Er Stefán Snævarr nazisti?

Stefán Snævarr boðar hann það sem hann kallar „gagnrýna þjóðernishyggju“ og varar við því sem hann kallar alþjóðarembu. Þar á hann við fjölmenningarsinna, þá sem vilja efla samvinnu þjóða og stefna að því að afnema þjóðríkið. Stefán Snævarr veit alveg hvað orðið þjóðernisstefna merkir en hann frábiður sér nú samt að vera kallaður nazisti. Hann hefur m.a.s. hótað að lögsækja mig fyrir að nota það orð. Verði honum að góðu, hann lögsækir þá líklega í leiðinni þá sem styttu nafn þýska þjóðernisstefnuflokksins „Nationalsozialistische Deutsche Arbeiterpartei“ í „Nazi Party“.

Nazismi er skammaryrði í dag. Hitler, hakakrossinn og Gyðingar í gasklefum eru fyrstu myndirnar sem koma upp í hugann þegar við heyrum það. Og það er afskaplega góð ástæða fyrir því. Sú ljóta saga má ekki gleymast. Neinei, þjóðernissinar eru ekki allir saman snargeðveikir vígamenn sem vilja útrýma heilu þjóðflokkunum, ekki frekar en allir sósíalistar vilja byggja samfélagið upp á samyrkjubúskap en þeir er nú nazistar samt þótt þeir séu ekki allir öfgamenn. Haukur Már Helgason hefur bent á að Mussolini hafi ekki verið upphafsmaður fasismans. Eins og hann orðar það: „Mussolini var bara framsóknarmaður í flottum stígvélum. Fasismi er siðferðileg afstaða sálar, sú afstaða að vald eigi að seilast þangað sem það getur.“ Þetta er rétt hjá Hauki og á sama hátt skulum við átta okkur á því að Hitler var heldur ekki upphaf og endir nazismans. Nazismi er ekki gasklefar og hakakross heldur er þjóðernishyggja (þ.e. nazismi) í kjarna sínum sú hugmynd að jarðarbúar skiptist í tvo hópa „okkar fólk“ og „hina“.

Þjóðernissinnar (þ.e. nazistar) álíta að sumt fólk eigi vegna erfða og menningarbakgrunns, öðru fólki meira tilkall til ákveðins lands og gæða þess. Að við höfum ríkari skyldur gagnvart löndum okkar, einkum þeim sem eru af „réttum“ uppruna en öðru fólki og að hverjum og einum beri að sýna sínu eigin þjóðríki hollustu. Þjóðernishyggja er náskyld kynþáttahyggju og ekki alltaf skýr skil þar á milli. Þjóðernishyggja á líka rætur í fasisma enda boða öfgasinnaðir nýnazistar þjóðarmorð og mannkynbætur á sama tíma og þeir kenna sig þó við anarkí.

Þjóðernishyggja sprettur af ótta, nærist á ótta og sáir ótta við útlendinga sem gera tilkall til gæða landsins og þjónustu samfélagsins. (Mörgum þjóðernishyggjumönnum finnst þó allt í lagi að nýta þetta sama fólk sem ódýrt vinnuafl og ræna upprunalönd þess.) Það er skammt milli ótta og haturs og með því að ýta undir það viðhorf að innfæddir séu heimamenn og „okkar fólk“ en innflytjendur „hinir“, í skársta falli misvelkomnir gestir en þó oftar óvinir og ógnvaldur, búa þeir í haginn fyrir aðskilnaðarhyggju og kynþáttaátök. Það er útilokað að byggja friðsamlegt samfélag á þeirri hugmynd að sumir íbúanna séu hinum merkilegri og/eða rétthærri, einkum þegar mismununin er byggð á þáttum sem einstaklingurinn á engan möguleika á að hafa stjórn á. Þessvegna er nazismi mjög slæm hugmynd og líkleg til að ala af sér ófriðsamt samfélag sem einkennist af ójöfnuði.

