Af hverju nýtast íslenskir kennarar svona illa?

Það er með öllu óþolandi að opinberir starfsmenn komist upp með að vinna ekki nema 35% þess tíma sem þeim fá greiddan.

Hvað er þetta fólk eiginlega að gera í vinnunni? Af hverju þurfa íslenskir kennarar svona langan tíma í undirbúning og yfirferð miðað við hin OECD ríkin? Af hverju fer meiri tími í foreldrafundi, agamál og eineltismál hjá íslenskum kennurum en kennurum í samanburðarlöndunum?

Reyndar er kennsluhlutfall íslenskra kennara ekkert lægra en í samanburðarlöndunum. Samkvæmt skýrslunni sem Halldór túlkar á þennan athyglisverða veg eru Íslendingar á ósköp svipuðu róli og hinar Norðurlandaþjóðirnar og reyndar fyrir miðju ef öll rannsóknarlöndin eru skoðuð. Ef við hinsvegar reiknum út frá meðaltali, eins og Halldór gerir, sjáum við að kennsluhlutfall íslenskra kennara er undir meðaltali OECD ríkjanna. Ekki undir meðaltali annarra OECD ríkja eins og kemur fram á netsíðu Vísis, heldur undir meðaltalinu þegar öll ríkin eru lögð saman.

Ef við skoðum myndina nánar sjáum við að þrjú lönd, Nýja Sjáland, Mexíkó og Bandaríkin, skera sig úr. Þar eru kenndar stundir miklu fleiri en algengast er og þessi fáu ríki skekkja þannig myndina.

Nú eru Íslendingar vanastir því að bera sig saman við aðrar Norðurlandaþjóðir í menntamálum og því ætti yfirhöfuð ekki að vera nein þörf á þessari umræðu um það hvað íslenskir kennarar séu illa nýttir. Sú umræða er nú samt í gangi og spurningin um það hversvegna bandarískir kennarar kenni svona miklu meira en kollegar þeirra á Norðurlöndum er vissulega áhugaverð.

Ég hef aldrei komið til Bandaríkjanna og þekki þau aðeins í gegnum fjölmiðla. Ég get ekkert fullyrt um orsakirnar en þegar ég velti fyrir mér skýringum á því hversvegna er hægt að hafa bandaríska kennara svona mikið í beinni kennslu, koma eftirfarandi spurningar upp í hugann:

-Getur verið að bekkir séu stærri?
-Eru fötluð börn og börn með sérstök vandamál höfð í sérbekkjum?
-Er samstarf við heimilin minna?
-Getur verið að sumarfrí Bandaríkjamanna sé að jafnaði mun styttra en gengur og gerist á Norðurlöndum og kenndar stundir segi því ekki alla söguna um kennsluhlutfall?
-Eru refsingar notaðar frjálslega í stað þess að verja endalausum tíma til samráðs vegna agamála?
-Er algengara að bandarísk börn flosni upp úr skóla?
-Kemur nokkuð hátt hlutfall bandarískra skólabarna illa menntað út úr skóla, þrátt fyrir hið háa kennsluhlutfall?
-20% fullorðinna Bandaríkjamanna eru ólæs. 20% geta ekki bent á Bandaríkin á landakorti. Getur verið að í þeim löndum þar sem kennarar undirbúa kennslu og verja tíma til að fara yfir verkefni, sé hlutfall þeirra sem ekki hafa þessa lágmarksþekkingu lægra?

-Getur kannski verið að skýringin á því hversvegna bandarískir kennarar komast yfir að kenna svona mikið, sé önnur en sú að kraftar kennara séu svo vel nýttir?

Share to Facebook

One thought on “Af hverju nýtast íslenskir kennarar svona illa?

  1. ———————————–
    Takk fyrir góða grein. Vildi láta þig vita að ég rændi frá þér tveim setningum úr henni hér:

    http://samraedi.wordpress.com/2011/02/24/skoli-fyrir-suma-vip-party-fyrir-alla/

    Hafandi lesið bókina þína (og verið hrifinn af) hugsaði ég með mér að þú myndir fyrirgefa það.

    Posted by: Kristinn | 24.02.2011 | 2:32:11

    ———————————–

    Takk fyrir góða grein. Vil játa á mig að hafa rænt frá þér þremur setningum. Sjá hér:http://samraedi.wordpress.com/2011/02/24/skoli-fyrir-suma-vip-party-fyrir-alla/

    Hafandi lesið bókina þína (og líkað vel) hugsaði ég með mér að mér yrði fyrirgefið.

    Posted by: Kristinn | 24.02.2011 | 3:09:19

    ———————————–

    Ég fyrirgef það ekki, heldur fagna því ef einhver vill nota eitthvað af því sem ég hef skrifað. Svo fremi sem tilgangurinn er ekki sá að snúa út úr því sem ég segi eða græða á því.

    Takk fyrir að lesa bókina mína 🙂

    Posted by: Eva | 24.02.2011 | 8:32:07

Lokað er á athugasemdir.