Af þagnarskyldu og fleiru

Það ætlar víst að ganga eitthvað treglega að fá á hreint í hverju misskilningur minn liggur.

Á DV hafa farið fram umræður um fyrri bloggfærslu mína í dag og þar hafa komið fram athyglisverðar hugmyndir um þagnarskyldu presta og upplýsingaskyldu, margar byggðar á misskilningi eða bara vanhugsun. Hér er samantekt fyrir þá sem ekki nenna að lesa í gegnum allan þráðinn. Fyrst hugmyndir lesenda sem telja líkræðu Baldurs viðeigandi og svo útskýringar mínar.

1) Já en hann var ekki bundinn neinni þagnarskyldu.

Sumir telja að prestur sé ekki bundinn þagnarskyldu nema hann hafi verið í sérstöku trúnaðarsambandi við sóknarbarnið. Það er misskilningur. Prestar eru bundnir trúnaðarskyldu rétt eins og læknar, sálfræðingar, kennar, lögreglumenn, starfsfólk á sambýlum og allir aðrir sem vinna með fólk. Trúnaðarskyldan gildir ekki bara þegar skjólstæðingur segir „viltu plíííís ekki segja neinum frá þessu“, heldur nær hún yfir allt það sem maður verður áskynja í starfi sínu og flokkast sem einkamál eða viðkvæmt mál. Hinsvegar kemst presturinn upp með framkomu sem enginn annar opinber starfsmaður eða neinn sem vinnur með fólk, myndi komast upp með.

2) Manneskjan var látin og látnir eru ekki spurðir hvað megi birta í líkræðu.

Ég hef hvergi fundið neitt ákvæði um að trúnaðarskylda falli úr gildi við andlát. Ef einhver veit hvar það ákvæði er að finna, þætti mér vænt um að fá þær upplýsingar.

Auðvitað má tala um lífshlaup hins látna og þegar allir vinir og vandamenn eru meðvitaðir um áföll og sjúkleika þá að sjálfsögðu nefnir ræðumaður það eftir því sem við á. En það eru takmörk fyrir því hvað er viðeigandi að reifa í líkræðu. Við erum að tala um kynferðisbrot, nokkuð sem mjög fáir þolendur kæra sig um að hafa í hámæli, hvað þá þegar fólk af þessari kynslóð á í hlut. Ef prestur er ekki fær um að skrifa heiðarlega minningarræðu án þess að ljóstra upp viðkvæmu, persónulegu máli sem fáir vissu um og er þess eðlis að kirkjugestir fá áfall, þá ætti hann að frekar að sækja um vinnu á Séð og Heyrt.

3) Já en aðstandendur samþykktu þetta.

Aðstandendur geta ekki létt þagnarskyldu af presti. Ef bróðir minn segir sr. Baldri að mér hafi verið nauðgað, þá má sr. Baldur ekki blogga um það. Hann má það heldur ekki ef ég er fötluð eða látin.

Hinsvegar er ekki sama hvort það er Jón eða séra Jón sem ræðir einkamál opinberlega og ef aðstandendur vilja segja frá ljótum málum þá geta þeir gert það. Á dögunum kom t.d. faðir fram í fjölmiðlum og sagði sögu dóttur sinnar sem lést af völdum læknadóps. Faðirinn er ekki bundinn þagnarskyldu. Læknirinn hennar hefði ekki getað komið fram og sagt sögu þessarar stúlku nema gæta þess vel að hafa engar upplýsingar með sem vísuðu beint á hana. Læknir sem hefði bloggað um einkamál sjúklings á þennan hátt, hefði sennilega misst starfsleyfið.

4) Séra Baldur var að virða upplýsingaskylduna, svona mál má ekki þagga niður.

Til skamms tíma var sú skoðun áberandi meðal presta að þagnarskylda þeirra væri hafin yfir landslög og þeir þyrftu ekki að tilkynna ofbeldismál til barnaverndaryfirvalda. Hið rétta er að þeir eiga, eins og allir aðrir að lúta lögum um upplýsingaskyldu. Hún felur í sér að ef barn býr við skaðlegar uppeldisaðstæður, þá ber hverjum borgara, prestinum líka, skylda til að láta barnaverndaryfirvöld vita af því. Lengra nær upplýsingaskyldan ekki og þar sem upplýsingaskyldan endar tekur þagnarskyldan við. Systir mín vinnur á réttargeðdeild. Ef einn af hennar skjólstæðingum félli frá og hún myndi í samráði við fjölskyldu hans segja opinberlega frá þeim atburðum sem hún telur að hafi vakið sjúkdóminn, þá yrði hún ekki bara rekin samdægurs, hún fengi aldrei vinnu í þessum geira framar. Hún væri nefnilega ekki að sinna upplýsingaskyldu með því að ræða einkamál opinberlega, heldur að brjóta trúnaðarskyldu.

