Af hverju fór Mouhamed í felur?

Mouhamed fór í felur vegna þess að það var eina leiðin sem hann gat farið til þess að bjarga sjálfum sér frá þrældómi og pyndingum.

-Mouhamed flúði frá Noregi af því að Norðmenn ætluðu að senda hann til Máritaníu.
-Útlendingastofnun á Íslandi hafnaði hælisumsókn Mouhameds.
-Hann fékk tilkynningu um brottvísun til Noregs, enda þótt Norðmenn væru búnir að tilkynna Íslendingum að þeir myndu senda hann til Máritaníu.
-Mouhamed kærði úrskurðinn og fór fram á frestun réttaráhrifa. Það merkir að hann vildi fá að vera kyrr á Íslandi á meðan málið væri í áfrýjunarferli.
-Innanríkisráðherra synjaði honum um frestun réttaráhrifa, ætlaði semsagt að senda hann til Noregs, vitandi að hann yrði sendur þaðan til Máritaníu.

Ef Mouhamed hefði hlýtt úrskurði ráðuneytisins, hefði hann verið sendur til Máritaníu þar sem hann hefði að líkindum lent aftur í klónum á „eiganda“ sínum. Hann hefði svo getað kært Norðmenn, væntanlega með því að senda hugskeyti frá tjaldinu sínu í Sahara, eftir að hafa gengist undir geldingu sem fer þannig fram að maðurinn er barinn með prikum milli fótanna þar til eistun gefa sig. Menn hafa dáið af slíkri meðferð.

Mouhamed var í felum á Íslandi í rúma 13 mánuði. Allur sá tími dugði Innanríkisráðuneytinu ekki til þess að afturkalla ákvörðun sína um synjun réttaráhrifa heldur hummaði ráðuneytið málið fram af sér þar til var orðið of seint að senda hann til Noregs. Snjall leikur hjá Ögmundi; hann nær að ganga í augun á hægri mönnum með því að taka ekki ábyrgð á þvíað lofa honum að vera á Íslandi á meðan málið var í kæruferli og svo hefur hann vinstri menn góða með því að „úrskurða“ að taka beri málið fyrir á Íslandi, þegar er hvort sem er enginn annar kostur í stöðunni. Þessi maður gæti orðið næsti forseti lýðveldisins.

 

Share to Facebook