Sæmilega greindir nazistar á okkar tímum reyna að fela það viðhorf sitt að útlendingar séu réttlitlar og ómerkilegar mannverur sem þurfi að halda í skefjum, á bak við grímu hófs og skynsemi. Með því að hindra innflutning fólks og þröngva því til að taka upp siði innfæddra, segja þeir sig bara vera að vernda hagsmuni síns fólks, bæði efnahagslega og menningarlega. Með því að takmarka alþjóðasamskipti þykjast þeir vera að vernda fátækar þjóðir gegn uppgangi kapítalisma. Þjóðernishyggjan er þannig sett fram sem andóf gegn frjálshyggju. Á sama hátt var þýski þjóðernishyggjuflokkurinn upphaflega á móti stórfyrirtækjavæðingu og kapítalisma þótt hann hafi auðvitað tekið hvort tveggja upp á arma sína þegar hann sá sér hag í því.

Á tímum hnattvæðingar, internets og frjálsrar fjölmiðlunar er hugmyndin um eyðileggjandi áhrif útlendinga á menninguna beinlínis hlægileg. Það er engin leið að koma í veg fyrir erlend menningaráhrif og augljóst að t.d. íslensk menning er undir miklu meiri áhrifum frá amerísku sjónvarpsefni og tónlist en nokkurntíma frá Filippseyingum eða Víetnömum. Þetta vita sæmilega upplýstir nazistar auðvitað vel enda er menningarverndin ekkert annað en aumt yfirvarp til þess að takmarka áhrif útlendinga. Þegar nánar er að gáð snýst þetta ekkert um menninguna. Allavega hreyfa fáir mótmælum þótt spretti upp veitingahús með framandlega fæðu eða áhrifa annarra menningarheima gæti í tónlistarlífi. Vandamálið er ekkert það að útlendingar setji svip á menninguna heldur hafa nazistar og rasisar áhyggjur af því að útlendingar nái ítökum í viðskiptum og pólitík. Þetta snýst ekkert um Íslendingasögur og hrútspunga, heldur hættuna á því að hnattvæðingin heppnist og verði gagnkvæm, þannig að fátækar þjóðir brjótist út úr þeirri stöðu að vera hálfgerðar þrælanýlendur. Það yrði nefnilega óhagkvæmt fyrir „okkars“.

Ég hef ekki áhyggjur af því að helför sé í uppsiglingu. Og þó skulum við ekki sofna á verðinum, ég efast um að þeir hafi verið margir sem sáu útrýmingarherferð Þjóðverja gagnvart „óæskilegum hópum“ fyrir. Kjánar falla auðveldlega fyrir hugmyndinni um sameiginlegan óvin og það er þægileg aðferð fyrir þá sem valdið vilja hafa að útvega almenningi einhvern annan óvin en sín eigin yfirvöld. Það sem ég hef áhyggjur af eru kynþáttaátökin og útlendingahatrið sem nazismi elur alltaf af sér, hvort sem hann er hreinn og beinn eða dylst bak við grímu hófs og gagnrýni. Það þarf enga helför til að afleiðingarnar verði skelfilegar.

Um daginn skrifaði ég stuttan pistil um öfgar, þar sem fram kemur sú skoðun að það séu ekki öfgarnar sem eru vandamál heldur skoðunin sem slík. Hlutverk öfgafólks í samfélaginu er að ryðja tilteknum viðhorfum braut inn í stjórnmálin. Þar eru þau tekin upp sem hófsamt afbrigði af því sama. Tiltölulega hófsamir stjórnmálaflokkar skapa þannig smámsaman rými fyrir öfgaöflin, þar til þau teljast ekki öfgafull lengur. Oft er þessi hringrás bara hið besta mál. Með þessu ferli var þrælahald upprætt í Bandaríkjunum, kvenréttindum komið á og aðskilnaðarstefnan í Suður-Afriku upprætt. Allir sem berjast fyrir betri heimi eru upphaflega kallaðir öfgamenn.

Við skulum þó athuga að með sömu aðferð hafa menn unnið heiminum tjón. Og það er einmitt það sem nazistar gera. Í Noregi hefur þeim tekist svo vel upp að jafnvel norska ríkissjónvarpið hefur fallið í þá gryfju að birta falsaðar fréttir af glæpastarfsemi muslima. Í Bretlandi eru starfandi þrír nazistaflokkar sem allir hafa tengsl við hreyfinguna Blood & Honour en sú hreyfing starfar beinlínis þannig að hún smyglar Trójuhestum inn í stjórnmálaflokka. (Sjá t.d. A. Meleagrou-Hitchen & E. Standing „Blood & Honour -Britain´s Far-Right Militants“ 2010 ) Við höfum enga ástæðu til að halda að þetta verði eitthvað öðruvísi á Íslandi.

