Sælir eru fávitar

Líklega er maðurinn eina dýr jarðarinnar sem hefur hugmyndir um einhvern sérstakan tilgang með lífinu. Og reyndar held ég að flest fólk hafi enga göfugri ástæðu til að fara á fætur á morgnana en þá að seðja hungur sitt.

 Aðspurðir segjast samt flestir álíta að það sé tilgangur með lífinu. Trúað fólk heldur að líf þess hafi einhvern æðri tilgang, að yfirleitt vorkunnarverð tilvist þess skipti einhverju máli í eilífðinni. Það þarf ekki einu sinni að vita hver sá tilgangur er, það er alveg nóg að gera bara það besta úr stöðunni hverju sinni, reyna að hegða sér skikkanlega og hafa dálítið gaman af því að vera til og svo kemur þetta allt í ljós eftir dauðann. Oft er líka óljóst hvort fólk er að tala um tilgang eða hamingju. Þetta tvennt fer víst oft saman er mér sagt og kannski engin skörp skil þarna á milli en þótt fólk sé óhamingjusamt getur það séð ástæðu til að lifa, t.d. af því að það hefur skyldur gagnvart börnum.

Ég held að krafan um tilgang sé voninni um hamingju yfirstekari. Jafnvel fólk sem lifir fullkomlega innhaldslausu og gleðisnauðu lífi finnur sér einhverskonar tilgang eða kallar það tilgang. Maður sem hafði setið í fangelsi í mörg ár sagði mér einu sinni að hans tilgangur í lífinu væri að spila tetris. Mér finnst hugmyndin reyndar fáránleg því eini tilgangurinn sem ég sé með leikjum er að drepa tímann, lifa leiðindin af, sem er ekki það sama og að fylla líf sitt af merkingu og tilgangi.

Yfirleitt held ég að fólk byggi tilgang sinn og hamingju á draumum. Þeir þurfa ekkert endilega að vera stórir eða skipta máli í einhverju guðdómlegu kosmosi. Það geta verið ósköp litlir og ómerkilegir draumar sem færa fólki mikla hamingju. Ég á t.d. systur sem getur brosað út að eyrum vikum saman af því að hún ætlar einhverntíma að mála einhvern vegg. Svo málar hún vegginn og þegar það er búið dettur henni í hug að það gæti verið gaman að eignast geit og þar með hefur líf hennar öðlast nýjan tilgang. Auðvitað í bland við allskonar mikilvægari hluti eins og að koma börnum til manns og annað sem maður getur kannski ekki bent á á tilteknu augnabliki og sagt ‘mission accomplished’ en já ég held að hún finni miklu dýpri og innilegri gleði í svona hlutum en t.d. ég og það er góður hæfileiki.

Ég held nefnilega að stórir draumar séu ekkert hamingjuvænlegri en litlir. Ég efast ekki um að sá sem stendur á Mount Everest er á því augnabliki syndandi hamingjusamur. Ég er hinsvegar ekki viss um að hamingja hans sé dýpri eða endingarbetri en hamingja systur minnar þegar hún virðir fyrir sér nýmálaðan vegg. Ég er aftur á móti sannfærð um að ef maðurinn sem klífur Mount Everest kemur niður af fjallinu og segist hafa týnt tilgangi lífins, þá gæti ég ekki hjálpað honum með því að ráðleggja honum að mála vegg, það hefði nefnilega virkað svo vel fyrir systur mína. Mér dytti heldur ekki í hug að segja systur minni að brölta upp á Mount Everest ef hún segði mér að hún hefði misst alla löngun til að mála veggi eða hefði greinst með ofnæmi fyrir geitum.

Mitt líf hefur aldrei verið sérlega tilgangsríkt. Það merkir samt alls ekki að það hafi verið mikil eymd og volæði, Það er alveg fullt af hlutum sem ég hef tímabundna ánægju af og oftar en ekki mjög mikla. Ég átti lengi mitt eigið Mount Evererst. Ég hafði að vísu aldrei klifrað upp á það og var stundum niðurdregin vegna þess hve lengi það dróst en vissan um að ég myndi gera það einhverntíma vóg á móti. Ég veit ekki hvort það var beinlínis hamingja en það var allavega hugmynd um tilgang.

