Eftir hverju er ríkissaksóknari að bíða?

Þjóðþekktur maður og ung unnusta hans liggja undir grun um að hafa framið svívirðilegan glæp. Meira en þrír mánuðir eru liðnir síðan stúlkan lagði fram kæru. Á þessum 14 vikum sem liðnar eru frá því að málið komst í fjölmiðla, hefur lögreglan sent málið til ríkissaksóknara, sem aftur henti málinu í lögguna. Löggan  hefur væntanlega komist að þeirri niðurstöðu að málið sé dómtækt því nú berast fréttir af því að ríkissaksóknari ætli að taka sér tvo mánuði í að ákveða hvort hún gefur út ákæru eður ei.

Á meðan bíður 18 ára stúlka niðurstöðu í máli sem að líkindum er það erfiðasta sem hún hefur gengið í gegnum á sinni stuttu ævi. Meintir gerendur hafa áreiðanlega ekki upplifað neitt erfiðara heldur. Það að málið hefur verið rekið í fjölmiðlum, og það að þekktur maður á í hlut, gerir þetta mál óvenju erfitt, fyrir alla sem í hlut eiga. Maður hefði haldið að þessvegna yrði þessu máli flýtt eins og mögulegt er.

Hversvegna tekur þetta svona langan tíma og hversvegna eru lögreglan og ríkissaksóknari að kasta þessu máli á milli sín eins og heitum knetti sem enginn vill snerta? Af hverju er ekki löngu búið að gefa út ákæru í málinu ef það er rétt sem komið hefur fram í DV að sönnunargögn á borð við læknisaðgerð liggi fyrir? Nú þekki ég ekki vinnuferli ríkissaksóknara en væri ekki eðlilegt, svona í ljósi þess að þetta er viðkvæmt mál sem hefur fengið mjög mikla fjölmiðlaumfjöllun, mál sem snertir barnunga manneskju, að setja það í algeran forgang?

Er lögreglan virkilega ekki búin að rannsaka málið nógu vel til að auðvelt sé að skera úr um hvort það á heima fyrir dómstólum eða ekki? Hvar er læknisskýrslan? Hvar er framburður leigubílstjóra sem að sögn DV varð vitni að atburðum sem ganga mannráni næst?  DV segir líka frá skilaboðum frá stúlkunni sem vinkonu hennar bárust um nóttina, þar sem fram kemur að þau vilji kynlíf með henni en hún kæri sig ekki um það. Einnig að daginn eftir hafi borist skilaboð frá parinu um að hún ætti að halda þessu leyndu. Nú er hægt að finna textaboð og talhólfsboð þannig að það er  auðvelt að færa sönnur á þetta. Rifnar sokkabuxur sanna ekkert einar og sér en þegar þær bætast við allt annað þá hefði maður haldið að máli lægi nokkuð ljóst fyrir.

Af hverju er ekki borðleggjandi að ákæra í þessu máli?  Hefur ríkissaksóknari einhverja ástæðu til að halda þremur manneskjum og fjölskyldum þeirra í gíslingu eða finnst henni málið bara nógu óþægilegt til að ýta því á undan sér?

Share to Facebook

20 thoughts on “Eftir hverju er ríkissaksóknari að bíða?

  1. @Eva: ,,Er lögreglan virkilega ekki búin að rannsaka málið nógu vel til að auðvelt sé að skera úr um hvort það á heima fyrir dómstólum eða ekki?“

    Kannski er ástæða tafarinnar sú að málið snýst ekki um rannsókn og dómstóla, sekt eða sýknu, heldur kynjapólitík.

    Hlutaðeigendur gjalda þess.

  2. Ég hef svosum ekkert útá þennan pistil að setja annað en að 18 ára stelpa er varla „barnung“ – og mér leiðist hvernig stanslaust er verið að ýja að því að allt sé barnaklám eða barnanýð

    Ég svaf 19 ára hjá sirka þrítugri konu (og ég hef sofið líka hjá töluvert yngri konum) – aldrei í lífinu myndi mér detta í hug að þrítuga konan hefði sofið hjá mér vegna þess að hún væri með einhverja dormant barnagrirnd

    Við skulum ekki gera þessi mál ógeðslegari en þau eru fyrir

  3. Eftir skilgreiningu laganna er fólk börn til 18 ára aldurs, þannig að í þeim skilningi er þessi stúlka barnung og mér finnst að ríkissaksóknari eigi að setja mál gagnvart mjög ungu fólki í forgang.

