Þú átt það skilið

Hvenær á maður eitthvað eitthvað skilið? Ég ólst upp við þá túlkun á orðasambandinu að það merkti það sama og að verðskulda eitthvað. Maður á eitthvað skilið af því að maður hefur á einhvern hátt unnið til þess.

Mér finnst mjög algengt að í dag sé þetta notað í sömu merkingu og að eiga rétt á einhverju. Maður getur hinsvegar vel átt rétt á einhverju án þess að verðskulda það. Fjöldamorðingi á t.d. rétt á mannúðlegri meðferð, sama hversu hrottalega hann hefur hegðað sér og ég á rétt á þjónustu þegar ég kem inn á veitingastað, þótt ég hafi ekki gert neitt annað en að koma þangað inn.

Hefur notkunin á orðunum ‘að eiga það skilið’ breyst eða er það bara mín fjölskylda sem leggur þennan skilning í málið?

Gæsaveislur og busavígslur

Orðskrípið „gæsun“ hefur valdið mér töluverðu hugarangri í mörg ár.  „Steggjun“ er ekki skárra. Hver er eiginlega hugsunin á bak við orðalagið að „gæsa“ konuna og „steggja“ karlinn? Ekki sú að halda veislu heldur að breyta hjónaleysunum í gæs og stegg? Hvernig beygist annars sögnin að gæsa? Gæsa, gæsaði, gæsað? Eða gæsa, gæsti, gæst? Síðari kosturinn er skömminni skárri.

Sömuleiðis hefur menningarfyrirbærið busavígsla víst breyst í „busun“ og nýnemar eru nú „busaðir“ við upphaf framhaldsskólagöngu sinnar.

Má af þessu ráða að eftir nokkur ár verði hjónavígsla „hjónun“ og nýgæst konan og nýsteggjaður karlinn verði ekki gefin saman heldur „hjónuð“. Prestsefnið verður „prestað“ og prestsvígslan sjálf kallast þar með „prestun“. Útskriftarathöfn stúdenta verður „stúdun“ en þar verða nýútskrifaðir námsmenn stúderaðir.

Sjálf er ég steinhætt að halda jól. Ég „jóla“ í stað þess að halda jólaboð og framkvæmi „jólun“ á híbýlum mínum í stað þess að skreyta húsið. „Afjólun“ fer svo fram 7. janúar ár hvert.

 

 

Ástríður

Ástríður er gott og gilt kvennafn, sett saman úr ást og -ríður (þessi Ríður er fremur fjöllynd) með áherslu á ást. Ást-ríður. Ástríður stírða aftur á móti á mannssálina og þær þurfa ekkert endilega að tengjast ást. Þessvegna er áherslan á á-ið. Semsagt á-stríður. Mikið vildi ég að auglýsingastofur og fjölmiðlar gerðu þá kröfu til starfsmanna sinna að þeir tileinki sér þokkalegt málfar, m.a. framburðarmun á Ástríði og ástríðum.

 

Heildræn hryggsúla

hryggsúla

Hvaða fáráður innleiddi orðs-krípið „heildrænt“ í íslensku? Færið mér hann og ég mun bíta af honum hausinn.

-Einhverju sinni sinni auglýsti bílaþvottastöð „heildræn bílaþrif“.
-Einu sinni sá ég auglýst einhverskonar jóganámskeið sem átti að fela í sér „heildrænar lausnir í bakverkjum“. Ekki einu sinni við bakverkjum heldur í þeim.

Heildræn hryggsúla held ég þó að slái öllu út.

 

 

Að gæsast

gæsÉg get ekki gert upp við mig hvort mér finnst hroðalegra, nafnorðið „gæsun“ eða sögnin „að gæsa“. Það liggur í orðanna hljóðan að með slíkum athöfnum sé verið að gera einhverja að gæs – ekki beint viðeigandi rétt fyrir brúðkaup. Fyrir utan að „gæsaðar“ konur eru iðulega gagnkynhneigaðar og færi því betur á að karlmenn tækju að sér að „gæsa“ þær.

Orðskrípin „steggjun“ og „að steggja“ snerta svosem ekki hjartans hörpustrengi heldur en þó finnst mér einhvernveginn skárra að kalla karlmann stegg en konu gæs. Mín kynslóð ólst upp við þá hugmynd að það væri fremur jákvætt að vera steggur. Orðið gæs var hinsvegar notað um stúlkur sem voru lítt vandar að virðingu sinni í vali á bólfélögum og átti það jafnt við um fjölda og mannvirðingu þeirra sem þær hleyptu uppí til sín.

Merking orða breytist í tímans rás og kannski gæti ég vanist því að kalla konur sem ég kann vel við gæsir. Ég mun hinsvegar aldrei fella mig við „að gæsa“ konu eða taka þátt í gæsun. Vinkonur mínar verða sjálfar að bera ábyrgð á því ef þær gerast gæsir, eða láta gæsast.

Hvað sem því líður vil ég endilega láta beygja þessa sögn þannig:
gæsa -gæsti -gæst.