Bíð eftir yfirlýsingu frá Geir

Það er óneitanlega af manni dregið eftir meira en þriggja daga mótmælamaraþon sem hófst aðfaranótt þriðjudags með því að anarkistakórinn hélt æfingu á prógrammi sínu af pólitískum vögguvísum framan við heimili nokkurra ráðherra. Nú bíð ég spennt eftir yfirlýsingu frá Geir. Annaðhvort er ríkisstjórnin búin að gefast upp eða þá að við getum búist við að löggan fái loksins ástæðu til að beita gasi. Þeir hafa beitt bæði piparúða og táragasi að óþörfu hingað til.

Ég bar appelsínugulan borða í gær og hvet fólk sem ekki tekur þátt í ofbeldi eða styður það líka til að bera appelsínugulan borða. Ég skil reyndar ekki alveg þessa væmni gagnvart löggunni, lít alls ekki á lögregluna sem samherja mína enda er það lögreglan sem stendur í vegi fyrir breytingum og það er lögreglan sem beitir mig og aðra mótmælendur ofbeldi. Ég grýti samt ekki óvini mína, get ekki varið slíkar aðgerðir og vil í lengstu lög komast hjá slysum á fólki. Þessvegna ber ég appelsínugulan borða, en ekki af því að ég sé vinur löggufantanna sem rífa gleraugu af fólki til að geta örugglega úðað beint upp í augun á því, eru reiðubúnir til að beita ofbeldi eftir skipun, og þáðu þ.a.l. ekki appelsínugulan borða í gær.

Eitt samt ef Geir skyldi gaefa okkur tilefni til að spýta í lófana. Pólitískar aðgerðir krefjast þess að fólk hugsi rökrétt. Mótmæli og drykkjuskapur fara því illa saman og geta haft mikla hættu í för með sér. Ég hvet alla til að hafa þetta í huga og hætta aðgerðum snemma um helgina því götupartý geta auðveldlega leitt til stórslysa ef drukkið fólk í gremjukasti fer að drífa að. Notum frekar kvöldin til að skemmta okkur, hvílast og skipuleggja byltingu. Við getum alveg eins framkvæmt hana á mánudag.

Share to Facebook

One thought on “Bíð eftir yfirlýsingu frá Geir

  1. ———————————————————
    Sæl Eva

    Ég skil ekki af hverju þú skreytir þig með appelsínugulu – þú telst nú ekki beint friðsöm. Ertu búin að skoða markmið appelsínugulra og getur þú samsamað þig með þeim?

    Appelsínugulur er sameiginleg yfirlýsing friðsamra mótmælenda:

    Við erum appelsínugul
    Við erum friðsöm
    Við viljum breytingar

    Appelsínugulur er friðsöm krafa um breytingar
    Appelsínugulur merkir að sá sem fer fram með ofbeldi eða skemmdarverkum talar ekki í þínu nafni

    Appelsínugulur er krafa um að Alþingi endurnýi umboð sitt frá fólkinu í landinu eins fljótt og auðið er

    Appelsínugulur lýsir hvorki stjórnmálaskoðun né stendur fyrir neitt annað en hér er upp talið
    Appelsínugulur á sér enga

    Af því sem ég hef séð og lesið þá ert þú ekki appelsínugul!

    Kveðja, Guðrún

    Posted by: Guðrún | 23.01.2009 | 19:17:52

    ———————————————————

    Ég hef aldrei tekið þátt í eða stutt ofbeldi.

    Skemmdarverk styð ég og myndi taka þátt í sjálf, ef þau þjóna friðsamlegum tilgangi. Það er t.d. friðsamleg aðgerð að eyðileggja vopn.

    Ef appelsínugulur stendur raunverulega fyrir huglausa meðalmennskudrjóla sem þora ekki að rísa gegn löglegu óréttlæti og telja yfirvöld hafa siðferðilegt leyfi til að beita ofbeldi, þá er óviðeigandi að ég beri appelsínugulan borða en á meðan hann er kynntur sem tákn um andúð á ofbeldi, þá ber ég hann að sjálfsögðu.

    Posted by: Eva | 24.01.2009 | 1:17:20

    ———————————————————

    Hér er dæmi um dásamlega fallegt og friðsamlegt skemmdarverk:

    http://aftaka.org/2009/01/22/vopnaverksmidju-rustad/

    Posted by: Eva | 24.01.2009 | 16:49:21

    ———————————————————

    Sæl Guðrún

    Ég var að skoða appelsínugulu síðuna og mér finnst þið sum setja ykkur á ansi háan stall. Þið eruð sum ekkert sérlega friðsöm í orðum virðist geta sett ykkur í dómarasæti hverjir eru friðsamir og hverjir ekki. Og ekki einn einast aðili (hafi svo verið þá fór það framhjá mér) hefur fordæmt ofbeldi lögreglumanna, þegar þeir berja fólk í bak og hnakka, sparka í liggjandi fólk, halda áfram að kíla það ítrekað eftir að hafa snúið það niður í götu, þegar þeir hafa hrint gamalmennum í götu.

