Að leggja deilumál til hliðar

Stundum getur verið nauðsynlegt að leggja deilumál til hliðar. Fjölskyldur gera það t.d. iðulega í jarðarförum og á jólunum. Vegna þess að stundum hefur fólk þörf fyrir að halda friðinn og hugsa um það eitt að komast stóráfallalaust í gegnum daginn.

Hið óræða samsafn fólks sem kallast þjóð getur líka þurft á því að halda að leggja deilumál til hliðar. Alþingismenn stilla sig þessvegna um að karpa um hin allra ómerkilegustu deilumál daginn sem hörmulegar náttúruhamfarir ríða yfir. Flesta daga ársins er það hinsvegar þungamiðjan í starfi þingmanna að ræða ólík sjónarmið. Vel má vera að það sé óæskileg áhersla eða að umræður gætu farið betur fram og ég skal vera manna fyrst til að taka undir það sjónarmið að endurskoða þurfi hlutverk þingsins og jafnvel að gerbreyta því. En á meðan engar slíkar tillögur hafa komið fram er Alþingi vettvangur deilumála og oft er um að ræða stór mál þar sem niðurstaðan skiptir stóran hluta þjóðarinnar verulegu máli.

Mig langar því að vita hvað í ósköpunum það er sem forsetaframbjóðandinn Þóra Arnórsdóttir ætlar að sameina þjóðina um, hvaða deilumál það eru sem hún vill leggja til hliðar og hversu lengi. Eigum við að hætta að ræða kvótann? Eigum við að leggja deilur um umhverfismál til hliðar og leyfa bara Landsvirkjun að fara sínu fram? Eigum við að leggja til hliðar allar deilur um aðskilnað ríkis og kirkju og hvenær eigum við þá að taka þá umræðu upp aftur? Ef við eigum að hætta að deila um efnahagsmál, hver á þá að taka ákvarðanir um þau? Eigum við að segja sjúklingum að þar sem við séum hætt að deila um áherslur í heilbrigðiskerfinu geti þeir ekki búist við neinum framförum? Eiga Íslendingar sem „ein þjóð í einu landi“ að sameinast um útlendingahatur eins og Bjartsýnisflokkurinn boðar eða eigum við bara að sameinast um að halda 17. júní hátíðlegan og klappa fyrir forsetanum? Og hvað á forsetinn að gera með upplýsingar sínar um það sem brennur á þjóðinni fyrst hann má ekki taka afstöðu? Hvernig getur maður verið fulltrúi einhvers án þess að taka afstöðu með honum? Hefur þjóðin ekki einmitt þingið til að sinna þeim málum sem á henni brenna og fjölmiðlafrelsi til að koma skoðunum sínum á framfæri? Hverju er þjóðin bættari með því að grenja í forseta sem ætlar hvort sem er ekki að taka neina afstöðu? Hvaða áherslur eru þetta sem forsetinn á að leggja út frá því sem hann heyrir hjá „þjóðinni“ á facebook eða ferðum sínum um landið og hvernig samræmist það hugmyndinni um afstöðuleysi forsetans? Reiknar Þóra kannski með að heyra bara eina skoðun, skoðun „þjóðarinnar“ á hverju máli? Já og hvernig samræmist sú hugmynd að leggja deilumál til hliðar, því sem Þóra hefur sjálf sagt, að það séu einmitt snörp skoðanaskipti sem hafi tryggt okkur það frelsi og velferð sem við þó búum við?

Nú hef ég séð stuðningsmenn Þóru túlka orð hennar á þann veg að við eigum alls ekki að leggja deilumál til hliðar heldur eigi að ræða þau af minni heift og meiri kurteisi. Gott og vel, það hljómar ágætlega en ef það er það sem Þóra á við, hvernig ætlar hún þá að stjórna umræðunni? Hvaða uppeldisaðferðum ætlar hún að beita til að kenna þingi og þjóð betri siði? Ef framboð hennar snýst um það, af hverju eiga kjósendur þá að trúa því að hún hafi einhverja burði til þess sem engum öðrum hefur tekist?

Jæja krakkar mínir. Nú skuluð þið hætta að rífast og ræða málin fallega.

