Er Ramses glæpamaður og loddari?

Áhugaverð umræða um mál Pauls Ramses hefur farið fram á tjásukerfi Gunnars Th. Gunnarssonar síðustu daga. Gunnar varpar fram þeirri spurningu hvort Gervasoni málið sé að endurtaka sig. Ég útiloka ekkert þann möguleika. Flóttamenn í heiminum eru einfaldlega of margir til þess að sé raunhæft að gera ráð fyrir því að allir sem hingað leita séu sómamenn og drengir góðir.

Hitt finnst mér merkileg kenning að Paul Ramses sé ótíndur glæpamaður og skúrkur mikill, sem þrátt fyrir það hafi ekkert að óttast í heimalandi sínu. Enda ríki þar friður og spekt. Miðað við það litla sem ég veit um ástandið í Kenía, þá stríðir sú hugmynd að glæpamenn séu öruggir þar, einfaldlega gegn almennri skynsemi. Þess ber að geta að Gunnar tekur sjálfur fram að hann ætli ekki að dæma um málið. Ég er því ekkert sérstaklega að beina orðum mínum til hans, heldur vísa ég á skrif hans vegna umræðunnar í kjölfarið.

Mér virðist misskilningur um eðli mótmælanna vegna Ramses nokkuð útbreiddur, allvega á meðal moggabloggara (og það er rétt að komi fram að þessi svokallaða vinstri elíta sem Gunnar vísar til, er reyndar fólk úr öllum flokkum. Sem betur fer eru til sjálfstæðismenn sem virða mannréttindi) en sumir telja ranglega að allir vinstri menn vilji að Paul Ramses sé veitt hæli hér án nokkurra skilyrða og án þess að málið sé kannað. Það er sjálfsagt til fólk sem hefur þá afstöðu, rétt eins og er til fólk sem vill stökkva öllum útlendingum á burt, af því bara. Flestir eru nú sem betur fer með pínulítið betri raunveruleikatengingu.

Ástæðan fyrir þeirri miklu reiðibylgju sem hefur gripið um sig er ekki sú að Jesús hafi birst í skýjum himinsins og lýst því yfir að Paul Ramses sé vammlaus maður og sannarlega Guði þóknanlegur, heldur sú að opinber stofnun skuli senda mann sem segist vera í lífshættu burt, án þess að skoða málið.

Ef nágranni þinn bankar upp á hjá þér og segist vera í lífshættu, þá hlýturðu að byrja á því að tryggja öryggi hans og athuga svo hvað er hæft í því. Þú lokar ekki bara á nefið á honum og segir honum að hætta þessu rugli.

Loftur Altice Þorsteinsson, sem hefur tekið þátt í umræðunni á bloggi Gunnars, gefur upp eftirfarandi tengil

http://www.icenews.is/index.php/2008/07/08/kenyan-refugee-deported-from-iceland-moral-soul-searching-follows/

og skorar á fólk að lesa tjásurnar tvær. Önnur þeirra er frá íslenskri konu og hin frá manni sem heitir Nimo og virðist vera frá Kenía en búsettur hér. Ekki kemur fram hvenær hann kom eða hvað hann er að gera hér. Þessar tvær athugasemdir (einu heimildirnar sem ég hef séð um meintan skúrkshátt Pauls) eru vissulega nokkurrar athygli verðar en ef Útlendingastofnun hefur byggt ákvörðun sína á slíkum sögum, þá væri við hæfi að það kæmi fram. Þvert á móti gefur Útlendingastofnun það út að hún hafi ákveðið að taka málið ekki fyrir. Það er það sem þessi mótmæli snúast um, af því að siðaðar manneskjur bjarga fyrst og spyrja svo.

Ég get ekki gefið upp nöfn og kennitölur þeirra sem eru ofsóttir í Kenía. Ég veit ekki mikið um Kenía eða ástandið þar, en samkvæmt heimildum frá mannréttindasamtökum sem eru greinilega starfandi í einhverri allt annarri Keníu en þeirri sem hinir ónefndu heimildamenn Ómars Valdimarssonar þekkja, þá eru fleiri en Paul Ramses hræddir og hafa góða ástæðu til þess. Alda ofbeldis og glæpa gengur enn yfir landið og það að embættum sé úthlutað af ættrækni telst ekki einu sinni til spillingar. Fjöldi flóttafólks óttast enn að snúa til heimila sinna, þrátt fyrir valdboð ríkisstjórnarinnar þar um. Ef friður, spekt og mannúð einkennir Nairobi um þessar mundir, hvað er fólk þá svo hrætt við að það kjósi að hafast við í tjöldum fjarri heimilum sínum? Fjöldi manna situr í fangelsi án dóms eða einu sinni ákæru og Odinga og Kibaki bítast um hvað eigi að gera við þá. Meðlimir ríkisstjórnarinnar hafa kynt undir ættbálkaerjum og það hlýtur að teljast ævintýraleg hugmynd að samstarf þeirra sé til þess fallið að tryggja öryggi og frelsi í landinu.

