Stafrófsþulan

bryggjaÞessa stafrófsþulu kenndi amma Sigga mér þegar ég var lítil og væntanlega hafa systkinin í Steinholti kunnað hana. Ég hafði gleymt tveimur hendingum úr henni en með hjálp fésbókar tókst að rifja þær upp. 

A á hann Ari og aflinn sem hann fær,
B á hann Bjarni og báturinn sem hann rær.

D á hann Dabbi sem dregur bát á land,
E á hún Ella sem situr niður við sand.

F á hann fiskur sem fólkið ber í hlað,
G á hann Glói sem geltir þeim að.

H á hann hnífur sem haus af fiskum sker,
I á hún Imba sem ílátið ber.

J á hann Jónas sem éta vildi fisk,
K á hún Kata sem kom og sótti disk.

L á hún lifur sem látin var í haus,
M á hún mamma sem matreiða kaus.

N á hann Nói sem náði roðinu af,
O á hún Oddný sem eldiviðinn gaf.

P á hann pottur sem yfir eldi stóð,
R á hún Rúna sem reri og blés í glóð.

S á hún suða sem sýður vora reið,
T á hún tík sem með tilhlökkun beið.

U á hún Una sem færði upp fiskstykkin,
V á hún Vala sem vappaði með þau inn.

Ý á hún ýsa, nú etum við með lyst,
Þ á hann þorskur-með þökk eru hjónin kysst.

Æ á hann Ægir sem elur fiskasveit,
Ö á hann öngull sem ýsa og þorskur beit.

C-Q-X-Ð-Z þau flýðu og földu sig.
Þau eru líka ennþá of erfið fyrir mig.

Ég er reyndar nokkuð viss um að í ömmu útgáfu var það Daði sem dregur fisk á land en hvor útgáfan er eldri er erfitt að segja til um. Mig minnir líka að amma hafi haft það F á hann Fúsi sem fiska ber í hlað, en þá hlýtur Glói að hafa gelt að fiskunum og kannski líklegra að hann hafi gelt að fólkinu.

Deila

Share to Facebook