Er 6 vikna nálgunarbann nóg?

https://pixabay.com/p-1816400/?no_redirectHæstiréttur hefur staðfest 6 vikna nálgunarbann yfir móður sem beitti dóttur sína ítrekuðu ofbeldi.

Það er út af fyrir sig ánægjulegt að sjá nálgunarbanni beitt, það virðist mikil tregða til þess í kerfinu. En hvaða gagn á 6 vikna nálgunarbann að gera? Gefa fórnarlambinu smá hlé frá ofsóknum? Tilgangurinn með nálgunarbanni er bæði sá að tryggja öryggi brotaþola og að forða honum frá þeim sálarkvölum sem fylgja því að vera lagður í einelti. Það má reikna með að það taki flesta lengri tíma en 6 vikur að jafna sig af slíkri reynslu.

Nálgunarbann er ekki mjög íþyngjandi. Getur helst haft áhrif þegar hrellir og brotaþoli tilheyra mjög litlu samfélagi eða ef bannið hefur þau áhrif að gerandinn ætti í vandræðum með að stunda vinnu eða sækja almenna þjónustu.

Auðvitað ætti nálgunarbann að gilda að lágmarki í 6 mánuði og reyndar finnst mér að hrellirinn ætti að þurfa að sækja sérstaklega um niðurfellingu nálgunarbanns eða tilslakanir. Ef nálgunarbann er í alvöru íþyngjandi mætti þá beita vægara afbrigði af því, t.d. þannig að hrellirinn mætti ekki setja sig í samband við brotaþola að fyrra bragði og ekki gefa sig að honum þótt hann sé staddur á sama stað. Gerandinn þyrfti þannig ekki að láta sig hverfa þótt brotaþoli mætti á sömu leiksýningu og hann og hann gæti a.m.k. mætt í jarðarfarir í fjölskyldunni með því skilyrði að hann/hún láti brotaþola algerlega í friði.

Ég skrifaði um nálgunarbann hér

Ljósmynd: Pixabay

Bókstaflega neglt

Mikil blessun er að vita að börn flokksmanna vg skuli njóta svo sérstakrar verndar forsjónarinnar að þau geti bara ekki orðið fyrir kynferðisofbeldi. Spurning hvort ákveðinn lögmaður ætti ekki bara að bjóða upp á námskeið í rökfræði.

Ég velti því annars fyrir mér hverskonar andskotagangur þurfi eiginlega að fara fram til þess að tíðatappi festist. Gengur allavega langt út fyrir mínar hugmyndir um harkalegar samfarir. Vissi ekki að menn legðu svo bókstaflegan skilning í sögnina „að hamra“ en það eru greinilega til menn sem láta smá fyrirstöðu ekkert hindra sig í því að bæta sambandið við unnustuna.

Mínir menn hafa nú yfirleitt bara fært mér blóm ef þeir hafa séð meiri ástæðu til að bæta sambandið en slíta því. Ekki svo að skilja að það hafi virkað en einhvernveginn tengi ég þá aðferð frekar við mannasiði.

Bera foreldrar enga ábyrð?

Foreldrar senda börn sín í skólann, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, þótt þeir viti að þau séu lögð í einelti. Foreldrar horfa upp á maka sinn beita börnin ofbeldi, hvað eftir annað, jafnvel árum saman og gera ekkert í því. Foreldrar horfa upp sín eigin afkvæmi nídd og kvalin af öðru fullorðnu fólki og láta það viðgangast, jafnvel í aðstæðum þar sem barnið á sér engrar undankomu von, sbr. fréttina sem ég tengdi á.

Faðir drengs­ins var skip­verji á skip­inu og varð hann vitni að sumu því sem gert var við son hans. Haft er eft­ir hon­um í dómn­um, að hon­um hefði fund­ist hann hafa brugðist drengn­um með því að grípa ekki fyrr inn í en raun bar vitni. Hefði hann verið á sjó í 25 ár og aldrei upp­lifað hegðun eins og hafi tíðkast um borð í þessu skipi.

Og svo verður fólk hissa þegar maður segir að samfélagið einkennist af barnfyrirlitningu.

Mat dómstóla á alvarleika afbrota

Skilorð fyrir að brjóta nefið á manneskju. Óskilorðsbundinn fangelsisdómur fyrir að tefja flug í nokkrar mínútur. Heldur fólk í alvöru að megintilgangurinn með lagasetningu sé sá að vernda almenna borgara?

Posted by Eva Hauksdottir on 26. febrúar 2010