Áframhaldandi aðgerðir og skipulegri en áður

Nú er verið að undirbúa námskeið í beinum aðgerðum og borgaralegri óhlýðni, bæði fyrir þátttakendur og stuðningsmenn. Áhugasamir setji sig í samband við mig sem fyrst.Sumir hafa spurt undrandi hvort þurfi virkilega að kenna fólki óþekkt og já, mér sýnist nú svona að flestir séu öllu hlýðnari á fullorðinsárum en þeir voru sem börn.
Svona án gríns, það þarf í sjálfu sér ekki námskeið til að óhlýðnast en margir eru ómeðvitaðir um hluti sem geta ógnað öryggi þeirra og/eða annarra og ótrúlega margir gera ekki greinarmun á borgaralegri óhlýðni og geðþóttaafbrotum.Fólk þarf að hafa á hreinu hvaða afleiðingar það getur haft að taka þátt í aðgerðum sem eru á gráu svæði gagnvart lögunum og að læra að bregðast rétt við afskiptum lögreglu, andstæðingum sem reyna að snapa fæting, harklegri gagnrýni og höfnun vina og ættingja. Aktivistar þurfa að læra að taka á eigin ótta og fordómum, þeir þurfa að læra á sérstakt fundakerfi og margt fleira.

Í dag ætlar fólk úr mörgum hreyfingum að hittast við Stjórnarráðið kl 13:30 og láta þá sem sitja kryddsíldarfundinn vita að almenningur er ekkert þagnaður. Ég hvet alla til að mæta.

Upp úr áramótum ætlar svo aðgerðahópurinn ‘sveltum svínið’ að fara í skipulegar aðgerðir gegn Baugsveldinu. Þeir sem ekki hafa fengið boð um fyrsta aðgerðafund hópsins á árinu en vilja vera með, ættu að hafa samband við mig í dag eða á morgun.

Share to Facebook

One thought on “Áframhaldandi aðgerðir og skipulegri en áður

  1. ———————————————————-

    Voru skemmdir á búnaði stöðvar 2 óborgarleg hlýðni eða geðþótta afbrot?

    Aradia, 31.12.2008 kl. 15:05

    ———————————————————-

    Ég hallast helst að því að hafi á annað borð orðið skemmdir hafi það verið af slysni. Aðgerðinni var ekki beint gegn stöð 2 og engin ákvörðun tekin um að skemma tækjabúnað. Reynt var að taka kapal úr sambandi en það er eina ákvörðunin varðandi tækjabúnað sem mér er kunnugt um og flokkast ekki sem skemmdarverk.

    Hitt er svo annað mál að þar sem margir reiðir koma saman, má alveg gera ráð fyrir að einhver taki ákvarðanir sem eru hópnum ekki að skapi. Ég veit t.d. ekki um neinn sem styður það að kasta múrsteinum í fólk.

    Eva Hauksdóttir, 31.12.2008 kl. 22:02

    ———————————————————-

    Ég fæ ekki betur séð Eva Hauksdóttir en að hvert einasta orð sem ég sagði við þig á sínum tíma sé að verða að veruleika. Mótmælin eru að snúast gegn sér en ekki gegn ríkisstjórn eða stjórnvöldum.  Hugmyndir fólks um mótmæli tengjast oðrið ofbeldi og glundroða því þið hafið gert ímyndina um hana hasarkenndari en hún ætti að vera. Mér þykir það miður að þið sjáið það ekki að þetta myndar höft. Fólk vill ekki vera þáttakandi í svona farsarugli og hægt og bítandi munu þeir sem standa fyrir þessum ofsa einangra sig frá samfélaginu og það er fyrirséð að þið munuð fá mjög slæma umfjöllun í fjömiðlum þegar fólk er orðið svo ill skert að það er farið að beita reiði sína á fjölmiðlum sjálfur.

    Eins og bloggið sem ég komentaði á sínum tíma varðandi Ofbeldi … þá segi ég það enn og aftur OFBELDI SKILAR SÉR ALDREI.

    Aróðusherferðir geta skilað miklu betri árangri ef fólk er samstilt og kann sig..