Hvergi í starfslýsingu presta stendur að þeir eigi að blogga um einkamál skjólstæðinga sinna og enginn nema prestur kæmist upp með það.

5) Ef prestar mega ekki tjá sig um kynferðisbrotamál, verður aldrei hægt að takast á við þau.

Kirkjunnar menn mega vitanlega ræða þessi mál almennt. Það gera Stígamótakonur og starfsfólk heilbrigðis- og félagsþjónustunnar líka. En Stígamótakonur fara ekki í fjölmiða með sögur skjólstæðinga sinna með persónulegum upplýsingum sem jafngilda nafnbirtingu eða birta slíkar sögur á sínum persónulegu vefbókum. Það hefði verið allt annað mál ef séra Baldur hefði á blogginu sínu sagst vita þess dæmi að kynferðsofbeldi hefði skaðað geðheilsu fólks.

6) Séra Baldri gekk gott eitt til, það er engin ástæða til að hengja hann.

Þetta er einmitt stóra vandamálið. Þar sem tilgangurinn var göfugur og löng hefð er fyrir þeirri skoðun að prestar séu hafnir yfir landslög og að kirkjan eigi að taka á glæpum, þá má bara ekkert gagnrýna kirkjuna eða vinnubrögð presta.

En málið snýst ekkert um það hvort hann Séra Baldur er góður gaur eða ekki. Prestar eiga hvorki að hylma yfir með glæpamönnum né vaða með mál skjólstæðinga sinna í fjölmiðla. Ekki frekar en sálfræðingar eða kennarar. Þeir eiga tilkynna yfirvöldum um glæpinn og snúa sér svo að því að því sem raunverulega er í þeirra verkahring.

Ég hef engan áhuga á að hengja Séra Baldur. Ég tel að honum hafi orðið á í messunni svo ekki sé meira sagt en ég vona að þetta mál verði til þess að hann sjálfur, kirkjan, yfirvöld og almenningur, fari að átta sig á því að kirkjan þarf að lúta sömu reglum og aðrar stofnanir, jafnvel þótt hann Séra Baldur sé góður gæi. Það eru nefnilega töluverðar líkur á því að innan kirkjunnar finnist óvandaðri menn en Séra Baldur og þegar einhver ungur og óreyndur spjátrungur ákveður að toppa meistarann í uppljóstrunum, þá gæti allt eins farið svo að skaðinn yrði óbætanlegur.

Share to Facebook

One thought on “Af þagnarskyldu og fleiru

  1. ————————————–

    Líkræða er fyrir eftirlifendur, útförin er þeirra vegna. Tilfinningalíf þess sem er dáinn er ekki undir, því er lokið. Hins vegar lifir einhvers konar mannorð, orðstír deyri aldreigi, presturinn mundi vega að því með því t.d. bera upp á líkið að hafa framið nauðgun eða einhverja svívirðu sem hvorki yrði sönnuð né afsönnuð. Það vegur ekki að mannorði manneskju að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, það getur hneysklað einhverja eða orðið tilefni slúðurs en það er þá vandamál hins hneykslunargjarna.
    Með því að segja þá sögu sem ættingjar sögðu sjálfum sér til að skýra líf manneskjunnar meðan hún lifði og þeir þurftu að annast hana vegna stóra dramatíska atburðarins sem varð og mótaði líf hennar allt, og þau fundu ekki aðra leið út er bara verið að segja þetta eins og það er og þjóna sannleikanum eins og þeir sem stóðu næst þekkja hann, en það eru þeir sem þurfa að syrgja og þeir þurfa að fá staðfestingu og viðurkenningu á sínum sannleika. Allir sem hafa undirbúið útför náins ættingja með presti vita að í líkræðu er ekkert nema þær upplýsingar sem prestur fær hjá nánustu aðstandendum, enda er verið að þjóna þeim.
    Gott hjá Baldri, hann er mensch, en að hann hafi svo ákveðið að fara með þetta út úr kirkjunni og á bloggið; það má setja spurningamerki við það, aðallega vegna þess þeirra mála sem nú brenna á kirkjunni.
    Baldur er berskjaldaður gagnvart þeirri gagnrýni að hann hafi gert þetta opinbert til að hjálpa málstað kirkjunnar, sem auðvitað á hvorki að koma þessari konu né hennar ættingjum hennar við. En þá eru menn ekki að tala um ræðuna sjálfa og það sem þú leggur upp með heldur einhverja aðra hluti.

    Posted by: Pétur | 7.07.2011 | 22:40:24

    ————————————–

    Hjartanlega sammála þér Eva og mér finnst þú hafa rökstutt skoðanir þínar á málinu vel.

    Posted by: Hilmar | 8.07.2011 | 0:29:53

Lokað er á athugasemdir.