Ég held ekki að öfgahreyfingar eins og sköpunarhreyfingin og Blóð og heiður, hreyfingar sem boða ofbeldisfullar kynþáttaofsóknir og mannkynbætur, fái fylgi ef þetta fólk gerist virklega nógu vitlaust til að bjóða sig fram til þingsetu. Hinsvegar er líklegt að fólk sem kennir sig við „hófsama þjóðernishyggju“ eða „gagnrýna þjóðernishyggju“ komist til valda. Huggulegt fólk sem vill ekki beinlínis ofsækja innflytjendur en trúir þó á Ísland fyrir Íslendinga. Fólk sem telur sjálfsagt og eðlilegt að þeir útlendingar sem á annað borð fá að flytja til landsins (þótt undir liggi það viðhorf að æskilegast væri að loka landamærum) afsali sér menningu sinni og siðum í stað þess að fá sama tækifæri og aðrir til að setja sitt sérstaka mark á samfélagið og móta það. Fólk sem í stað þess að vinna gegn aðskilnaðarhyggju sér menningarblöndun sem vandamál, fólk sem í stað þess að vinna gegn eyðileggjandi áhrifum kapítalismans í þróunarlöndnum, sér hnattvæðinguna sem vandamál. Fólk sem er á móti ESB vegna ótta um að það vinni gegn „okkar“ hagsmunum fremur en ótta við að alþjóðakapítalimsi hafi í för með sér enn meiri kúgun gagnvart fátækum. Fólk sem veit mæta vel að rányrkja vestrænna þjóða í þriðja heiminum hófst löngu fyrir daga Evrópusambandsins en lætur samt eins og kapítalisminn eigi uppruna sinn í ESB í trausti þess að kjánarnir gleypi við því.

Þjóðernishyggja grasserar á Íslandi og hefur alltaf gert. Hún skín í gegnum orðræðu stjórnmálamanna og annars áhrifafólks og þegar nýnazistar verða meira áberandi má búast við að hinum hófsömu vaxi fylgi. Við sem kærum okkur ekki um samfélag sem logar af aðskilnaðarhyggju og kynþáttaátökum skulum vaka yfir orðræðu þeirra hófsömu nazista sem eiga greiðari leið inn í pólitík en hið óupplýsta og illa talandi öfgafólk. Spyrjum okkur hvaða áhrif eru að ryðja sér leið inn í stjórnmálin þegar Þorgerður Katrín vill banna búrkuna og vill treysta ítök kirkjunnar á þeirri forsendu að við séum kristin þjóð. Hugsum okkur alvarlega um áður en við tökum upp á arma okkar tillögur um „gagnrýna“ eða „hófsama“ þjóðernishyggju og gefum þeim völd sem nota skuggahliðar Evrópusambandsins sem átyllu til að hafna alþjóðahyggju.

Það er full ástæða til að vera á varðbergi gagnvart hófsömum þjóðernissinnum. Við skulum fylgjast vel með framsóknarmönnum allra flokka hvort sem þeir klæðast flottum stígvélum eður ei. Orðið þjóðernishyggja merkir nefnilega nazimi. Og nazismi í sinni hófsömustu mynd er samt sem áður nazismi, það viðhorf að sumir meðlimir tiltekins samfélags séu öðrum rétthærri og að fráleitt sé að hagsmunir jarðarbúa fari saman. Það er nefnilega ekki öfgastefnan í sjálfu sér, heldur þetta grundvallarviðhorf sem gerir mann að nazista, hvort sem hann kann skammlausa stafsetningu eða ekki.

Share to Facebook

One thought on “Er Stefán Snævarr nazisti?