    Brynjar Jóhannsson, 1.1.2009 kl. 01:02

    ———————————————————-

    Sæl Eva. Þú settir athugasemd við blogg frá mér í dag þar sem mér sýndist að þú hafir misskilið bloggið frá mér. Viltu gera mér greiða og lesa það aftur. Mér finnst það leiðinlegt að þú hafir misskilið bloggið og þú varst ekki sú eina.

    Gangi þér vel.

    Vilhjálmur Árnason, 1.1.2009 kl. 01:38

    ———————————————————-

    Brynjar.

    Það er útbreiddur misskilningur að aðgerðasinnar séu að reyna að afla sér fjöldafylgis. Það er af og frá. Við erum jaðarfólk og okkar hlutverk er að teygja mörkin og færa miðjuna þannig í róttækari átt.

    Þess eru engin dæmi frá öðrum löndum að róttækar aðgerðir hafi þau áhrif að meðalmaðurinn hætti að taka þátt í mótmælum. Þvert á móti eykst þátttaka í hefðbundnum mótmælum, þegar hópar sem beita beinum aðgerðum rísa upp og þeim fjölgar sem ganga ögn lengra. Þeir sem lengst ganga tilheyra alltaf litlum hópi, hópi sem er algerlega nauðsynlegt afl í hverju samfélagi.

    Ég hef sjálf áhyggjur af því að brátt muni brjótast út óeirðir en ég get ekki látið þann ótta stöðva mig í því ætlunarverki að trufla hverja einustu stofnun og hvern einasta einstakling sem ber ábyrgð á efnahagsstefnu undanfarinna ára, í því að fremja fleiri afglöp gagnvart þjóð minni, sonum mínum og mér sjálfri.

    Ríkisstjórnin hefur nú haft 3 mánuði til að tilkynna afsögn sína og hreinsa til í eftirlitsstofnunum og bankakerfinu, en hún situr sem fastast. Þróunin verður sennilega hér, eins og allsstaðar þar sem kröfur almennings eru hundsaðar; fyrst passiv mótmæli, svosem hefðbundnir útifundir, blaðaskrif og undirskriftalistar, þá beinar aðgerðir og borgaraleg óhlýðni og ef það er hundsað líka munu fyrr eða síðar brjótast út óeirðir sem geta jafnvel leitt til borgarastyrjaldar. Mér sýnist á öllu að það sé ástandið sem þessir gerspilltu valdhafar okkar eru að stefna að.

    Eva Hauksdóttir, 1.1.2009 kl. 02:03

    ———————————————————-

    Vilhjálmur. Mér þykir fyrir þessu óvandaða svari mínu. Ég var að reyna að kíkja yfir blogg og svara pistlum, samtímis því að halda áramótaveislu en hefði þurft að gefa mér betra næði.  Ég sé að þú hefur allt aðra afstöðu en bréfritarinn sem þú vitnar til og kann þér bestu þakkir fyrir skrif þín.Eva Hauksdóttir, 1.1.2009 kl. 02:09

    ———————————————————-

    Sæl vertu –

    Væntanlega ertu ánægð með líkamsmeiðingar á lögreglumanni og starfsfólki Stöðvar 2.

    Þetta er allt að þróast eins og þú hefur skipulagt það – mundu bara að þetta gæti allt hitt fyrir uppruna sinn. Hafðu ráð þótt heimskur kenni – afturkallaðu þetta tilgangslausa ofbeldi – þú ert alltof vel gefin til þess að þurfa að nota svona aðferðir.

    Ólafur I Hrólfsson

    Ólafur I Hrólfsson (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 02:24

    ———————————————————-

      Ég er alltof gamall (vel á sextugsaldri) og dofinn fyrir tilverunni til að taka þátt í mótmælunum.  Þar fyrir utan hef ég persónulega ekki orðið fyrir skaða af bankahruninu eða kreppunni.  En mér þykir frábært að þið unga fólkið látið hendur standa framúr ermum og gerið eitthvað í hlutunum fremur en nöldra úti í horni.  Það er ömurlegt að hafa allt nýliðið ár fylgst með raunveruleikafirringu ráðamanna,  afneitun á ástandinu og ráðaleysi.  Á sama tíma er fólk að drukkna í afborgunum af hratt vaxandi afborgunum af lánum, atvinnuleysi og svo framvegis.Jens Guð, 1.1.2009 kl. 04:31

    ———————————————————-

    Eva..

