Eru þessar dagsetningar tilviljun?

 

Þann þriðja júlí 2008 hófst barátta fyrir réttindum flóttafólks á Íslandi fyrir alvöru. Atburði dagsins þekkja flestir. Eldhugarnir Jason Slade og Haukur Hilmarsson hlupu inn á flugbraut og röskuðu með því flugáætlun. Markmiðið var að hindra brottvísun pólitísks flóttamanns Pauls Ramses. Ramses var samt sem áður sendur til Ítalíu en í kjölfarið héldu Birgitta Jónsdóttir og Hörður Torfason hvern mótmælafundinn á fætur öðrum og að lokum var Paul Ramses leyft að koma til Íslands og hér er hann enn. Ekki vegna þess að ríkisvaldið hafi hlustað á Jason og Hauk, heldur vegna þess að hann átti fullan rétt á því og þegar kom í ljós að mikill fjöldi almennra borgara var meðvitaður um það, þá þorðu yfirvöld ekki að halda brotum sínum áfram.

Færri vita að þrátt fyrir að ríkið hafi með því að taka við Ramses viðurkennt mistök sín voru Jason og Haukur dregnir fyrir dóm og sakfelldir á grundvelli ákæruliðar sem ekki var getið í ákæru. Hæstiréttur vísaði málinu heim í hérað aftur og ákæruvaldið fékk nýtt tækifæri til að ofsækja þá fyrir að framfylgja mannréttindum. Þeir voru sakfelldir öðru sinni og Hæstiréttur staðfesti þá ósvinnu en dómnum var aldrei framfylgt.

Flugvallarhlaupið hafði gífurleg áhrif og þeir skipta hundruðum sem lagt hafa hönd á plóginn í þessari baráttu. Önnur aðgerð sem miðaði beinlínis að því að hindra flugtak var gerð þann 26. maí 2016, þegar tveir liðsmanna No Borders, Jórunn Edda Helgadóttir og Ragnheiður Freyja Kristínardóttir reyndu að koma í veg fyrir ólöglega brottvísun flóttamanns frá Nígeríu. Aðferð þeirra var fullkomlega friðsamleg og skapaði enga hættu. Þær stóðu upp, í flugvél sem var að undirbúa flugtak, sögðu farþegum frá því að í vélinni væri maður sem nú ætti að flytja burt enda þótt hann væri á flótta undan Boko Haram. Þær voru handteknar og brottvísun Eze Okafor framfylgt.

Í júlí 2018, rétt rúmum 10 árum eftir flugvallarhlaup Hauks og Jasons, sýndi sænsk baráttukona, Elín Ersson, afgönskum flóttamanni samstöðu með sömu aðferð. Hvort aðgerð Jórunnar og Ragnheiðar varð hinni sænsku Elin Ersson hvatning til þess að beita sömu aðferð skal ósagt látið, það er í sjálfu sér ekkert sem bendir beinlínis til þess. Áhugavert er þó að Jórunni og Ragnheiði var birt ákæra vegna aðgerða þeirra sama dag og Elin Erson var ákærð í Svíþjóð. Aðalmeðferð í máli Jórunnar Eddu og Ragnheiðar Freyju hefst 6. mars. Nákvæmlega ári eftir að við fengum fréttirnar af Hauki. Það fer að nálgast ár síðan við fengum þessar fréttir og það hefur verið á hreinu allan tímann að við efumst mjög um þá dagsetningu sem hersveitir Kúrda segja hann hafa fallið, 6. mars hefur mun meiri þýðingu í huga aðstandenda Hauks en 24. febrúar. Ég hef ekki trú á því að þessar dagsetningar séu helber tilviljun. Ég held að þetta eigi að vera einhverskonar skilaboð til þeirra sem sýna flóttafólki samstöðu enda er það eingöngu fyrir þrýsting frá almennum borgurum sem ástandið hefur þó skánað.

