Þú átt það skilið

Hvenær á maður eitthvað eitthvað skilið? Ég ólst upp við þá túlkun á orðasambandinu að það merkti það sama og að verðskulda eitthvað. Maður á eitthvað skilið af því að maður hefur á einhvern hátt unnið til þess.

Mér finnst mjög algengt að í dag sé þetta notað í sömu merkingu og að eiga rétt á einhverju. Maður getur hinsvegar vel átt rétt á einhverju án þess að verðskulda það. Fjöldamorðingi á t.d. rétt á mannúðlegri meðferð, sama hversu hrottalega hann hefur hegðað sér og ég á rétt á þjónustu þegar ég kem inn á veitingastað, þótt ég hafi ekki gert neitt annað en að koma þangað inn.

Hefur notkunin á orðunum ‘að eiga það skilið’ breyst eða er það bara mín fjölskylda sem leggur þennan skilning í málið?

Deildu færslunni

Share to Facebook

1 thought on “Þú átt það skilið

 1. —————–
  Já, eða þú átt skilið að fá þvaglegg ef þú varst grunuð um ölvunarakstur í Árnessýslu eða þú átt skilið að vera pynduð ef þú varst í Afganistan.

  Posted by: Elías Halldór | 8.01.2008 | 18:47:06

  ————————————–

  Ég nota þau eins og þú, svo ætli merkingin sé ekki að breytast.

  Posted by: Þorkell | 9.01.2008 | 4:37:51

  ————————————–

  Já, ég hugsaði einmitt strax um það sem Elías bendir á.

  Mér finnst annars í fúlustu alvöru freistandi að tengja þessa merkingarbreytingu við „Því þú átt það skilið“ þýðinguna á „Je le veux bien/Because I’m worth it“ herferð Loreal um síðustu aldamót. (Þýðingin er nb ekkert sérstaklega góð því að á enskunni og frönskunni er auðvitað verið að telja manni trú um að maður sé í háum gæðaflokki og eigi því að nota vörur úr háum gæðaflokki, sem er væntanlega eitthvað sem er eðlislægt frekar en eitthvað sem maður vinnur sér inn.)

  Posted by: Unnur María | 9.01.2008 | 10:52:41

  ————————————–

  Því þú ert þess virði, væri heppilegri þýðing.

  Posted by: Eva | 9.01.2008 | 14:44:39

  ————————————–

  Það væri mun betri þýðing já. Kannski væri hægt að útúrsnúast með þetta í þá átt að púrítanískt þjóðkirkjuuppeldi hafi haft þau áhrif að Íslendingum þurfi þeir alltaf þurfa að vinna sér inn fyrir öllu þar sem sælan sé aldrei garanteruð og geti ekki einfaldlega bara verið einhvers virði?

  Svo hjakkaðist einhver sælgætisframleiðandinn á því í kjölfarið á Loréal herferðinni að við ættum Rísið alltaf skilið.

  Posted by: Unnur María | 9.01.2008 | 15:02:53

  ————————————–

  Á frönsku er það Je le vaux bien.
  Þetta er sögnin valoir, vera virði, ekki vouloir, vilja. Ég er nokkuð viss um að Unnur vissi þetta, en betra að hafa þetta rétt ritað.

  Posted by: Kristín | 9.01.2008 | 17:13:47

  ————————————–

  Hmm… þetta er reyndar soldið kómísk misritun hjá mér. 🙂 Takk Kristín!

  Posted by: Unnur María | 9.01.2008 | 18:23:27

  ————————————–

  Du rien ma belle.

  Posted by: Kristín | 10.01.2008 | 19:53:04

Lokað er á athugasemdir.