    Það hvernig við skilgreinum börn og fullorðna veltur svo aftur bara á menningu og tíma. Ef fólk byrjar að stunda kynlíf um 15 ára aldur, þá ætti það að mínu mati að vera fullfært um að taka ábyrgð á sínu eigin kynlífi 18 ára, svo ég get tekið undir það viðhorf að það sé ógeðfellt að tengja það barnagirnd að sofa hjá ungri konu eða karli. En þegar við erum að tala um hugsanlegt ofbeldisverk, þá finnst mér vel mega taka tillit til aldurs enda ber þolandi ekki ábyrgð á nauðgun. Þar með er ég ekki að slá því föstu að Egill og kærastan hans séu nauðgarar, vel má vera að fyrir liggi einhver gögn sem ekki hafa fengið umfjöllun fjölmiðla en stúlkunnar vegna ætti að drífa þetta af.

  4. Ég skil lagaröksemdina – en stúlkan í þessu tilfelli er kominn yfir 18 ára aldur. (þ.e. hún er ekki einu sinni barn í þessum formlega lagalega skilningi)

  5. Enda sagði ég það ekki. Ég sagði að hún væri barnung og það ætti fjandinn hafi það að duga til að sparka í rassinn á saksóknara. Eða finnst þér að aldur stúlkunnar séu ekki góð rök fyrir því að flýta viðkvæmu máli sem hefur verið mikið í fjölmiðlum?

  6. Mér fynnst fyrst og fremst að mál eigi að vera vel unnin (hraði er þar factor líka jú)

    En að dómstólar og ríkissaksóknari eigi að taka sérstakt tillit til mikillar fjölmiðlaumfjöllunar er fáránleg krafa (ætti eiginlega að segja sig sjálft)

  7. Ekkert fer á milli mála að bæði kynferðisbrotadeild sem og embætti saksóknara fer með þetta mál að teknu tilliti til þess hver á í hlut en ekki hvernig það er vaxið. Það er augljóst. Sú staðreynd er hrollvekjandi – að hæværir lobbýistar og öfgasamtök geti haft áhrif á lög og rétt. Jafnframt er það hrollvekjandi að fjölmiðlar þori ekki að snerta á því atriði, sem ætti vitaskuld að teljast stórfrétt.

    Yfirlýstir femínistar, sem hafa stöðu innan hins opinbera, hafa sett pressu á málið burtséð frá rannsóknargögnum. Ummæli Sóleyjar Tómasdóttur eru þekkt og strax, um leið og málið kom upp, skrifaði Drífa Snædal athyglisverðan pistil, http://blogg.smugan.is/drifa/2011/12/02/eg-heimta-opinbera-kaeru/, þar sem segir m.a.:

    „Það er því á ábyrgð hins opinbera að styðja hana í gegnum málið því aðeins þannig munum við komast nálægt einhverjum sannleika í málinu.“ Á ábyrgð hins opinbera að hvað, standa með öðrum aðilanum í sakamáli? Sú er krafan. Já og vá!

    Þeir sem vilja hafa DV sem heimilid í þessu máli ættu að hugsa sig um tvisvar; sá fréttaflutningur er kapítuli út af fyrir sig, algerlega einhliða og ber dám af því að DV hafi svarað kalli Drífu svo um munar.

    Ég frétti af því að Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sem fer með málið hjá Saksóknara, hafi verið með fyrirlestur í HR fyrir skömmu, þar sem þetta mál kom til tals og talaði hún þar á þeim nótum að hún ætlaði að leita allra leiða til að kreista fram ákæru.

    Sko, nú skal enginn misskilja mig, hvernig sem þetta mál velkist og fer, hvort sem finnst sök hjá Agli og hans kærustu eða þeirri sem kærir, varðandi rangar sakagiftir, um það veit ég ekkert og get ekkert sagt um. En málsmeðferðin er svo skuggleg að það setur að mér óhug. Vill fólk virkilega að kerfið og dómsstólar praktiseri lýðskrum og fari í manngreinarálit í málum sem þessum? Eftir því hvernig vindar blása og hvaða öfgahóp er best að halda góðum? Ef svo er getum við eins lagt þetta allt af og farið bara í þetta gamla góða, dómstól götunnar og linchum bara gæjann strax.

  8. P.s

    Það virðist gleymast að samfélagið er ekki fyrir dómi í þessu máli heldur tveir einstaklingar

    Dómstólar eru til þess að dæma einstaklinga seka eða saklausa en ekki til þess að taka þátt í meðvitaðri samfélagsmótun (reyndar er reynt að koma sem messt í veg fyrir að dómar taki mið af samfélagsstraumum)

  9. Jakob Bjarnar, nú ertu kominn út á hálan ís. Það er engin fokkings vegur að Hulda Elsa hafi sagt eitthvað þessu líkt í tíma í HR. Þetta verður þú að bera til baka ef þú hefur ekki aðrar heimildir fyrir því en kjaftasögur.