Samúð og hjálpfýsi eru sammannlegir eiginleikar. En það er sjaldgæft að fólk sé tilbúið til þess að taka áhættu til að hjálpa öðrum. Við getum öll lent í þeirri aðstöðu að þurfa á fólki eins og Jórunni og Freyju að halda. Ég verð ekki á landinu þann 6. mars en ætla að minnast Hauks með því að vekja athygli á máli Jórunnar og Freyju daglega fram að því. Þið sem verðið í aksturfjarlægð og viljið minnast Hauks á þessum táknræna degi gætuð ekki fundið betri leið til þess en þá að mæta í Héraðsdóm Reykjavíkur til að sýna Freyju og Jórunni stuðning. Ekki bara þeim heldur líka Hauki og Jason, Elin Ersson og öllum öðrum sem sýna það hugrekki að hætta frelsi sínu til þess verja mannrétti annarra. Það eru nefnilega sjálfsögð mannréttindi að þurfa ekki stöðugt að óttast um líf sitt, frelsi, öryggi og mannlega reisn.

 

Stuðningsfólk Jórunnar og Ragnheiðar hefur nú opnað vefsíðu þar sem hægt er að fylgjast með framgangi málsins og kynna sér efni sem tengist réttinum til að sýna samstöðu.

 

 

Þannig lýsir spilling sér

Ég fann þessa fallegu mynd af lýðræðinu hér
Ég veit ekki hver setti hana saman

 

Skömmu fyrir jól birti þingmaður nokkur Facebook-færslu þar sem hann undrast umræðuna um spillingu á Alþingi. Hann verði lítið var við spillingu þar á bæ og skilji ekki hvernig hún ætti eiginlega að lýsa sér.

Það er eitt einkenni spillingar að þeir spilltu sjá hana ekki. Vegna þess að þeir telja sig í fullri einlægni eiga heimtingu á henni. Álíta sjálfa sig borna til meiri réttinda og lísgæða en annað fólk. Þeir óspilltu sem lifa í andrúmslofti spillingar verða samdauna. Hætta að sjá nokkuð rangt við sjálftöku og frændhygli félaga sinna. Finnst ekkert stórmál þótt þeir  komi sér undan aga. Að því leyti má segja að margur sé heiðarlegur í spillingu sinni. Einlægni þingmannsins sem skilur hreinlega ekki um hvað við erum að tala, er hluti af vandamálinu, þótt hann sé ekki spilltur sjálfur.

Hvað er spilling?

Spilling er ekki bara það að plotta í „reykfylltu bakherbergi“ og taka við seðlabúnti út á vinargreiða á kostnað opinberra sjóða. Spilling er það að misnota aðstöðu sína til þess að afla sjálfum sér eða öðrum hagsmuna sem viðkomandi á ekki tilkall til. Það er t.d. hægt að gera með lagasetningu sem tryggir völd og fríðindi hagsmunahópa eða með því að taka geðþóttaákvarðanir í krafti stöðu sinnar. Spilling birtist líka í því að nýta stöðu sína til að koma sér hjá einhverju óþægilegu sem aðrir þurfa að lúta. Spilling getur verið lögleg og innbyggð í kerfið. Það gerir hana ekkert geðslegri og lögmætið gerir hana að mörgu leyti erfiðari viðfangs.

Sjálftaka

Skýrasta form spillingar og það sem mesta hneykslan vekur er mútuþægni. Blessunarlega er lítið um mútur í íslenskum stjórnmálum. Næsti bær við er sjálftaka. Að  nýta almannafé í eigin þágu. Og þar erum við í verri málum. Grímulausasta dæmið sem kemur mér í hug er nær tveggja áratuga gamalt en sýnir hugsunarháttinn svo vel að mér finnst við hæfi að rifja það upp. Ráðherra átti stórafmæli og ákvað að gera vel við starfsfólk ráðuneytisis – á kostnað almennings. Eftir harða gagnrýni ákvað ráðherrann að finna aðra leið til að fjármagna herlegheitin og datt þá í hug að nýta árshátíðarsjóð starfsfólksins til þess að „bjóða“ því til veislu. Ég veit ekki hver borgaði brúsann á endanum en vandamálið er í hnotskurn þessi einlæga trú á að maður eigi rétt á því að ganga í sjóði annarra, bara af því að maður getur það. Oftast tekur íslenska spillingin þó á sig frekar lúðalega mynd. T.d. þá að nota húsnæði, bíla og aðra hluti sem tilheyra stöðunni í eigin þágu.

