Bandarísk stjórnvöld skella skuldinni á þolendur

Segir Palestínu hafna friðarumleitunum

Þessir níðingar hafa hrakið milljónir manns á flótta og haldið öðrum milljónum í heljargreipum í nærfellt 70 ár. Þeir byggja heilu þorpin inni á land Palestínu í trássi við alþjóðalög, hrekja fólk út af heimilum sínum og yfirtaka íbúðarhúsnæði og fyrirtæki. hindra ferðir fólks daglega, hindra aðgang að vatni, lyfjum og öðrum nauðsynjum, reisa kolólöglegan aðskilnaðarmúr, fremja handahófskenndar húsleitir, handtaka fólk að geðþótta hermanna og halda fólki í fangelsi árum saman án þess að upplýsa það um sakarefnið, pynta fanga, halda hlífiskildi yfir landræningjum sem fremja glæpi gagnvart Palestínumönnum, brjóta gagnvart hverju einasta ákvæði mannréttindasáttmála sem þeir hafa sjálfir samþykkt. Saka svo Palestínumenn um skort á sáttavilja þegar þeir kyngja því ekki bara að þeir sölsi alla Jerúsalem undir sig líka. Hvað kallar maður valdhafa sem eru sannfærðir um að þeir hafi umboð frá almættinu til að hegða sér svona? Og hvað kallar maður Bandaríkjamenn sem styðja þá í þessu öllu og taka heilshugar undir þá skoðun að Palestínumenn eigi bara kyngja þessu?

Látinn

Flóttamaðurinn sem kveikti í sér er látinn. Hvað ætli þurfi mörg svona tilvik til þess að ríkisstjórnin (við erum enn með ríkisstjórn) komist að þeirri niðurstöðu að það sé eitthvað athugavert við stefnu hennar í útlendingamálum?

Maður ársins

Hermann Ragnarsson er maður ársins. En það er ekki boðlegt að fyrir hvern flóttamann sem kemur til landins þurfi almennir borgarar að vinna ómælda sjálfboðavinnu til þess að stöðva stjórnvöld í margháttuðum mannréttindabrotum.

Ólöf Nordal telur sig ekki bera neina ábyrgð á þessu en hún ber nú samt pólitíska ábyrgð á þessum málaflokki. Ef hún hefur raunverulega áhuga á að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig, þá hlýtur hún að reka það fólk sem hún álítur að beri ábyrgðina á því að þau voru send burt.

 

Heppnir hælisleitendur

Það svakalegasta við þetta er þó það að þetta fólk getur, þrátt fyrir að hafa lent í þessum hremmingum, kallast heppið. Hversu margir hafa verið fluttir burt í skjóli nætur án þess að nokkur hafi mótmælt? Jafnvel án þess að nokkur hafi vitað af því, nema þeir sem af þrælslegri hlýðni unnu þau myrkraverk í skóli þeirrar réttlætingar að þeir væru „bara að vinna vinnuna sína“.

Borgaralaun

Ég hef haft verulegar efasemdir um borgaralaun en eftir að hafa lesið nokkra kílómetra af álitum Umboðsmanns Alþingis og heyrt nokkrar persónulegar sögur af niðrandi framkomu, persónunjósnum, og öðrum ógeðslegheitum félagsmálabatterísins auk þess að verða vitni að slíku sjálf, er ég komin að þeirri niðurstöðu að með því væri ekki aðeins hægt að spara ómældar upphæðir vegna yfirbyggingar og launakostnaðar hjá félagsþjónustunni, heldur einnig bæta lýðheilsu. Það virðist sáralítill áhugi vera fyrir því innan þessa kerfis að styðja fólk til sjálfshjálpar.