Bréf til RÚV

Kæra RÚV

Mig langar í helling af peningum og varð því mjög glöð þegar fréttir bárust af því (samkvæmt áreiðanlegum heimildum) að meðlimir Saving Iceland fengju greitt fyrir að vera handteknir. Þar sem fréttastofa RÚV hefur aðgang að áreiðanlegri heimildamönnum en ég sjálf, og Óli aktivisti, Haukur sonur minn, Siggi pönk og Helga gamla anarkistaamma, harðneita öll að borga mér svo mikið sem krónu með gati, fer ég þess á leit að fréttastofa upplýsi mig um eftirfarandi atriði:

-Hvaða fjársterku aðilar útvega hreyfingunni fé til að borga mér?
-Hversu mikið ég fæ fyrir minn snúð?
-Er virðisaukaskattur innifallinn í þóknuninni eða leggst hann ofan á?
-Er þóknunin kannski ekki gefin upp til skatts?
-Er sami taxti fyrir alla eða hef ég möguleika á að hífa mig upp? (t.d. upp í krana)

Sú spurning sem brennur heitast á mér er þó þessi:
-Hvert ég á að senda reikninginn?

Um leið og ég fer fram á svör við þessum spurningum vil ég koma því að að samkvæmt heimildum sem ég tel áreiðanlegar, fá fréttamenn RÚV aukagreiðslur í formi kókaíns ef þeir ná að plata þjóðina með innistæðulausi bulli. Ég hef ekki í hyggju að færa nein rök fyrir þessari staðreynd en verði ég beðin um það mun ég standa við það sem ég segi.

 

Share to Facebook

One thought on “Bréf til RÚV

  1. ——————————–

    Show me the money,show me the money, show me the money:)
    Já, veistu þetta er dáldið skondið. Þetta er eins og rógburður í skjóli meints traust þjóðarinnar á fréttastofu allra landsmanna. Þeir ættu kannski að taka sér Jerry Maquire til fyrirmyndar ? Mér það væri nú heppilegra ef eitthvað skjalfest væri til grundvallar en ekki bara „traustir heimildarmenn“

    Posted by: Guðjón Viðar | 30.07.2007 | 22:58:58

    ———————————————————-

    Bravó Eva!

    Posted by: Kristín | 31.07.2007 | 14:31:12

Lokað er á athugasemdir.