Sjálftaka er ekki alltaf ólögleg. Oft býður kerfið beinlínis upp á hana. Skúffufé ráðherra er dæmi um löglega og kerfisbundna spillingu. Það er beinlínis gert ráð fyrir því að ráðherra noti almannafé til að styrkja verkefni að eigin geðþótta. Það er svo undir hverjum og einum komið hversu langt hann gengur í því að misbjóða almenningi með vali sínu. Akstursgreiðslur sem nema mun meiru en raunverulegum kostnaði eru líka dæmi um kerfisbundna spillingu en að nýta slík fríðindi í eigin kosningabaráttu er persónuleg spilling. Lögleg en siðlaus. Kjarabætur til þingmanna sem nema margfaldri þeirri upphæð sem hinn almenni launamaður getur átt von á er fullkomlega lögleg spilling en kannski sú sem verst særir réttlætiskennd kjósenda.

Frændhygli og vinargreiðar

Brask með sendiherrastöður og aðra bitlinga er hinsvegar ekki löglegt. Spilling af því tagi varðar við ráðherraábyrgð og hegningarlög. En hókus-pókus – spillingin sér um sína! Slík samstaða ríkir um þessi ólöglegu viðskipti að þótt upptökur af játningum liggi fyrir kannast ráðamenn ekkert við krógann. Frændhygli og vinargreiðar eru vafalaust algengari innan stjórnsýslunnar en beinlínis á Alþingi eða ráðherra í millum en brask með sendiherrastöður er nógu alvarlegt mál til þess að þingmenn ættu að sjá ríkari ástæðu til að ráðast gegn spillingunni en að gera lítið úr henni.

Að sniðganga eftirlit

Það er líka ákveðið form spillingar að koma sér hjá aga og eftirliti. Ljótt einkenni á íslenskri stjórnsýslu er að borgarar og blaðamenn þurfa oft að standa í margra mánaða baráttu til að fá aðgang að upplýsingum. Gögnum sem falla undir ákvæði upplýsingalaga. Stjórnsýslustofnanir hegða sér iðulega eins og gögn sem stofnunin varðveitir séu persónulegar eigur starfsfólks, eða ráðherra sjálfs.

Viðleitni til að sniðganga upplýsingaskylduna er bara eitt dæmi um spillingu innan stjórnsýslunnar. Á vef Umboðsmanns Alþingis má sjá ótal dæmi um óréttmætar ákvarðarnir um réttindi og skyldur borgaranna og þess eru mörg dæmi að Umboðsmaður (sem hefur eftirlit með stjórnsýslunni) þurfi að margkalla eftir gögnum. Ég nefni þetta hér því þótt Alþingi tilheyri ekki stjórnsýslunni þá heyra stofnanir stjórnsýslunnar almennt undir ráðherra. Ráðherraembætti öðlast fáir nema komast á þing og því er ekki hægt að slíta ráðherraspillingu úr samhengi við aðstöðu þeirra gagnvart löggjafarvaldinu.

Of algengt er að ráðherrar telji sig hafna yfir eftirlit. Og það er spilling. Spillt hugarfar þess sem telur sig hafinn yfir það að standa þeim reikningsskil gjörða sinna sem greiða honum laun. Munið þið eftir því þegar Umboðsmaður Alþingis grennslaðist fyrir um það, árið 2015, hvort ríkisstjórnin hefði sett sér siðareglur? Þáverandi forsætisráðherra svaraði – af sama skætingi og skólakrakki sem reynir að koma sér undan aga – með spurningu um það hvort Umboðsmaður hefði sjálfur sett sér siðareglur. Þetta er dæmi um spillingarhugarfar entittlingsins. Og þótt menn komist ekki upp með hvaða spillingu sem er þá er það ekkert nóg. Við viljum þingmenn og ráðherra sem eru bara ekkert að reyna það.

Nýjasta dæmið af þessum toga er angi af Klausturmálinu. Ráðherrar og þingmenn ákveða að mæta ekki fyrir þingnefndir og komast upp með það. Möguleikinn er kerfisbundinn en ósvífnin sem felst í því að nýta sér hann er persónuleg og grímulaus spilling.