    Þú ferð einfaldlega með rangt mál. Þessar aðgerðir hafa andhverf áhrif á venjuleg mótmæli. Nærtækasta dæmið er þegar einn vörubílsstjórnanna (sem mótmælti við rauðavatn) framkvæmdi þann snilldar gjörning að fara að slást við lögregluþjón fyrir framan sjónvarpsmyndavél og datt þá allur áframhaldandi áhugi fyrir mótmælum niður.

    Mótmæli með þessum hætti verða ekki til þess að fólk þyrpist út götur til þess að berjast gegn ríkisstjórninni. Nema jú kannski að lögreglan myndi gera eitthvað af sér eins og í GRIKKLANDI því þá væri samúðin með ykkur en ekki lögreglunni. Mér finnst sorglegt að fólk skuli ekki gera þér grein fyrir þessu. Þetta er ámóta fáranlegt og ég myndi segja „það sem fer upp, getur aldrei farið niður “ En svona er þetta og því verður reynslan af þessum mótmælum að verða ykkar kennari.

    Svo þykir mér viss hroki hjá þér að kalla einhvern hóp „MEÐAL FÓLK“ þegar það kýs sér miklu frekar að nota sér skynsemina að vopni og látta kapp fylgja forsjá. Ég væri löngu orðin AKTÍVUR í þessum mótmælum ef ég er ekki að sjá að þetta er hægt og bítandi að þróast út í einhverja vitleysu. OG listinn stækkar.

    hurð lamin til óbóta og rúður brotnar við lögreglu stöðina við Hverfisgötu
    Rúða við fjármálaeftirlitið brotin
     snúrur við stöð 2
    Ekki stórvægilegur skaði en það er ekki málið. Hann virkar svo illa út á við og því eruð þið að tefla ykkur hægt og bítandi í MÁT. Sannaðu til …. Listinn verður stærri og hægt og bítandi … verðið þið upphrópuð dekkri ónefnum og harkan gegn ykkur mun aukast. það sem lögreglan var að sýna er aðeins forsmekkurinn af því sem koma skal.

    Annars gangi ykkur vel og gleðilegt ár.

    Brynjar Jóhannsson, 1.1.2009 kl. 11:55

    ———————————————————-

    Það var enginn hópur að berjast fyrir vörubílstjóra nema þeir sjálfir og það voru þeir sjálfir sem misstu dampinn, hvort sem það var nú af ótta við piparúða eða ótta við að fleiri færu út í slagsmál. Við vitum hreinlega ekki hvað hefði gerst ef þeir hefðu haldið áfram.

    Staðreyndin er sú að það er alltaf breidd í mótmælamenningu og meðalmaðurinn er sá sem heldur sig næst miðjunni. Það er ekkert að því að vera meðalmaður en aktivistar verða líklega seint taldir til þess hóps. Við erum öfgamenn í þeim skilningi að við göngum lengra en svo að meðalmaðurinn hafi skilning á því.

    Við þurfum ekki samúð almennings eða stuðning. Það er notalegt að fá jákvæð viðbrögð en neikvæð viðbrögð eru í okkar huga EKKI merki um að við séum á rangri leið. Eins og ég hef sagt áður, þá erum við ekki í neinni vinsældakeppni, heldur erum við að teygja mörkin og mynda þannig rými til að færa miðjuna.

    Ef þú efast um að það takist geturðu annaðhvort bara haft þá ranghugmynd í friði eða þú getur skoðað umræður bloggheima um pólitískar aðgerðir síðustu árin. Þar hefur nefnilega orðið stór breyting á. Fólk sem áður gerði grín að hefðbundnum mótmælafundum hefur verið að mæta á Austurvöll og fólk sem fordæmdi allt sem gekk skrefinu lengra er farið að lýsa yfir samstöðu með þeim sem kasta eggjum og stöðva vinnu ráðamanna.