Ég er alveg sammála Gunnari, Lofti og fleirum um að við þurfum að vanda okkur þegar við tökum á móti flóttafólki. Við eigum ekki að veita hverjum sem koma vill hæli án þess að kanna málið. Glæpamenn reyna örugglega að spila á kerfið og allt það.

Það er alveg hugsanlegt að Paul Ramses hafi eitthvað óhreint í pokahorninu. Vísum því Paul Ramses endilega burt ef hann reynist vera ótíndur glæpamaður sem á vísa mannúðlega meðferð í heimalandi sínu. En að vísa burt fólki sem kemur úr þessum aðstæðum;

http://hrw.org/english/docs/2008/06/16/kenya19137.html

http://www.hrw.org/photos/2008/kenya0308/

http://www.iht.com/articles/2008/05/06/africa/kenya.php

http://hrw.org/english/docs/2008/05/22/kenya18922.htm

http://hrw.org/english/docs/2008/04/03/kenya18421.htm

http://www.hrw.org/english/docs/2007/03/30/kenya15624.htm

og segist vera í lífshættu, án þess að kanna málið, það er bara ekki í lagi.

Eitt í viðbót, ég man ekki hvort það var í fréttum eða bara á einhverri bloggsíðu sem kom fram að Alþjóðahúsið hefði undir höndum gögn sem styddu þann framburð Pauls að hann sé ofsóttur. Getur einhver upplýst mig?

 

Share to Facebook

One thought on “Er Ramses glæpamaður og loddari?

  1. ————————————————–

    Mér finnst stórmerkilegt að þessar upplýsingar hafi ekki komið fram fyrr og ekki ennþá á íslenskum miðlum. Það væri nú gaman að fá skýringu á þessari meintu nafnafölsun.

    Eva Hauksdóttir, 10.7.2008 kl. 11:18

    ————————————————–

    Ég get aldrei tekið almennilega mark á kommentum frá fólki sem gefur ekki upp fullt nafn. Ég veit svo sem alveg af hverju ég stend við mína kröfu um að mál hans verði tekið fyrir: mér finnst ómannúðlegt að slíta fjölskyldur í sundur án þess að gera allt sem í mannlegu valdi er til að halda þeim saman ef það er það sem þær óska. Auðvitað væri gott að vita allt um Paul Ramses. Ég verð að vita að ég þekki hann ekki og á bágt með að dæma í máli án þess að þekkja allar hliðar en ég er alveg sammála þér Eva, ef einhver óttast um líf sitt og biður um hjálp, ber manni að hjálpa viðkomandi.

    Birgitta Jónsdóttir, 10.7.2008 kl. 13:10

    ————————————————–

    Það eru nú reyndar vera allt aðrir hlutir en skortur á föðurnafni sem vekja mér efasemdir um gagnsemi þess að ræða þetta mál við þig Ester en ég ætla nú samt að bjóða þér að gera betri grein fyrir máli þínu.

    Hvað áttu við með því að þau séu að ‘beita barninu’? Maðurinn var fluttur til Ítalíu með litlum sem engum fyrirvara, hann á konu og barn og það er nú bara staðreynd sem flestum finnst að geri málið ennþá átakanlegra. Skil ég það rétt að þér finnist það engu máli skipta þótt maður, sem opinberlega allavega, er ekki sakaður um annan glæp en þann að fara á milli landa í leit að öryggi, sé fluttur nauðugur burt frá fjölskyldu sinni?

    Sú hugmynd að það eigi að ritskoða alla útlendinga sem hingað koma er í skársta falli óhugnanleg. Þér hlýtur þá líka að finnast sjálfsagt að Íslendingur sem flyst til útlanda sæti sömu meðferð þar, jafnvel líka valdir Íslendingar á Íslandi, t.d. þeir sem hafa búið erlendis eða þeir sem hafa talað máli flóttamanna. Það var gáfað fólk með samskonar glórulaus viðhorf til eftirlits og persónunjósna sem skapaði Þýskaland nasismans, Ítalíu fasismans, Rússland Stalíns og Kína Maós. Ég vona þessvegna að þú sért mjög heimsk kona Ester því heimskir fasistar eru töluvert minna skaðlegir en þeir kláru.

