Þrjúþúsund sjöhundruð níutíu og sex

Þegar ég kom til Íslands í sumar líkti ég sölu á grænmeti og ávöxtum á Íslandi við skipulagða glæpastarfsemi. Ég er nefnilega vön að kaupa gulrætur á 181 kr/kg í Glasgow og tvær melónur saman á sem svarar 544 kr. (tilboð sem hefur verið í gildi í matvörubúinni næst okkur þessa 18 mánuði sem ég hef búið þar.) Ég fann þessar vörur ekki á svipuðu verði í Reykjavík. Stuttu síðar birtust fréttir af því að á Íslandi væri  innkaupakarfan ódýrust á Norðurlöndum og þótt víðar væri leitað. Halda áfram að lesa

Að falla fyrir kapítalískri lygi

lamin-löggaÍ kjarabaráttu verður hver stétt sú mikilvægasta í veraldarsögunni og jafnframt sú vanmetnasta og sú göfugasta. Munið eftir auglýsingunni sem sýndi eymingja lömdu lögguna með búsó í bakgrunni? Jesús minn hvað löggi litli átti bágt. Mig langaði mest að hugga hann og gefa honum kjötsúpu.

Halda áfram að lesa

Er vöruúrval fátæklegra eftir umsvif Baugs?

Kunningi minn heldur því fram að þótt vörumerkjum hafi fjölgað, hafi nú samt sem áður verið fjölbreyttara vöruúrval í íslenskum matvörubúðum fyrir tilkomu Baugs, ef maður lítur á yfirflokkana. Það hafi kannski bara verið til eitt vörumerki af hverri tegund en allskyns matur sem nú er ófáanlegur, svosem niðursoðnar ansjósur og enskt sinnep, hafi verið í boði. (Reyndar eru niðursoðnar ansjósur fáanlegar og hægt er að kaupa duft í enskt sinnep.) Halda áfram að lesa

Krossapróf fyrir bótaþega

Í tilefni af þessari frétt

Það er auðvitað óþolandi bæði fyrir skattgreiðendur og fyrir fólk sem þarf á aðstoð samfélagsins að halda að nokkrar manneskjur skuli vera á bankastjóralaunum hjá Tryggingastofnun og nota þær tekjur til að greiða skuldir eða fjármagna ofneyslu. Það er líka óþolandi fyrir fólk sem er raunverulega í neyð að þurfa að bíða 20 mínútum lengur í röðinni af því að fólk sem notaði örorkubæturnar til að borga af lánum, telur sig eiga rétt á ölmusu.

Ég legg til að áður en fólki eru úrskurðar bætur af nokkru tagi, verði það látið gangast undir próf til að kanna hvort það skilji til hvers á að nota bæturnar. Það væri hægt að gera þetta með einföldu krossaprófi. T.d. svona: Halda áfram að lesa

Aðeins mannúðlegra

Nánast daglega er ég spurð (oftast í netspjalli) hvernig sé að búa í Danmörku. Ég get í rauninni ekki svarað þessu þar sem ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort ég bý frekar í Danmörku eða úti á landi. Það má vel vera að lífið í Kaupmannahöfn sé öðruvísi en hér í hundsrassi. Ég er heldur ekkert vel inni í dönsku samfélagi, umgengst mest Íslendinga. Ef ég ætti að dæma Dani út frá konunum á elliheimilinu myndi ég segja að þeir væru óttalegir útnáraþumbar en ég hef nú ekki trú á að þröngsýnin sé allsstaðar á sama stigi. Halda áfram að lesa

Barnfyrirlitning og fjárhættuspil – hvort er ósiðlegra?

Pottþétt ráð fyrir foreldra sem vilja losna algerlega við að eiga samskipti við börnin sín!
Kaupið aðgang að grilljón sjónvarpsstöðvum, plantið grísunum fyrir framan imbann og sofið fram eftir degi. Hendið svo börnunum í bælið eins snemma og mögulegt er og setjist sjálf fyrir framan sjónvarpið.

