Af hverju Gvuð?

godKela vini mínum finnst hallærislegt að skrifa Gvuð, með vaffi. Segir það sambærilegt við að rita nafnið mitt Evba. Þetta þykja mér afar vond rök.

Eva er nefnilega alls ekki borið fram með b-i. Ef þú vilt nota framburðaleg rök Keli minn, gætirðu skrifað Efa því það yrði borið fram Eva. Betri rök væru þó að stafsetja þitt nafn Þorkedl. Það er ekki hægt að bera Eva fram nema á einn veg en útlendingur eða illa læs krakki gæti lesið nafnið þitt með sama l-hljóði og í gælunöfnum (Villi, Solla o.fl.)

Samt sem áður er ekki sambærilegt að rita Gvuð með vaffi og Þorkedl með dl því í íslensku hefur ll aldrei verið ritað dl þrátt fyrir framburðinn.
Það er hinsvegar aðeins þetta eina orð, guð, sem er borið fram með v á eftir g+sérhljóða.
Dæmi: goð, gyðja, guða á glugga, geð, gæði, góður.
Í því eina tilviki (fyrir utan guð) sem v er borið fram í þessari stöðu er það einnig ritað. Þá á ég við nafnið Gvendur sem er dregið af Guðmundur og væri því eðlilegt að stafsetja Gendur út frá orðsifjafræðinni.

Ég man ekki annað dæmi íslenskt, þar sem sérstök stafsetningarregla gildir um eitt orð.

Engin rök, önnur en hefð, standa til þess að halda í þetta fáránlega ósamræmi milli framburðar og stafsetningar. Ég nota því gjarnan framburðinn guð (án vaffs) í daglegu tali og leyfi mér að brjóta stafsetningarhefðina í textum sem ekki eru hugsaðir sem fræði eða heimsbókmenntir.

Ég skrifa stórt g í Gvuð, og hafa trúleysingjar furðað sig á því. Í því samhengi hefur Gvuð oftast stöðu sérnafns, rétt eins og Grýla (grýla er einnig samheiti yfir barnafælur). Einnig samþykki ég rök Hauks um að goðsagnavera sem hefur bylt heimsmyndinni og valdið hverri styrjöldinni á fætur annarri, verðskuldi sérstakan sess.

Amen

Share to Facebook