Umræðan um Gillz

Umræðan um Gillz er komin út í meiri steypu en ég hefði getað ímyndað mér. Þessi gaur er ekki pólitískur frekar en ég fitness frík. Hann kallaði alla sem fóru í taugarnar á honum rasshausa, það hafði ekkert með póitík eða mótmæli að gera. Allir sem hafa lesið innganginn að þessum alræmda subbupistli hans sjá að þetta var skelfilega lélegt grín en ekki hótanir. Nú er allt í einu búið að spyrða hann við mótmæli, ýmist sem hvatamann þeirra eða andstæðing. Þetta er eiginlega of fráleitt til þess að maður trúi því að fólk sem vill láta líta á sig sem marktækt láti svona steypu frá sér.

Stórfurðuleg samsæriskenning

Það er tvennt sem ég skil ekki í þessari umræðu. Í fyrsta lagi, hvað er óeðlilegt eða rangt við það að hata þessa fígúru? Í öðru lagi, finnst einhverjum í alvöru trúlegt að feministar (sem flestir eiga það sammerkt að hafa ekki aðeins skiljanlega óbeit á kynferðisofbeldi, heldur að sjá merki þess í ólíklegustu hlutum) myndu senda barnungar dætur sínar heim með manni sem hefur talað um konur, kynlíf og nauðganir á þann hátt sem Giljagaurinn gerir?

Þessu tengt:
Ég kæri mig ekki um að skrá mig á „nauðgunarpressuna“ þar sem ég sé ekki að Pressan hafi hvatt til nauðgana. Hún gekk hinsvegar langt yfir strikið í ósmekklegheitum og friðhelgisrofi og því rökrétt að láta hana róa.

Bókstaflega neglt

Mikil blessun er að vita að börn flokksmanna vg skuli njóta svo sérstakrar verndar forsjónarinnar að þau geti bara ekki orðið fyrir kynferðisofbeldi. Spurning hvort ákveðinn lögmaður ætti ekki bara að bjóða upp á námskeið í rökfræði.

Ég velti því annars fyrir mér hverskonar andskotagangur þurfi eiginlega að fara fram til þess að tíðatappi festist. Gengur allavega langt út fyrir mínar hugmyndir um harkalegar samfarir. Vissi ekki að menn legðu svo bókstaflegan skilning í sögnina „að hamra“ en það eru greinilega til menn sem láta smá fyrirstöðu ekkert hindra sig í því að bæta sambandið við unnustuna.

Mínir menn hafa nú yfirleitt bara fært mér blóm ef þeir hafa séð meiri ástæðu til að bæta sambandið en slíta því. Ekki svo að skilja að það hafi virkað en einhvernveginn tengi ég þá aðferð frekar við mannasiði.