Vanhugsuð málsókn gegn Kjararáði

Það er ekki eins og hækkanir fyrir þá sem þurfa þær ekki sé eitthvað nýtt

Nú er boðað til mótmæla gegn ákvörðun sem Kjararáð tók í samræmi við lög og pólitíska stefnu þeirra stjórnmálaafla sem meirihlutinn hefur fengið völd til að halda áfram að reka stefnu sem miðar að æ meiri misskiptingu auðs. Þvílík kómitragedía.

Fólk virðist ekki átta sig á samhenginu: Stéttaskiptingin er ekki Kjararáði að kenna heldur þeim stjórnmálaöflum sem lengst af hafa haft völd. Þar með er ég ekki að segja að þeir sem sitja í Kjararáði séu sérstakir sómamenn, en hættum að einblína á þessa birtingarmynd misskiptingarinnar, rótin er ekki þar.

Nú hefur Jón Þór hótað að draga Kjararáð fyrir dóm. Gott og vel, það er hugsanlegt að  Kjararáð hafi brotið gegn almenningi í landinu og þá bara gott að fá það á hreint. En þetta er ekkert einfalt. Setjum sem svo að komi í ljós að þessi hækkun hafi verið ólögmæt – hvað ætla menn þá að gera í þessu með sambærilega launahækkun sem dómarar fengu fyrir 3 gullfiskaferðum um fiskabúrið? Taka hana af þeim líka? Láta þá endurgreiða það sem þeir hafa fengið? Sorrý Jón Þór en þetta er bara ekki að fara að ganga upp.

Eitt þessu tengt sem mig langar að nefna: Þegar rætt er um laun Alþingismanna heyrist gjarnan „auðvitað eiga þingmenn að vera á góðum launum – en …“ Get ég fengið skýringu á því hvað er svona auðvitað við það að þingmenn eigi að vera á góðum launum? Af hverju er það sjálfsagðara en að t.d. starfsfólk sjúkrahúsa og þeir sem vinna við matvælaframleiðslu séu á góðum launum?

 

 

Deildu færslunni

Share to Facebook