Spilling er eðlileg

Það versta við spillinguna er samt að hún er svo eðlileg. Hún stafar ekki af því að vont fólk veljist til valda, Hún er bara birtingarmynd sjálfsbjargarviðleitni og mannlegrar tilhneigingar til að hjálpa sínu fólki. Óspillanleg manneskja er góður starfsmaður lélegur vinur. Sem manneskjur erum við dálítið tvöföld í roðinu og líklega kæmumst við ekkert af án þess. Við upprætum ekki spillingu með því að kjósa betri manneskjur á þing og skipa óspillt fólk í ábyrgðarstöður. Það er ekki fólkið eða flokkarnir heldur valdið sjálft sem spillir. Hættum frekar að skapa fólki aðstöðu sem auðvelt er að misnota.

Valddreifing og gegnsæi eru ekki nægjanleg skilyrði óspillts Alþingis en þau eru nauðsynleg. Á meðan lýðræðið felst í því að velja einn auðspillanlegan kost af fjórum eða kannski tíu er kosningarétturinn léttvægur. Ekki jafn léttvægur og frelsið til að velja sinnep eða tómatsósu á pylsuna en þó svo léttvægur að eftir þingkosningar líður stórum hluta þjóðarinnar eins og niðurstaðan sé einn, stór fokkjúputti, með sinnepi og hráum. Við sem engu ráðum sjáum spillinguna þótt okkar kjörnu fulltrúar sjái hana ekki. Ekki af því að við séum betra fólk en þingmenn og ráðherrar, heldur af því að við höfum enga aðstöðu til að misnota.

Heilindaramminn

Eitt af fyrstu embættisverkum Katrínar Jakobsdóttur sem forsætisráðherra var að skipa starfshóp sem ætlað var að finna leiðir til auka traust á stjórnmálum og stjórnsýslu á Íslandi. Ég hefði reyndar getað sagt Katrínu, án þess að taka krónu fyrir það, að skilvirkasta leiðin til að auka tiltrú almennings á stjórnmálum og stjórnsýslu eru heiðarleiki og vönduð vinnubrögð. Stjórnsýslan þarf að fara að lögum og hætta að líta á stjórnsýslustofnanir sem einkafyrirtæki og stjórnmálamenn þurfa að vera sjálfum sér samkvæmir. Það kemur mér því ekkert sérstaklega á óvart að starfshópurinn telji nauðsynlegt að byggja á heilindahugtakinu.

Halda áfram að lesa

Annað lík svívirt

Ahmad M. Hanan

Ekki hefur myndskeiðið af limlestingunum á líki Barin Kobani haft þau áhrif að yfirvaldinu finnist ástæða til að spyrja Tyrki hvað þeir hafi gert við líkamsleifar sonar míns. Í dag rakst ég á annað dæmi frá febrúar um meðferð FSA í Afrín á líkum andstæðinga hersveita Tyrkja. Hér er það lík karlmanns úr röðum YPG, Ahmads M. Hanan, sem er svívirt. Hann var Yazidi maður. Sameinuðu þjóðirnar flokka ofsóknir Islamska ríkisins gagnvart Yazidi fólkinu sem þjóðarmorð. Halda áfram að lesa

Alþjóðadómstóll telur Erdoğan ábyrgan fyrir stríðsglæpum


Í gær komst alþjóðadómstóll í málefnum Tyrkja og Kúrda að þeirri niðurstöðu að Erdoğan, þjóhöfðingi Tyrkja, bæri beina ábyrgð á stríðsglæpum tyrkneska ríkisins gagnvart Kúrdum á undangengum árum. Dómurinn mælir meðal annars með því „neyðarástandi“ verði aflétt en í skjóli þess hafa Tyrkir áskilið sér rétt til að sniðganga ýmis ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu. Réttarríkið verði endurreist í Tyrklandi, blaðamönnum og fræðimönnum sleppt úr haldi og fjölmiðlafrelsi endurvakið. Ennfremur að Tyrkir kalli herdeildir sínar frá Afrín og að stríðsglæpir verði rannsakaðir í Tyrklandi og sekum refsað fyrir stríðsglæpi. Halda áfram að lesa