    Eva Hauksdóttir, 10.7.2008 kl. 13:50

    ————————————————–

    Það er nákvæmlega það sem málið snýst um Ester, það á að skoða það, ekki að vísa því frá og jú, mér finnst að það eigi að gilda um alla þá sem sækja um hæli.

    Vernda fyrst.

    Spyrja svo.

    Ákveða sem fyrst, með mannúð og réttlæti að leiðarljósi.

    Eva Hauksdóttir, 10.7.2008 kl. 14:24

    ————————————————–

    Mér finnst þú taka skynsamlega afstöðu Eva.  Það þarf auðvitað að skoða mál mannsins vandlega en það hefði sannarlega verið auðveldara og betra að gera það án þess að senda hann úr landi fyrst og gera það ekki fyrr, og aðeins eftir að fólki hefur misboðið vegna fjölskyldumála hans. Ég er ekki viss um að bloggið og nafnlausir /dulnefna póstar á fréttasíður séu besta heimildin um manninn eða best til að dæma mál hans. Hver sem er gæti spunnið upp svona sögu undir nafninu Nimo eða trúður eða hvað sem er, ef þeir vilja hafa horn í síðu mannsins. Ég hef stundum unnið sem ritrýnir og mér sýnist á málfari og orðræðu sá sem skrifar sé ekki mjög málefnalegur í ræðu sinni, og hann er heldur ekki flinkur að færa rök fyrir máli sínu, sbr. krufningu hans á þjóðfélagsástandinu í Kenýa.

    Anna Karlsdóttir, 11.7.2008 kl. 00:21

    ————————————————–

    Ég gef fullt nafn svo það sé þess virði að tala við mig  en svo að ég komi mér að efninu þá er þessi umræða um sekt eða sakir alveg hrikaleg vitlaus og er ég svo innilega sammála Ester um það að beita barninu sem vopni. Mér finnst það vera tilraun til að henda ryki í augun á okkur og er ég hrædd um að það er eitthvað sem er ekki alveg eins og það á að vera. Ég er enginn rasisti en þannig er að ég vil láta herða eftirlit og takmarka mjög þá erlenda aðila sem fá hér atvinnu, dvalar eða flóttamanna leyfi. Ég sem barn ólst upp í DK og var það þá mjög fjölskylduvænt og gott hverfi sem ég bjó í en í dag er þetta upp fullt af erlendum glæpahyski og vilja ekki leigubílstjórar fara þar inn. Mér finnst það sárt að geta ekki farið að heimsækja æskustöðvar mínar og verið örugg þar. Og það lítur allt út fyrir það að það er að sigla í svipað ástand hér á landi, spurningin er einföld eigum við að hugsa um okkar hag eða annarra. Ég segi okkar. Ef ég fengi að ráða mundi ég nú losa öll fangelsi landsins við þá erlendu fanga sem þar eru og senda heim og ef þeir eiga hér fjölskyldu þá hefðu þeir átt að hugsa um það áður en þeir ákváðu að brjóta lögin okkar. Mér skilst líka að P.R hefði verið sendur til Ítalíu til að byrja rétt á ferlinu um pólitískt hæli. Og er hann ekki á Ítalíu að vinna í sínum málum. Slökum aðeins á svo við lendum ekki í öðru KOI B drama þar sem hann snéri rækilega á kvenþjóðina. Og konur slökum á í að vera harðorðar og móðga hvor aðra vegna mismunandi skoðana við búum í lýðræðis ríkinu Ísland!

    Magnea Helgadóttir (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 20:20

    ————————————————–

    Ég styð alfarið að maðurinn fái pólitískt hæli hér á landi – enda aldrei sýnt af sér neitt nema gott til okkar íslendinga. Starfaði um tíma fyrir ABC barnahjálp við að stofna skóla í Naróbí.

    Ása (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 20:23

    ————————————————–

    Þetta blogg þitt segir eiginlega allt sem segja þarf um málið.

    Sigurður Þór Guðjónsson, 13.7.2008 kl. 11:54

Lokað er á athugasemdir.