Ekki stela kardó, steldu frekar 100 milljónum

Það er ekki fallega gert að stela beikoni og kökudropum frá varnarlausu fyrirtæki en hvaða gagn skyldi það nú eiga að gera að dæma manninn í skilorðsbundið fangelsi? Telja menn að það sé góð leið til að kenna honum að hætta að stela kökudropum?

Það er ömurlegt kerfi sem refsar útigangsmönnum og alkóhólistum fyrir sjúkleika sinn. Sama ömurlega kerfið og það sem sendir róna út á götuna með hótun um fangelsi ef hann finni sér ekki löglega leið til að verða sér úti um áfengi, býður ekki upp á neina leið til að taka á fólki sem dæmir sjálfu sér tvöfaldar mánaðartekjur öryrkja á dag (miðað við að það vinni alla daga.)  Ekki einu sinni skilorð.

Mig langar ofboðslega mikið að vita hversu langt svona skítapakk getur leyft sér að ganga. Ef fólk má taka sér 270 þúsund í daglaun af hverju þá ekki alveg eins 300 þúsund eða tvær milljónir? Er nokkuð í lögum sem takmarkar rétt sjálftökufólks? Og ef svo er ekki, á virkilega ekkert að breyta því?

Hvað gerir Ögmundur?

Þá er undirskriftasöfnuninni vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins lokið.

1190 undirskriftir söfnuðust og hafa nú verið sendar til Ögmundar. Ég bjóst við meiri þátttöku. Hélt einhvernveginn að flestum þætti skipta máli að búa við réttarkerfi sem viðurkennir mistök sín. Réttarkerfi sem viðurkennir ekki pyndingar sem rannsóknaraðferð og dæmir ekki menn án sönnunargagna.

En líklega er flestum sama. Kannski ekkert undarlegt. Þegar fólk býr hvorki við hvatningu né tækifæri til að hafa áhrif á umhverfi sitt og samfélag þá er ekki von að það taki ábyrgð heldur.

Ég hugsa að Ögmundur skipi rannsóknarnefnd. Hann getur ekki verið þekktur fyrir að gera ekkert og rannsóknarnefnd er voða dipló.

Mat dómstóla á alvarleika afbrota

Skilorð fyrir að brjóta nefið á manneskju. Óskilorðsbundinn fangelsisdómur fyrir að tefja flug í nokkrar mínútur. Heldur fólk í alvöru að megintilgangurinn með lagasetningu sé sá að vernda almenna borgara?

Posted by Eva Hauksdottir on 26. febrúar 2010