Umræðan um Gillz

Umræðan um Gillz er komin út í meiri steypu en ég hefði getað ímyndað mér. Þessi gaur er ekki pólitískur frekar en ég fitness frík. Hann kallaði alla sem fóru í taugarnar á honum rasshausa, það hafði ekkert með póitík eða mótmæli að gera. Allir sem hafa lesið innganginn að þessum alræmda subbupistli hans sjá að þetta var skelfilega lélegt grín en ekki hótanir. Nú er allt í einu búið að spyrða hann við mótmæli, ýmist sem hvatamann þeirra eða andstæðing. Þetta er eiginlega of fráleitt til þess að maður trúi því að fólk sem vill láta líta á sig sem marktækt láti svona steypu frá sér.

Röksnillingur

Röksnillingur dagsins er Gústaf Níelsson. Hann fullyrðir að meðal múslíma séu opin og frjáls samfélög ekki til. Þegar…

Posted by Eva Hauksdottir on 20. desember 2016

Kærurnar á hendur Útvarpi Sögu

Ætli þeir sem kærðu Sögu-liðið reikni með þeim möguleika að sýknudómar falli? Og ef svo færi, getur verið að sakborningar og aðrir af þeirra sauðahúsi túlki það þannig að þeim sé óhætt að ganga lengra?

Mér finnst gjörsamlega fráleitt að kæra þetta og miðað við dómaframkvæmd Hæstaréttar og MDE er harla ólíklegt að þessi ummæli verði flokkuð sem hatursorðræða. Enda yrði þá illa komið fyrir tjáingarfrelsinu. Mér finnst líklegast að hugmyndin sé bara sú að láta reyna á þetta. Það er ekki hlutverk dómstóla að gefa lögfræðilegt álit án þess að tiltekið mál sé til úrlausnar svo það þarf að draga einhvern fyrir dóm.

Ég tek fram að mér finnst Útvarp Saga fullkomlega viðbjóðsleg útvarpsstöð. Þetta er fyrirtæki sem er augljóslega rekið með því markmiði að vera vettvangur fyrir kynþáttahatur og niðingsskap gagnvart minnihlutahópum. En það réttlætir nú samt ekki að fólk sé dregið fyrr dóm fyrir það eitt að vera fyrirlitlegir asnar.

Vanhugsuð málsókn gegn Kjararáði

Það er ekki eins og hækkanir fyrir þá sem þurfa þær ekki sé eitthvað nýtt

Nú er boðað til mótmæla gegn ákvörðun sem Kjararáð tók í samræmi við lög og pólitíska stefnu þeirra stjórnmálaafla sem meirihlutinn hefur fengið völd til að halda áfram að reka stefnu sem miðar að æ meiri misskiptingu auðs. Þvílík kómitragedía.

Fólk virðist ekki átta sig á samhenginu: Stéttaskiptingin er ekki Kjararáði að kenna heldur þeim stjórnmálaöflum sem lengst af hafa haft völd. Þar með er ég ekki að segja að þeir sem sitja í Kjararáði séu sérstakir sómamenn, en hættum að einblína á þessa birtingarmynd misskiptingarinnar, rótin er ekki þar.

Nú hefur Jón Þór hótað að draga Kjararáð fyrir dóm. Gott og vel, það er hugsanlegt að  Kjararáð hafi brotið gegn almenningi í landinu og þá bara gott að fá það á hreint. En þetta er ekkert einfalt. Setjum sem svo að komi í ljós að þessi hækkun hafi verið ólögmæt – hvað ætla menn þá að gera í þessu með sambærilega launahækkun sem dómarar fengu fyrir 3 gullfiskaferðum um fiskabúrið? Taka hana af þeim líka? Láta þá endurgreiða það sem þeir hafa fengið? Sorrý Jón Þór en þetta er bara ekki að fara að ganga upp.

Eitt þessu tengt sem mig langar að nefna: Þegar rætt er um laun Alþingismanna heyrist gjarnan „auðvitað eiga þingmenn að vera á góðum launum – en …“ Get ég fengið skýringu á því hvað er svona auðvitað við það að þingmenn eigi að vera á góðum launum? Af hverju er það sjálfsagðara en að t.d. starfsfólk sjúkrahúsa og þeir sem vinna við matvælaframleiðslu séu á góðum launum?

 

 

Varðandi borgaralaun og iðjuleysingja

Það er enginn skortur á iðjulausu fólki á fullum launum, það heita bara biðlaun en ekki borgaralaun og eru einungis í boði fyrir fólk sem hefur ekkert með meiri peninga að gera.

Einnig er nokkuð um að fólk sé á fullum launum við störf sem ekkert gagn er að og í sumum tilvikum til óþurftar. Það mætti leggja þau störf niður og jafnvel heilu stofnanirnar.

En sennilega er það ekki aðallega kostnaðurinn sem mönnum svíður, heldur er það hugmyndin um að fátæklingar geti leyft sér að gera áhugamál sín að meginviðfangsefni og kannski atvinnu, sem er svona óbærileg.