  1.  ——————————————-

     Þetta er bara ekki rétt, Eva. Þjóðernisstefna er ekki það sama og nasismi og nasismi er heldur ekki það sama og sósíalismi, hvað sem nafni nasistaflokksins líður. Fasismi er heldur ekki siðferðisleg afstaða sálar heldur stjórnmálastefna. Ef maður setur þessi hugtök öll í sömu súpuna og fer síðan að dengja yfir friðelskandi þjóðernissinna í valdalausum ör- og smáríkjum víðsvegar um heiminn þeirri dómhörku að þeir séu nasistar hefur ræða manns litla merkingu. Hvað sem líður máli Stefáns Snævarrs: Það eru ekkert allir þjóðernissinnar nasistar, ekki fremur en allir Gyðingar eru gráðugir eða allir sósíalistar hlynntir stalínísku morðæði.
    Posted by: Hermann Stefánsson | 3.09.2011 | 15:31:03

     ——————————————-

    Takk fyrir innleggið Hermann.

    Þjóðernisstefna byggir á hugtökum sem eru vægast sagt loðin og umdeilanleg. Í raun er ekki til nein almennileg skilgreining á þjóð og þjóðernishyggja er miklu fremur sprottin af þörf manna til að tilheyra hóp en einhverjum náttúrulögmálum. Gyðingar byggja sína þjóðerniskennd t.d. miklu frekar á trúnni en sameiginlegu landsvæði og margir muslimir finna samkennd fremur á grundvelli trúar en þjóðernis.

    Þjóðernishyggja er hvorki vinstri né hægri stefna og í raun snýst hún ekkert um það hvernig eigi að stjórna samfélagi. Hún snýst um það hver megi búa hvar og það eru þessi æði loðnu hugtök og fleiri álíka, sem lögð eru til grundvallar. Hófsamasta afbrigði hennar gengur þrátt fyrir sakleysislegt yfirbragð sitt þvert gegn þeirri sjálfsögðu kröfu að menn megi búa nákvæmlega þar sem þeim bara sýnist.

    Posted by: Eva | 3.09.2011 | 15:44:16

     ——————————————-

    Það er heldur ekki rétt. Hófsamasta afbrigði þjóðernisstefnu segir ekki múkk um hvar fólk megi búa. Þótt vissulega sé til rasísk þjóðernisstefna sem hefur miklar skoðanir á því.

    Posted by: Hermann Stefánsson | 3.09.2011 | 15:50:41

     ——————————————-

    PS Gaman að því annars að þurfa að skrifa „mammon“ í kæfukvörn svo að athugasemd birtist – og takk fyrir intresant pælingar á blogginu þínu.

    Posted by: Hermann Stefánsson | 3.09.2011 | 19:37:39

     ——————————————-

    Nasismi er ekki það sama og þjóðernishyggja. Það er ansi djúpt í árina tekið að spyrða þetta tvennt saman.

    Wikipedia er með ágætis yfirlit

    http://en.wikipedia.org/wiki/Nazism

    Nasismi gengur út á yfirburði Aríska kynstofnsins. Sá getur verið innan vébanda allskonar landa og þjóðríkja.

    Nasismi er ekki það sama og þjóðarnishyggja.

    Posted by: Teitur Atlason | 3.09.2011 | 22:24:03

     ——————————————-

    Hermann það sem Haukur er að tala um í þessari grein er það hvernig fasismi birtist í daglegu lífi. Auðvitað er fasismi stjórnmálastefna en engu að síður stjórnmálastefna sem sprettur af og elur á siðferðilegri afstöðu. Það sama á við um nazisma, þótt við búum ekki við stjórnhætti Hitlers er nazisminn sem „klappar okkur á bakið“ (svo ég vitni aftur í Hauk) stór meinsemd í íslensku samfélagi og það er góða fólkið, hófsemdarfólkið, sem í góðri trú á einhverskonar milliveg milli útlendingahaturs og fjölmenningar, viðheldur henni. Sá millivegur er ekki til og fólk verður að fara að gera sér grein fyrir því hvað það kostar í þjáningum og jafnvel mannslífum að halda „þjóðarstolti“ og þjóðarímynd á lofti.

    Enda þótt stofnun þjóðríkja hafi þjónað tilgangi á sínum tíma, er lítil ástæða til að halda dauðahaldi þjóðríkið í dag. Hugsanlega þurfa þjóðir sem standa í frelsisbaráttu á því að halda en flest Evrópuríki hanga á hugmyndinni af vana fremur en þörf. Sú hugmynd að ein þjóð sé afbragð annarrar (og hópur þjóða öðrum rétthærri)er bæði undirrót og drifkraftur hins mesta óréttlætis og mismununar sem viðgengst í hinum vestræna heimi á okkar tímum, jafnvel þótt hugtakið þjóð sé svo óljóst að það er á mörkunum að það eigi rétt á sér.