Svo kom að því að ég gerði það. Þ.e.a.s. ég reyndi. Þegar ég var komin í fyrstu búðir áttaði ég mig á því að ég myndi aldrei komast alla leið, sama hversu mikið ég leggði á mig. Það var engin uppgjöf eða svartsýni, bara staðreynd, það komast ekki allir þangað upp.

Sælir eru fávitar, sagði kallinn á fjallinu og ég sem er dálítið fyrir það að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru, komst að þeirri niðustöðu að ég hefði aldrei átt að leggja í þessa ferð. Að líklega væru það stærstu mistök mín í lífinu til þessa. Blekkingin, hugmyndin um að komast alla leið hefði nefnilega verið betri en vissan um að ég gæti það ekki. Því jafnvel þótt það hafi engan tilgang í kosmísku samhengi að brölta upp á Mount Everest, hefur hugmyndin um að ég gæti það virst tilgangsrík.

Ég kemst ekki upp á fjallið, segi ég en það er allt í lagi því heimurinn er yfirfullur af tilgangi og góðum ráðum.
-Prófaðu bara aftur.
-Finndu auðveldari leið upp fjallið.
-Finndu þér lægra fjall.
-Láttu talíbana sprengja fjallið svo það hætti að vera of hátt fyrir þig.
-Málaðu veggi.
-Spilaðu tetris.
-Og hvað viltu þá gera? Hvort ertu kind eða geit?

Þar sem ég a heima eru engin fjöll, ekki einu sinni ósköp lág fjöll. Ég fer á fætur og spila bubbles. (Af því að tetris er svo rosalega ferkantaður leikur, sjáðu til.) Ég myndi auðvitað ekki gera það ef ég hefði ekki meiri ánægju af því en að góna út í loftið. Ég myndi líka alveg mála vegg þótt ég hafi enga ánægju af því, bara af sömu ástæðu og maður burstar tennurnar og skeinir sig, maður getur ekkert krafist þess að fá kikk út úr öllu sem maður gerir.

Kannski getur maður ekki vænst þess að fá kikk út úr neinu af því sem maður gerir og þegar allt kemur til alls er fólk að mestu leyti kindur. Ef ekki sauðir þá fórnarlömb. Jafnvel forystufé er þrátt fyrir ofvaxið sjálfsálit sitt bara jarmandi rollur í jarmandi hjörð, sem þvælast kannski upp á einhver fjöll, aðallega af því að þar er eitthvað að éta en tilgangurinn er óttalega fjallræður.

Ég hef talið sjálfa mig dálítið skyldari geitum en sauðfé. En þegar ekkert fjall er í sjónmáli skiptir það kannski ekki máli og þótt hér væri allt fullt af þægilegum fjöllum, þá finn ég ekki fyrir neinni löngun til að klífa þau.

 

Share to Facebook

1 thought on “Sælir eru fávitar

 1. ——————————————–

  Ég held að það sé ennþá full þörf fyrir leiðsögumenn upp á Mount Everest.

  Jafnvel þó þeir fari bara með mann að fyrstu búðum.

  Aftur spurning hvort þú finnur tilgang í því að vera leiðsögumaður?

  Posted by: Nonni | 14.05.2010 | 15:20:19

  ——————————————–

  Det er den rene gedemarked. Held og lykke i Danmark, en eg er farin aftur heim:)

  Posted by: GVV | 14.05.2010 | 16:28:59

  ——————————————–

  Varðandi blábyrjunina, komumst við maðurinn minn einhvern tímann að því að eina ástæðan fyrir að maðurinn færi framúr rúminu, væri pissuþörfin. Maður bara getur ekki legið í hlandinu af sér, en maður getur sko alveg legið og legið svangur og ekki nennt framúr.
  Annars held ég að þú sért að flækja eitthvað ofureinfalt mál, og að þú vitir það sossum alveg. Og það er líka bara allt í fína með að flækja stundum hlutina aðeins í kringum sig. Getur oft hjálpað manni að koma svo betra skikki á en fyrir var. Og kindur eru nú ansi klárar í klifri þó geiturnar virðist fimari í því. En þú ert samt líklega frekar geit, sem er gott. Ég hef ákveðnar hugmyndir um hvaða Everest þú ert að tala um, en þori ekki alveg að spyrja alveg strax. Kannski aðeins seinna:)

  Posted by: Kristín í París | 14.05.2010 | 20:26:26

   

Lokað er á athugasemdir.