Á náttúran að njóta réttinda?

Masanobu-Fukuoka-ignorance-hatred-and-greed-are-killing-nature-178324

Þessar pælingar spruttu af svar lesanda við þessum pistli. Honum þótti einkennilegt að eigna náttúrunni réttindi.

Kæri bekkjarbróðir

Það er langt síðan ég henti líffræðifjölritunum sem við fengum í 9. bekk. Ég man samt eitthvað smávegis.

Þú virðist líta á hugmyndina um réttindi náttúrunnar sem einhverskonar hálendisrómantík og spyrð á hverju við eigum að lifa.

Því miður, minn kæri, þá er hvatinn að baki hugmyndinni um réttindi jurta og dýra ekki sú að votlendisplöntur snerti svo rómantískan streng í brjósti mínu. Eins og ég segi; ég er enginn skáti. Mér þykja hreindýr ósköp sæt en ég vil frekar fara í leikhús en útilegu.

Hugmyndin um réttindi náttúrunnar er, svo ömurlegt sem það nú annars er, fyrst og fremst praktísk. Hún er sprottin af eiginhagsmunahyggju. Við vitum ekki um allar afleiðingar gjörða okkar gagnvart náttúrunni og ef við reiknum ekki með því að lífríkið hafi réttindi, er hætt við að við gröfum okkar eigin gröf.

Sjáðu nú til.

Ef við hindrum árnar í því að bera þörunga til sjávar, fá litlu fiskarnir ekki nóg að éta.

Nú mætti ætla að mér finnist litlir fiskar ægileg krútt og vilji endilega fá að klappa þeim og kúra hjá þeim, fyrst ég held fram afkomurétti þeirra. Sannleikurinn er nú samt sá að ég ber nákvæmlega engar tilfinningar til lítilla fiska. Ég bara veit að ef þeir fá ekki að éta, þá deyja þeir og þá fá stóru fiskarnir ekkert að éta og þá deyja þeir líka. Og ég vil éta stóru fiskana því annars dey ég.

Einhvernveginn svona var þetta útskýrt í líffræðifjölritinu okkar, ef ég man rétt.
Litir fiskar éta ekki ál. Þeir éta þörunga og á einhverju verðum við að lifa.

Dæmið um þörungana er auðvitað mjög einfaldað þar sem stærsti hluti af grunnfæðu sjávardýra lifir ekki í ferskvatni. Grænþörungar eiga hins vegar flestir uppruna sinn í ferskvatni og þú getur rétt ímyndað þér hvaða afleiðingar það getur haft ef hafið fer að þjást af súrefnisskorti. Þegar mörg einföld dæmi um röskun á vistkerfum jarðar koma saman verður til flókin og fremur ógnvekjandi mynd.

Þungaiðnaður er ekki bara megnandi, hann er líka alvarlegt inngrip mannsins í getu náttúrunnar til að framleiða súrefni. Helstu súrálsnámur veraldrar liggja undir regnskógum Suður-Ameríku og þegar við sviptum gróður jarðarinnar tilverurétti sínum þá hættir jörðin að sjá okkur fyrir súrefni.

Þér finnst öfgakennt að tala um náttúruna eins og hún sé “heilög kýr”. Hvers vegna heldur þú að Indverjar hafi tekið upp á því að dýrka kúna? Það skyldi þó ekki vera vegna þess að það var kýrin sem gaf þeim að éta?

Öll rök eru tilfinningarök. Tilfinningarök eiga uppruna sinn í viðleitni mannsins til að lifa af. Það er náttúran sem gefur okkur að éta. Það er náttúran sem sér okkur fyrir súrefni. Ef við slátrum hinni heilögu kú til að halda almennilega veislu núna, bitnar það á börnunum okkar síðar. Þessvegna verðum við að reikna með því að náttúran hafi ásköpuð réttindi sem sé heilög skylda okkar að virða, hvort sem okkur langar í útilegu eða ekki.

 

Share to Facebook