    Þjóðernishyggja sem snýst ekki um það að draga landamæri og útdeila réttinum til að búa innan þeirra.getur tæplega talist þjóðernishyggja. Það er ekki þjóðernishyggja að hafa áhuga á málvernd, ekki frekar en það er alþjóðahyggja að hafa gaman af matargerð frá öllum heimshornum. Það eru til minnst 30 stefnur sem kenna sig við þjóðernishyggju (post-colonial, liberal, imperial o.sfrv.) Einhverntíma las ég grein eftir stjórnmálafræðing sem notaði þá aðferð til að greina á milli þess hvort tiltekin stefna væri raunverulega þjóðernisstefna eða eitthvað annað, að athuga hvort hún uppfyllt tvö skilyrði; að leitast við að skilgreina þjóðina og að leitast við að skilgreina yfirráðasvæði hennar. Ég verð á ferðalagi næstu daga og sennilega ekkert nettengd fyrr en á mánudagskvöld en ég skal reyna að finna hana og gefa nánari upplýsingar þá eða á þriðjudag.

    Posted by: Eva | 4.09.2011 | 3:22:47

     ——————————————-

    Mér finnst hann eiginlega ekki vera að hóta því að kæra þig. Eða, ég fékk það „impression“ að hann væri að gefa í skyn að hann hefði góðan möguleika á að vinna slíkt mál, en hefði ekki áhuga á því að kæra þig. Ekki það að ég geti fullyrt að þetta hafi ekki verið hótun.

    Posted by: MK | 4.09.2011 | 10:36:08

     ——————————————-

    Jú fyrirgefðu, hann er með beina hótun um að kæra þig í athugasemd við fyrri færslu. Þótt ég sé algjörlega ósammála því að Stefán sé nasisti, finnst mér þetta alls ekkert tilefni til ákæru.

    Posted by: MK | 4.09.2011 | 10:41:18

     ——————————————-

    Mér sýnist Haukur reyndar vera kominn nokkuð nálægt því að því að réttlæta fyrir sjálfum sér að kalla hvað sem er fasisma og kæfa þannig alla samræðu í fæðingu. Sem er einmitt fasískur gjörningur, í þessum almenna skilningi. Fasismi er hugmyndafræði, ekki eitthvað sem finna má í öllu, í aðferðum Skrúðgarðyrkjufélags Reykjavíkur við trjáplöntun, ef manni þóknast. Ég set líka spurningamerki við retorískt orðfæri eins og „þess vegna er blindan freistandi. Þess vegna er hún ekki valkostur“. Við þannig orð og fleiri svipuð í annars ágætri grein finn ég hægri höndina rísa ósjálfrátt af kveðjuhvöt, fæturna lyftast ögn hærra við gang og yfir mig hellast óstjórnlega löngun til að hefja loftárás á London – eða það myndi ég óhikað segja ef Haukur hefði ekki sagt mér einhverju sinni að húmor sé líka fasískur. Sem ég er reyndar ósammála, það er einmitt húmorleysið sem er fasískt.

    Það er ekkert sem bendir til þess að þjóðríkið sé að líða undir lok í dag. Um þjóðríkið er hugsað á ýmsan hátt sem ekki var gert áður og á tilurð fyrirbærisins og sögu hefur verið varpað nýju ljósi. En veruleikinn er sá að þjóðríkin standa styrkum stoðum á rótgrónum stofnunum og kerfum, þótt alls ekki sé þar með sagt að þau séu eilíf.

    Um þjóðernisstefnu stóð Árni Bergmann í fróðlegri ritdeilu í Skírni fyrir nokkuð löngu síðan. Hún er svo til samhljóða þessu debatti. Ég er sammála Árna, megnið af íslenskri þjóðernishyggju er meinlaus og frekar skondin og jafnvel sjarmerandi vitleysa smáþjóðar með vott af komplexum. Það er frekar ósanngjarnt að bera þetta saman við rasistahópa, hvað þá nasisma.

    Posted by: Hermann Stefánsson | 4.09.2011 | 15:50:15

Lokað er á athugasemdir.