Þóra Arnórsdóttir er eflaust ágætismanneskja. Hún hefur lýst því yfir opinberlega að þótt hún vilji ekki monta sig sé hún samt góð stelpa sem ljúki hverjum degi með þakklæti í huga, leggi sig fram um að vera góð við aðra og kenna börnum sínum góða siði. Engin ástæða er til að efast um þetta. Hvort það að vera góð stelpa gagnast manneskju sem talar um sameiningu þjóðarinnar af sömu dýpt og menntskælingur á fyrsta ári, til að sameina þjóð sem er ekki sammála um neitt annað en kannski það að Ísland sé fallegt og  að lýðræði, velferðarkerfi og grunnmenntun séu góðar hugmyndir (um útfærsluna deilum við þó sannarlega sem og hvernig eigi að vernda og nýta náttúru landsins), það er svo allt annað mál.

Þóra Arnórsdóttir getur ekki orðið sameiningartákn þjóðarinnar vegna þess einfaldlega að þjóðin hefur engan áhuga á því að sameinast um eitt eða neitt. Hún gæti hinsvegar orðið sameiningartákn stuðningsmanna sinna. En til þess þyrfti það fólk sem ætlar að gefa henni atkvæði sitt að fá að vita hvað það á að sameinast um. Það er nefnilega ekki víst að nógu margir vilji sameinast um það eitt að losna við Ólaf Ragnar. Ef það er eina markmið kosninganna þá koma fjórir aðrir kostir til greina og ef hitt markmiðið er að fá sæta konu á Bessastaði þá eru tvær aðrar konur í boði, svona líka ljómandi huggulegar báðar. En munurinn á þeim og Þóru er náttúrulega sá að þær hafa skoðanir. Það þykir víst ekki fara fallegum konum.

Share to Facebook

8 thoughts on “Að leggja deilumál til hliðar

  1. Ágætis umræðuefni. Væri bara ekki ráð að allir frambjóðendur svörðu þessu? Vitrænni framlegð en margt annað sem komið hefur fram í kosningabaráttunni. Meira síðar. . . gb

  2. Þú segir að fjölskyldur reyni að leggja deilumál til hliðar í jarðarförum og á jólum. Ég held að eitthvað sé að í fjölskyldu þar sem allt logar í illdeilum nema á aðfangadagskvöldi og í jarðarförum.

  3. Deilur geta verið misjafnlega hatrammar en ekki skal ég mótmæla því að eitthvað sé að í íslensku samfélagi. Hvernig Þóra Arnórsdóttir ætlar forsetaembættinu að laga það hefur hinsvegar hvergi komið fram.

  4. Það hefur aldrei nokkur maður/kona orðið sameiningartákn þjóðar nema með tvennu móti: annaðhvort með því að herja á utankomandi óvin – eða með því að fórna sér

    Að vera forseti Íslands er barbie embætti (óháð hvort það er Ken eða Barbie) og ekki nokkur fórn í neinum einasta skilningi.

    Allir þessir frambjóðendur, og ekki sýst Þóra verða að viðurkenna að þeim langar í Barbie leik og að halda teboð, og að fá að halda ræður um heimsfrið sem fegurðardrottningar myndu roðna undan – Sá frambjóðandi sem viðurkennir þetta ekki er intellectual moron, eða óheiðarlegur og íllilega fyrt/ur

  5. „Þóra Arnórsdóttir er eflaust ágætismanneskja.“ Svona byrjar fólk yfirleitt hatursáróður 🙂

  6. Það er auðvitað ekkert annað en hreinræktað hatur að ætlast til þess að fólk sem sækist eftir valdastöðum útskýri hversvegna það telur sig hæft til þess að gegna stöðunni.

  7. „Þóra Arnórsdóttir getur ekki orðið sameiningartákn þjóðarinnar vegna þess einfaldlega að þjóðin hefur engan áhuga á því að sameinast um eitt eða neitt. Hún gæti hinsvegar orðið sameiningartákn stuðningsmanna sinna.“

    Beint í mark 🙂

  8. Ég hef fylgst með blogginu þínu í dálítinn tíma og er ekki oft sammála þér, en verð að segja að síðustu línurnar í þessum pistli eru algjörlega frábærar 🙂

Lokað er á athugasemdir.