  10. Eva, slakaðu aðeins á. Ég sagðist hafa heyrt þetta og þannig er þetta fram sett. Heimildir fyrir þessu er þær og engar aðrar. M.ö.o. ég var ekki á staðnum og hef svo sem engan nafngreindan til að vitna í. Hugsanlega ætti einhver blaðamaður að spyrja hana útí þetta?

    Sannast sagna þá þykir mér það ekki ótrúlegra en svo að ég leyfði mér að hafa á þessu orð — en þetta er náttúrlega algjör tittlingaskítur í hinu stóra samhengi.

    Og hvernig í ósköpunum stendur á því að þeim sem voga sér að gagnrýna þessa fráleitu málsaðferð er gert að tippla á tánum, og setja fyrirvara við hvurt smáatrið sem sett er fram, meðan þeir sem standa fyrir hinum óeðlilega þrýstingi láta allt fjúka, hvursu hæpið sem það er, án þess að nokkur svo mikið sem setji spurningarmerki við það? Hefurðu velt því fyrir þér?

  11. Sat þennan tíma.
    Þetta mál bar upp vegna fyrirspurnar í samhengi við umræðu um hvort mál sem fengju mikla fjölmiðlaumfjöllun ættu að fá forgang í kerfinu. Að öðru leyti var ekki talað um neitt nálægt þessu máli. Að halda öðru fram er mjög skrautlega farið með sannleikann.

  12. Kærar þakkir Hulda. Ég var búin að heyra þetta annarsstaðar í tveimur misskrautlegum útgáfum, líka sögur af því að þetta hefði verið svo rosalegt að fólk hefði gengið út. Mér fannst þetta frekar ótrúlegt en þegar Jakob Bjarnar póstaði kommenti um þetta við annan pistil hjá mér fannst mér rétt að auglýsa eftir nákvæmum upplýsingum um það hvað málið snerist um. Hvað sagði hún eiginlega?

  13. Vá, þegar snjóboltinn byrjar að rúlla. Þetta var mjög rólegur og bara eðlilegur tími.
    Hún talaði einungis um að þetta mál fengi sömu meðferð og önnur mál, þ.e. yrði ekki tekið fram fyrir röðina. Allt og sumt.

  14. Sömu meðferð?

    Já, ekki að ég ætli að fara að þrasa við þig um þetta sem sjónarvott, Hulda, en engu að síður virðist fara tveimur sögum af þessum tíma. Var þetta ekki rætt eitthvað í tengslum við Kahn-Strauss-málið? Sem mér skilst að nafna þín Elsa hafi nú ekki gefið mikið fyrir að hefi verið sýknaður. Menn líta þetta sjálfsagt hver sínu auganu, það liggur fyrir.

    Hvað varðar mál Egils þá passaði Hulda Elsa sig á því að hafa það aftast í röðinni þegar það kom til embættisins, þrátt fyrir að fordæmi séu fyrir því að láta mál sem þessi, „high profile“, vera í forgangi. Ekkert er athugavert við það þegar haft er í huga að viðkomandi er í kastljósinu og má sitja undir því sem slíkur. Þegar Hulda Elsa hafði hent þessari sjóðheitu kartöflu milli handa sér eins lengi og hún þoldi sendi hún það aftur til rannsóknar. Þá ofbauð þeim sem hafði þetta mál til afgreiðslu þar svo mjög að hann sagði sig frá því. Hulda Elsa sendi málið til baka vegna þess að hún vildi fá eitthvað meira og nánar um PTSD. Þegar það kom aftur frá kynferðisbrotadeild var málið þá sett aftast í röðina.

    Finnst einhverjum þetta eðlileg afgreiðsla? Og, leikur engum öðrum en mér forvitni á að vita undir hversu mikilli pressu saksóknari er, hverskonar pressu og hvaðan sú pressa kemur? Öll málsmeðferðin segir okkur einfaldlega að þetta er mjög dúbíus. Ykkur hefur ekkert dottið í hug að spyrja nánar út í það, þessum sem í tímanum voru?

  15. Jakob Bjarnar, hvað veist þú um það hvaða gögnum ríkissaksóknari óskaði eftir þegar þessu var hent aftur í lögguna? Hefur þetta einhversstaðar komið fram eða ertu að ljóstra upp um trúnaðarmál á blogginu mínu?

    Ég er alveg sammála því að það er verulega óheppilegt að þetta mál skuli ekki sett í forgang og já, það að löggan og ríksi skuli henda þessu svona á milli sín vekur spurningu um hvort enginn þori að vísa þessu frá eða hvort rannsókn lögreglu hafi verið ábótavant.