Þetta er inntak skilaboðanna í auglýsingu sem var troðið upp á mig á meðan ég var á Íslandi.

Nú skilst mér að Ragna ráðherra ætli að leggja fram frumvarp sem eigi að hindra erlenda aðila í því að troða veðmálaauglýsingum upp á okkur. Þótt mér finnst óhugnanlegt hversu erfitt er að forðast það að verða fyrir áhrifum af auglýsingum, vil ég nú samt ekki banna þær alfarið. Mér finnst reyndar að megi vel setja einhver skilyrði um það hvaða aðferðum er beitt, t.d. ætti maður ekki að þurfa að afþakka auglýsingabæklinga sem er troðið í póstkassann hjá manni.

Ég dreg í efa að þetta frumvarp Rögnu sé samfélagsbætandi. Ég hefði orðið nokkuð kát ef hún, eða einhver annar, hefði tekið fyrir þá ósvinnu að mennta- og heilbrigðisstofnanir þurfi að gera út á peningagræðgi almennings til að geta boðið upp á góða þjónustu en að banna fyrirtækjum sem ekki eru í eigu hins opinbera að höfða til græðgi eða greddu, það finnst mér út í hött, allavega á meðan viðbjóðsfyrirtæki sem þrífast á barnaþrælkun eru látin óáreitt. Ég held að fæst bönn séu best.

Hvað varðar viðbjóði sem gera út á barnfyrirlitningu eins og þá sem skín í gegn í auglýsingunni sem ég vitnaði til í upphafi þessa pistils, þá vil ég ekki einu sinni láta banna þær. Endilega leyfum þessum drullusokkum að afhjúpa sig. Aðeins þannig er hægt að sniðganga þá.

Þótt sé reyndar lítil von til þess að jafn barnfjandsamleg þjóð og Íslendingar, standi í því að sniðganga þá sem hjálpa þeim að vanrækja börnin sín

 

Hættum að borga

Ég er hætt að borga af húsnæðisláninu mínu og ég hvet aðra til þess sama. Jú, það er áhætta en ég trúi því að nú sé almenningur búinn að fá nóg af þeirri okurvaxtastefnu sem viðgengst hér og sé tilbúinn til að grípa til aðgerða.

Breið samstaða um að hætta að borga af lánum hjá ríki og bönkum verður öflug mótmælaaðgerð, án nokkurrar hættu á meiðslum, eignatjóni eða handtökum. Allsherjar greiðslustræk myndi valda svo miklum vandræðum að það ætti að sannfæra þessa heyrnarlausu ríkisstjórn um að við sættum okkur ekki við að nokkrir leynimakkarar ákveði einhliða að almennir borgarar taki að sér að greiða skuldir sem þeir hafa ekki ábyrgst. Fáir Íslendingar eiga skuldlaust húsnæði og þeir sem eiga það eru flestir með einhverjar aðrar skuldir í bönkum. Það er hægt að kúga einstaklinga, en það er ekki hægt að bera 300.000 manns út af heimilum sínum og gera meirihluta þjóðarinnar gjaldþrota.

Hættum að borga og krefjumst þess að verðtrygging verði afnumin. Krefjumst þess að í stað þess að grafa undan láglaunafólki, verði laun bankastjóra og ráðherra lækkuð verulega, þingmönnum fækkað og kjör þeirra skert, sendiráð víðast hvar lögð niður, allt bruðl-að-geðþótta-ráðherra-fé tekið af ráðuneytum og allt sem kallast risna á vegum hins opinbera afnumið. Við getum náð fram hverju sem samstaða næst um, bara með því að hætta að borga. Ef næst breið samstaða gæti jafnvel einn mánuður dugað.

Hvort sem við erum í fjárhagsvandræðum eða ekki, stöndum saman um að senda ráðamönnum skilaboð sem þeir skilja, með því að sjá til þess að þann 1. desember fari eins lítið fé inn í bankakerfið og ríkiskassann og mögulegt er. Hættum að borga.