Þetta er orðið gott!

Þetta er komið gott!

Ég heyri þennan samslátt nokkuð oft og er hreint ekki hrifin. Hér er tveimur orðatiltækjum slegið saman án þess að það þjóni neinum tilgangi. Það er ekkert erfiðara að segja nú er komið nóg eða þetta er orðið gott og það fæst enginn merkingarauki út úr því að blanda þessu saman. Það er ekki einu sinni fyndið.

[custom-related-posts title=“Fleiri dæmi um samslátt“ order_by=“title“ order=“ASC“ none_text=“None found“]

Uppskrúfað fjölmenni

Það er engu líkara en að fjölmenni sé í tísku. Konur eru fjölmennari en karlar, börn fjölmennari en fullorðnir o.s.frv.

Ég hélt reyndar að orðið fjölmenni ætti við um hópa. Einn hópur getur verið fjölmennari en annar. Það merkir að í honum er fleira fólk. Það er ekki fleira fólk í konum en körlum. Konur eru einfaldlega fleiri. Þetta eilífa fjölmenni á kannski að hljóma gáfulega. Gefa til kynna að mælandinn hafi góðan orðaforða og sé vanur því að tala á fundum eða koma fram í fjölmiðlum.  Lúðar.

Skotsilfur

Var að fá reikning frá kortafyrirtækinu og sé að ég hef tekið út skotsilfur í síðasta mánuði. Í alvöru, þetta stendur á reikningum; skotsilfur. Sé fyrir mér miðaldariddara með silfurpeninga í leðurpyngju. Finnst einhverveginn að fimmþúsundkall afgreiddur úr hraðbanka hljóti að heita reiðufé en ekki skotsilfur.

Annars er orðið skotsilfur ekki að finna í Orðsifjabókinni. Skot eitt og sér getur merkt fjárframlag svo líklega er tengingin þaðan. Nema skotsilfur eigi eitthvað skylt við skotaskuld. Ellegar andskota. Það er náttúrulega alltaf doldið unskot að þurfa að borga reikningana sína.

—-

Þegar ég fann þessa stuttu færslu frá árinu 2005 hugsaði ég fyrst að kortafyrirtækin hlytu að hafa uppfært orðaforðann sinn síðan. En skotsilfrið virðist enn í fullu gildi.

Í erlendum löndum

Ósköp leiðist mér að heyra fólk tala um (eða sjá skrifað) það sem gerist „í erlendum löndum“. Ýmislegt gerist bæði vont og gott, erlendis, í útlöndum eða í öðrum löndum. Finnist mönnum þetta ekki nógu fjölbreytilegt val má segja utan lands, í fjarskanum eða úti í hinum stóra heimi. Í alvöru, það hlýtur að vera mögulegt að orða þetta á skammlausri íslensku.

Viðeigandi

Merkir ekki sögnin að náða það sama og að fella niður refsingu eða milda hana? Dálítið seint í rassinn gripið verð ég að segja. Væri ekki nær að gefa þessu fólki uppreisn æru? Kirkjan gæti svo játað sekt sína fyrir þessar hroðalegu mannfórnir og gert yfirbót með því að gefa allar eigur sínar til samtaka sem berjast gegn valdi trúfélaga.