  16. Auðvitað tel ég mig hafa heimildir fyrir því sem ég er að skrifa hérna. Flokkarðu þetta sem einhverjar sérstakar viðkvæmar trúnaðarupplýsingar? Sem þó snýr eingöngu að hinum ytri málatilbúnaði og afgreiðslu saksóknara, sem er í meira lagi dúbíus. Jahérna hér. Meðan ekki nokkur maður þorir svo mikið að impra á því að ýmislegt sem DV hefur slegið upp um þetta mál, algjörlega einhliða, kunni að orka tvímælis. Eða að menn efist um það. Mér finnst ekki einleikið hvað gleraugun eru skökk orðin á nefi fólks.

  17. Já Jakob, ég flokka öll gögn þessa máls sem trúnaðarupplýsingar og ég held að allt sem gert er opinbert geti skaðað rannsóknina. Fjölmiðlafulltúri Stígamóta (sem vinnur á DV) hefur verið svo ósmekklegur að upplýsa þjóðina um ýmis sönnunargögn en þegar nánar er að gáð er ekki að sjá að hún hafi leitað neinna staðfestinga. Hún hefur sögu eftir vinkonum stúlkunnar en spyr engan annan álits, ekki lækni, lögreglu, þau sem ásökuð eru eða neinn annan. Egill og frú svara því svo með myndbirtingu í Pressunni. Ég get skilið það að snúast til varnar á þann hátt en það var ekki gott move.

    Ef það er rétt tilgáta hjá þér að ríkissakóknari viðhafi óeðlileg vinnubrögð í þessu máli, þá er sjálfsagt að fletta ofan af því. Það eru hinsvegar ekkert óeðlileg vinnubrögð að óska eftir PTSD greiningu (ef hún hefur þá gert það.) Það væri óeðlilegt að byggja málið á slíkri greiningu því eins og Svandís Nína orðaði það; áfallastreituröskun sannar ekkert nema áfallastreituröskun, en ef það er rétt hjá DV að mikið sé til af haldbærum sönnunargögnum, þá er sjálfsagt að benda á andlegt ástand stúlkunnar líka. Það hefur enn ekkert komið fram sem styður þá kenningu þína að Hulda Elsa hafi sagt eitthvað óviðeigandi um þetta mál í HR og kannski ættum við bara að gefa því séns að hún vilji fá vandaða rannsókn áður en hún tekur ákvörðun. Ég hef séð dæmi um alveg ótrúlega illa unnar lögreglurannsóknir og kannski er skýringin á því að þetta fór aftur til löggunnar bara sú að eitthvað hafði ekki verið skoðað nógu vel.

  18. Mín ágæta Eva!

    Ég tek undir mér þér í þessu, þetta er allt hárrétt hjá þér. Ég vona að ég hafi ekki teygt mig of langt (án þess að þú þurfir endilega að setja fyrirvara við þær upplýsingar sem ég hef sett fram) en ég furða mig á því að þú ein sért til að fjalla um mjög svo óeðlilega afgreiðslu þessa máls. Og vil þakka þér fyrir þennan nýja og mjög svo vandaða greinarflokk um áfallastreituröskun (vont orð) og öfuga sönnunarfærslu. Ég deili sannarlega með þér áhyggjum vegna þessa; að hin mjög svo skiljanlega reiði í þessum málaflokki geti leitt menn í gönur og í átt að réttarmorðum.

    Ég sat til dæmis fund í Lögbergi fyrir margt löngu og hlustaði á nokkur erindi löglærðra um mansal. Þetta var í tengslum við vinnslu bókarinnar um hana Catalinu. Hún var sýknuð vegna ákærunnar um mansal en dæmd fyrir hórmang. Samt hlaut hún gríðarlega þungan dóm, nánast eins og hún hafi verið fundin sek um mansalsliðinn. Sem ætti að vera mönnum umhugsunarefni, heldur betur. Jæja, en, þar kom meðal annars fram að það væri afskaplega erfitt að ná í skottið á þeim óbermum sem slíka iðju stunda og að nú væri unnið að endurskoðun laganna. Ég heyrði ekki betur en að ríkjandi væri sú hugmynd að til þess að ná í þessi mansalsidíót þyrfti að víkka hugtakið; gera ætti meira með að þau væru að misnota sér bágborna (fjárhags)stöðu fórnarlamba. (Kannski ekki ósvipað og með þetta PTSD-dæmi). Og ég fékk ekki betur séð en þar væru menn að freistast til að teygja sig svo langt að hætt er við að hugtakið verði í raun ónothæft — eigi hreinlega við um marga launamenn. Þar með er þetta háð duttlungum dómara og það kann sannarlega ekki góðri lukku að stýra því þeir geta verið óttalegir fánar.

    Kveðja,
    Jakob

Lokað er á athugasemdir.