    Það er ekkert í mótmælamenningu annarra ríkja sem bendir til þess aktivistahreyfingar hafi þau áhrif að fjöldinn verði frekar tilbúinn til að láta ráðamenn valta yfir sig. Reyndar er heldur ekkert í mótmælamenningu annarra ríkja sem bendir til þess að þær aðgerðir sem þú myndir kalla friðsamlegar hafi nokkur einustu áhrif.

    Eva Hauksdóttir, 1.1.2009 kl. 12:26

    ———————————————————-

    Eva.

    Viðhorf fólks til mótmæla að ykkar tagi eru sífellt að DEKKJAST og að því leitinu til eru mótmælin að snúast út í andhverfu sína. Múrsteini kastað í andlitið á LÖGREGLUÞJÓNI sem kvu vera kynbeinsbrotinn. GLÆSILEGT FRAMTAK EÐA HITT OG HELDUR! Mér var fanst þetta fyrirsjáanlegt og furðulegt að jafn velgefin manneskja og  þú virðist vera, hafir ekki séð þetta fyrir þér gerast líka. Það sést berlega að bloggheimur er argur af reiði vegna þessara frétta og þáekki gagnvart lögreglunni eða stjórnvöldum HELDUR YKKUR. Að því leitinu til hafa mótmælin snúist út í andhverfu sína.

    Hefur hvarflað af þér að þessi öfgafullu mótmæli séu einmitt ástæða þess að mótmæli eru almennt að lippast niður ? ég skal segja þér það alveg eins og er …. að Raunverulega ástæða þess að fólk hefur misst áhuga á mótmælum er vegna þeirrar ástæðu , sama hvort þér líkar það betur eða verr.

    Ég vil samt vera sanngjarn gagnvart þér að því leitinu til að það var ekki þú sem kastaðir þessum steini í lögregluna  og ert búin að lýsa því yfir að þér þætti það miður.  Það er kannski rangt að andlitsgera þig sem þessi mótmæli og mögulega ert þú alltaf réttum megin við strikin,

    En Hafðu samt staðreyndir á hreinu varðandi  vörubílamótmælinn. Þau hættu í kjölfar þess að vörubílsstjóri fór að slást við lögregluþjón og komu myndir af því í öllum fjölmiðlum. Í kjölfarið tapaðist allt samúðarfylgi og mótmælin hættu í kjölfarið.

    Svo þú hafir það á hreinu … þá er ég ekki á því að venjulegar mótmælaaðgerðirskili miklum árangri    og titla ég ofbeldisfullar aðgerðir gegn stjórnvöldum undir þann hóp líka. Það er svo mikill aragrúi að öðrum möguleikum sem eru miklu skárri.  Mér lýst þeim mun betur á að hvatt sé til viðskiptabanns á úrásafyrirtækum eða farið sé í nákvæma heimildarvinnslu. Hægt væri að búa til netmiðil sem byggir á sjálfboðavinnu þar sem heimilda er aflað um hvað fór úrskeiðis hjá útrásarmönnum.

    Hér segir þú

     „Það er ekkert í mótmælamenningu annarra ríkja sem bendir til þess aktivistahreyfingar hafi þau áhrif að fjöldinn verði frekar tilbúinn til að láta ráðamenn valta yfir sig.“

    Mér skilst að vinkonu minni sem var í námi í Dannmörku að þegar anarkistahópar sem voru með aðsetur við „kristjanssand“ voru ekkert sérlega vel liðnir og hafði fólk vana á að hafa sig á brott þegar þeir stóðu í mótmælum. Mótmælin urðu þess valdandi að hóparnir einangruðust og fengu alla upp á móti sér.

    Þannig að þetta er ALLRANGT… öfgafull mótmæli hafa þveröfug áhrif.

    Mér þykir það miður að segja þér það.. En þú ert á villigötum í þessum mótmælum.

    Það er leiðinlegt því þú hefur dug og þorog ert greinilega mjög vel gefin. Ég ber mikla virðingu fyrir því hve þorin þú ert, en gagnríni aðferðinar því mér þykja þær vanhugsaðar og ekki framkvæmdar af nægjanlegum aga til þess að þær beri tilætlaðan árangur.

    Brynjar Jóhannsson, 1.1.2009 kl. 15:47

Lokað er á athugasemdir.