Af fögnuði UTL

Vinsamlegast lesið þetta sem og önnur skrif Teits um málefni flóttamanna. Lesið einnig svar UTL sem lýsir sérstökum fögnuði yfir því að Teitur og Baldur (menn sem líkur eru á að einhver taki meira mark á en hernaðarandstæðingum og anarkistum) skuli vera farnir að gagnrýna stofnunina. Eflaust er gleði þeirra ósvikin, sennilega bara skálað í vikulokin fyrir þessari æðislegu auglýsingu.

Teitur hefur ekki enn fengið upplýsingar um afdrif íranska parsins og ef þetta væri eitthvað einstakt dæmi þá væri nú hægt að halda andlitinu með því að biðja þau afsökunar og bjóða þeim hæli. Þetta er hinsvegar bara standard meðferð á flóttafólki, það er meðhöndlað sem glæpamenn þar til það getur sannað sögu sína og takist það ekki er það látið hverfa og velunnarar þess fá aldrei neinar upplýsingar um hvað varð af því.

Í svari UTL er bent á nauðsyn þess að ræða þessi mál af „skynsemi“ einmitt í beinum tengslum við þá spurningu hvort ekki væri heppilegra að vista flóttamenn á höfuðborgarsvæðinu í stað þess að halda úti flóttamannabúðum í Reykjanessbæ. Það þarf ekki sérstaka skynsemi til að sjá að það fyrirkomulag þjónar ekki hagsmunum flóttamanna. Það er hinsvegar skynsamlegt fyrir valdastofnun sem byggir á rasískum grunni og vinnur eftir þeirri hugmyndafræði að flóttamenn skuli teljast glæpamenn, sníkjudýr og vandræðafólk þar til þeim tekst að sanna sögu sína, að hafa þá staðsetta úti í rassgati þar sem auðveldara er að fylgjast með þeim og flóknara fyrir þá að láta sig hverfa.

Share to Facebook

One thought on “Af fögnuði UTL

  1. Umræður í framhaldi af pistlinum

    —————————————–

    Gagnlegt væri það baráttunni fyrir bættri og siðlegri móttöku flóttamanna á Íslandi ef ekki væri alltaf þetta smákóngarugl að hver og einn fari af stað eins og aldrei hefði neitt veri gert áður!. Af hverju ekki að bindast samtökum eða styðja við þau samtök sem hafa farið af stað í baráttunni. Mig minnir að sl sumar hafi ungt fólk verið að hjálpa flóttamönnum.
    Nei, Íslendingar skulu ávallt finna upp hjólið, hver og einn.

    Posted by: Anonymous | 25.11.2011 | 17:57:23

    —————————————–

    Það fór töluverð umræða í gang með máli Pauls Ramses og síðan hafa áhugahópar tekið að sér mál nokkurra flóttamanna. Sum þeirra mála hafa náð athygli fjölmiðla og ekki síður bloggara. Vandinn er bara sá að á meðan stjórnvöld halda fast við þá túlkun að Dyflinnarákvæðið feli í sér bann við því að taka mál flóttamanns fyrir á Íslandi (í stað þess að viðurkenna að það felur aðeins í sér HEIMILD til þess) þá þarf ómældan tíma, mannafla og vesen til þess að bjarga einum í senn og flest fólk er nú bara þannig að þótt það styðji einhvern málstað, þá nennir það ekkert að leggja á sig vinnu og vesen vegna hans. Það þykir eiginlega bara frekja að biðja fólk um aðstoð við að bjarga mannslífi. Undirskriftarlistar eru í lagi en varla neitt fram yfir það svo ég bind ekki stórar vonir um samtakamáttinn.

    Posted by: Eva | 25.11.2011 | 23:53:54

Lokað er á athugasemdir.