    Það virðist vera í lagi að fordæma sumt ofbeldi en ekki annað og í því felst þó nokkur mótsögn.

    Posted by: Inga | 24.01.2009 | 19:00:41

    ———————————————————

    Þetta er ekki alveg rétt Inga. Ég er í þessum hóp og ég fordæmi ofbeldi lögreglunnar.

    Ég hef reyndar dálitlar áhyggjur af því að of hátt hlutfall þeirra sem bera appelsínugulan borða, séu ekki að lýsa yfir andúð á öllu ofbeldi, heldur samþykki þeir einkavæðingu ofbeldis í þágu valdstjórnarinnar.

    Ég er sjálf skíthrædd við stjórnleysi og óeirðir, vil fyrir alla muni komast hjá meiðslum á fólki og jafnvel þótt ég líti svo sannarlega ekki á lögguna sem samherja, þá eru það samt lifandi dýr sem klæðast búningunum og maður á að vera góður við dýrin, jafnvel þótt þau hafi verið þjálfuð til árása.

    Posted by: Eva | 24.01.2009 | 19:43:06

    ———————————————————

    Það má vel vera að það sé ekki með öllu rétt og er það örugglega. Hins vegar les ég of mörg ummæli frá sumum sem vilja kenna sig við appelsínugula litinn sem eru ekki mjög traustvekjandi.

    Andúð á ofbeldi á að snúast að öllu ofbeldi ekki bara sumu ofbeldi

    Posted by: Inga | 25.01.2009 | 22:58:37

    ———————————————————

    Ég er sammála því og eftir þennan ömurlega fund á Lækjartorgi í dag, er ég búin að fá staðfestingu á því hverskonar roðhænsn það eru sem standa fyrir þessu. Ekki var minnst einu orði á hrottaskapinn sem lögreglan hefur sýnt af sér síðustu daga og auk þess var þessum fundi beint sérstaklega gegn grímuklæddu fólki. Svo kaldhæðnislegt sem það nú er þá voru það aðgerðasinnar, sem oft bera grímur í aðgerðum, sem gengust fyrir því að mynda skjaldborg um lögguna þegar einhverjir tóku upp á að grýta þá við Stjórnarráðið. Það var aðgerðasinni sem tók fyrir það að kastað væri að þeim kínverjum við Alþingishúsið og það var einn af þessum grímumönnum sem fékk fólk til að setjast niður þegar grjótkast var farið í gang aðfaranótt fimmtudagsins. Það er grímuliðið sem hjálpar þeim sem verða fyrir lögregluofbeldi og það var grímuklætt fólk sem stöðvaði hóp ungra manna í að ráðast á lögguna með brotnum flöskum á fimmtudagskvöldið. Svo leyfa þessar friðrembur sér að beina mótmælum gegn ofbeldi að okkur.

    Ekki nóg með það, heldur leggur þetta pakk að jöfnu að fara inn í opinberar byggingar í leyfisleysi, kveikja bál á Austurvelli og kasta gangstéttarhellu í lögreglumann. Þetta er allt flokkað sem ofbeldi!

    Sem betur fer er greinilegt að langflestir þessara sus manna og löggufjölskyldna sem mættu á Lækjartorg í dag eru algerlega óvanir mótmælaaðgerðum og ég sá ekki eitt einasta andlit sem ég þekkti (öll andlitin sem ég þekki voru á bak við grímur). Vonandi eru flestir þeirra sem auðkenna sig með appelsínugulu raunverulega á móti ofbeldi og ég hef ekki áhyggjur af því að þessir hræsnarar sem stóðu að þessum fundi muni þvælast fyrir okkur. Nema náttúrulega löggan. Hún er alltaf fyrirstaða. Eina fyrirstaðan.

    Posted by: Eva | 26.01.2009 | 1:03:51

    ———————————————————

    Tek undir þetta með Evu um mótmælin á Lækjartorgi. Þarna var hægraliðið mætt, undir yfirskininu friður, en með það erindi að koma höggi á alla mótmælendur – og til að verja lögregluofbeldið.
    Kvummpresturinn er gott dæmi um það.

    Vona að friðelskandi mótmælendur láti ekki blekkjast í annað sinn – og haldi sig burtu frá þessum liði framvegis.

    Posted by: Torfi Stefánsson | 26.01.2009 | 10:04:32

    ———————————————————

    Til hamingju við öll ,og þakka þér EVA fyrir það sem þú lagðir á þessa vogaskál!!!!!

    Posted by: julli | 28.01.2009 | 21:14:28

Lokað er á athugasemdir.