi að fara fram á rannsókna því það eru einmitt einstæðingar sem mestar líkur eru á að deyi í höndum yfirvalda.

    Posted by: Eva | 18.08.2011 | 14:22:43

    ——————————————-

    Ég er að gera ráð fyrir því að þessi mál séu alltaf rannsökuð, en að við séum að tala um utanaðkomandi rannsókn þegar þurfa þykir.

    Þannig er ég tilbúinn að treysta að jafnaði á innra eftirlit lögreglunnar, en vil geta kallað á ytra eftirlit ef t.d. aðstandendum þykir maðkur vera í mysunni.

    Hugsanlega er það ekki nóg, en það virkar samt á mig sem kerfi sem setur lögreglunni skýran ramma, án þess að traust sé ekkert.

    Ég viðurkenni þó að ég hef ekki myndað mér skoðun á mikilvægi þess að fyrirbyggja ofbeldi gegn einstæðingum sem ólíklegt er að verði óskað eftir frekari rannsókn á. Kannski mætti samt einmitt hafa eftirlitið sjálfvirkt með þeim sem ekki eiga fjölskyldu og þannig ná að lágmarka að einhverju leyti kostnaðarsamt eftirlit.

    Posted by: Kristinn | 18.08.2011 | 14:36:18

    ——————————————-

    Mér finnst reyndar alveg fáránlegt að láta lögreglumenn rannsaka mál félaga sinna. Á Íslandi tíðkast sú ósvinna að þegar lögregluþjónn er kærður fyrir brot í starfi, má það embætti sem hann starfar fyrir fara með rannsókn málsins. Slíkt fyrirkomulag heitir ekki traust heldur spilling.

    Í fljótu bragði líst mér illa á þá hugmynd að aðrar reglur gildi um einstæðinga en annað fólk enda er ekkert alltaf augljóst hver er einstæðingur og hver ekki.

    Margir af góðkunningjum lögreglunnar og þeir sem helst eiga á hættu að verða fyrir lögregluofbeldi eru undirmálsmenn, fólk sem er félagslega illa statt og vegna óreglu, fáfræði, fátæktar og annarra vandamála, mjög illa í stakk búið til að kæra lögregluna fyrir vanvirðandi meðferð eða önnur brot í starfi. Oft á þetta fólk líka brotnar fjölskyldur sem lítinn stuðning geta veitt. Ég kynntist einu sinni ungum afbrotamanni sem átti fjölskyldu. Pabbi hans var róni, annar bróðir hans í fangelsi og hinn á vergangi, stjúpfaðir hans var líka í fangelsi, móðir hans í áfengismeðferð og systir hans inni á geðdeild. Eiga þessir aðstandendur að berjast við kerfið ef stráksi deyr í fangaklefa?

    Væri ekki bara eðlilegt að öll andlát séu rannsökuð af aðilum sem ekki hafa félagsleg eða tilfinningaleg tengsl við þá sem hugsanlegt er að séu viðriðnir málin?

    Posted by: Eva | 18.08.2011 | 14:58:32

    ——————————————-

    Innra eftirlitið þyrfti að vera sjálfstæð deild og eins óháð og hægt er.

    Mig grunar samt að í praksis sé snúð að notast við erlenda aðila fyrir öll svona mál. En mér kann að skjátlast um það.

    Annars var ég bara að velta því fyrir mér hvort gefið þætti að dauðsfallið í klefanum væri eitthvað annað en sjálfsmorð. Hef nú fengið úr því skorið.

    mbk,

    Posted by: Kristinn | 18.08.2011 | 16:35:02

    ——————————————-

    Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn og veðja á Sigríði.

    Posted by: Þráinn Jökull Elisson | 24.08.2011 | 18:02:56

Lokað er á athugasemdir.