Sagan af Fótbít

13480331_10208663031188687_1763436799_n

Öxney
Þekktustu persónur Laxdælasögu eru Guðrún Ósvífursdóttir og elskhugar hennar Kjartan Ólafsson og Bolli Þorleiksson fóstbróðir hans sem síðar varð honum að bana með sverðinu Fótbít. Laxdæla segir einnig frá því hvernig Bolli komst yfir Fótbít.

Forsaga þess er sú að faðir Kjartans, Ólafur Höskuldsson, sigldi frá Noregi til Íslands og auðugur maður að nafni Geirmundur gnýr fékk far með honum. Geirmundur átti sverðið Fótbít sem var mikill dýrgripur og hann skildi aldrei við sig enda hafa nú sennilega flest sverð bara verið ryðgaðar járnstengur og líklega hafa þeir víkingar oftar barið hver annan í hel en að höggva andstæðinginn í herðar niður eða sundur um miðju. Geirmundur var hinsvegar illa þokkaður og Ólafur var hreint ekki hrifinn þegar hann bað Þuríðar dóttur hans og sagði þvert nei. Móðir hennar, Þorgerður, var hinsvegar dálítið skotin í auðæfum Geirmundar og talaði Ólaf inn á að leyfa ráðahaginn.

Þau giftast, búa í Dölunum og eignast litla dóttur en eftir þriggja ára hjónaband ákveður Geirmundur að stinga af til Noregs og neitar að skilja eftir lífeyri fyrir Þuríði og barnið. Hann leggur frá landi og gistir fyrstu nóttina í Öxney.

Þuríður ákvað hinsvegar að láta þetta ekki yfir sig ganga. Hún elti hann til Öxneyjar og kom þar, ásamt húskörlum sínum, að nóttu og fann þar Geirmund sofandi í tjaldi sínu með Fótbít hjá sér. Hún tók sverðið, skildi barnið eftir og skipaði húskörlum sínum að bora göt á skip Geirmundar.

Geirmundur vaknaði skömmu síðar við barnsgrát. Hann hljóp niður til strandar með barnið en Þuríður var þá lögð frá landi. Hann reyndi að semja við hana um að skipta á barninu og sverðinu og sagðist borga með barninu það sem hún setti upp en hún setti bara nefið upp í loftið. Hún hefur frekar viljað niðurlægja Geirmund gný með því að taka af honum sverðið – karlmennskutáknið sjálft – og láta hann annast barn sem annars var kvennastarf, en að tryggja sér auðæfi.

downloadÞar sem skip Geirmundar var nú hriplekt heppnaðist eftirför ekki og Geirmundur sat uppi með barnið. Hann lagði það hinsvegar á Fótbít að hann skyldi verða þeim manni að bana sem mestur missir yrði fyrir ætt Þuríðar. Í Íslendingasögum rætast slík áhrínisorð alltaf en sögupersónur taka hinsvegar aldrei mark á þeim. Það gerði Þuríður heldur ekki. Hún gaf Bolla frænda sínum Fótbít og með honum vóg Bolli Kjartan bróður hennar.

13492790_10208663026708575_55508325_n

Það er aðdjúpt við eyjarnar og báturinn fer svo nálægt þeim að það liggur við að maður geti rétt út höndina og klappað sjófuglunum.

13492762_10208663028908630_1896575849_n

Borghildur farin úr peysunni og ég úr úlpunni og sokkabuxunum

 

 

Deila

Share to Facebook