Halló Stefán!

Stefán Eiríksson lögreglustjóri segir í mogganum í dag að það sé fráleitt að lögreglumenn hafi tekið vægar á mótmælum atvinnubílstjóra en mótmælum annarra, s.s. liðsmanna Saving Iceland.

„Enginn hefur verið færður á lögreglustöð, því menn hafa látið af mótmælum áður en til þess hefur komið,“ segir Stefán. „En það liggur fyrir að að minnsta kosti einn af forsprökkum mótmælenda var handtekinn og færður inn í lögreglubíl.“

Bíddu nú við!

  • Einn handtekinn -af hve mörgum? Veit Stefán hversu hátt hlutfall þeirra umhverfissinna sem hafa beitt borgaralegri óhlýðni, síðustu fjögur árin, án þess að valda almenningi nokkrum óþægindum, hefur sætt handtöku? Það er nálægt 100%.
  • Einhversstaðar sá ég haft eftir viðkomandi bílstjóra að hann gerði sér ekki grein fyrir því hvort hann hefði verið handtekinn eða ekki. Ef þetta var handtaka, þá hlýtur maðurinn að hafa undirritað skýrslu þar sem fram kemur að hann hafi verið handtekinn. Eða klikkaði löggan kannski á svona smáatriði eins og að láta manninn vita af því að hann væri handtekinn? Það kæmi mér reyndar ekki á óvart því sjálf hafði ég verið í haldi í meira en tvo klukkutíma þegar ég fékk það staðfest að ég væri altso handtekin.
  • Telur Stefán í alvöru fráleitt að líta á það sem harkalegri aðgerð að vera sviptur frelsi sínu í 9 klukkustundir eða í nokkrar mínútur?
  • Sér Stefán engan sérstakan mun á því að sitja í lögreglubíl og spjalla eða sitja í marga klukkutíma einn í fangaklefa?
  • Sér Stefán enga mismunun í því þegar lögreglan bíður með að handtaka bílstjóra í heilan klukkutíma? Af hverju hafa umhverfissinnar aldrei verið látnir óáreittir í klukkustund ef það er talinn hæfilegur tími til mótmælaaðgerða?

Ég styð MÁLSTAÐ vörubílsstjóra ekki nema að hluta til. Mér finnst ekki réttlætanlegt af ríkisstjórn að neita að taka nokkra ábyrgð á efnahagsástandinu. Hins vegar er ég ekki hrifin af hugmyndinni um að hafa bílstjóra sofandi undir stýri. Það breytir því ekki að ég styð AÐGERÐIR þeirra fullkomlega. Ef þær bera árangur mun það breyta viðhorfum meirihlutans til mótmælaaðgerða og hugsanlega munu fleiri þora og nenna að sýna afstöðu gagnvart brýnni málum.

Share to Facebook