Umræðan um Gillz

Umræðan um Gillz er komin út í meiri steypu en ég hefði getað ímyndað mér. Þessi gaur er ekki pólitískur frekar en ég fitness frík. Hann kallaði alla sem fóru í taugarnar á honum rasshausa, það hafði ekkert með póitík eða mótmæli að gera. Allir sem hafa lesið innganginn að þessum alræmda subbupistli hans sjá að þetta var skelfilega lélegt grín en ekki hótanir. Nú er allt í einu búið að spyrða hann við mótmæli, ýmist sem hvatamann þeirra eða andstæðing. Þetta er eiginlega of fráleitt til þess að maður trúi því að fólk sem vill láta líta á sig sem marktækt láti svona steypu frá sér.

Rányrkja til forna

Ragnar minnist hér m.a. á þá sérstöðu Íslands, að hafa reynt að sporna við ofnýtingu auðlinda, strax á Grágásartímanum.

Þeir sem vilja kynna sér forsögu þess, ættu að lesa hina bráðskemmtilegu bók Bergsveins Birgissonar; Leitin að svarta víkingum. Bergsveinn segir m.a. frá fyrsta eignarnámi Íslandssögunnar og setur fram þá áhugaverðu kenningu að það eignarnám hafi verið viðbrögð við yfirgangi fyrsta kapítalistans á Íslandi sem lagði undir sig ákveðna auðlind og gekk svo hart fram í rányrkjunni að varanlegur skaði hlaust af. Við erum síst komin af norrænum sjóræningjum en mun fremur af útrásarvíkingum, flóttamönnum og þrælum.

Kærurnar á hendur Útvarpi Sögu

Ætli þeir sem kærðu Sögu-liðið reikni með þeim möguleika að sýknudómar falli? Og ef svo færi, getur verið að sakborningar og aðrir af þeirra sauðahúsi túlki það þannig að þeim sé óhætt að ganga lengra?

Mér finnst gjörsamlega fráleitt að kæra þetta og miðað við dómaframkvæmd Hæstaréttar og MDE er harla ólíklegt að þessi ummæli verði flokkuð sem hatursorðræða. Enda yrði þá illa komið fyrir tjáingarfrelsinu. Mér finnst líklegast að hugmyndin sé bara sú að láta reyna á þetta. Það er ekki hlutverk dómstóla að gefa lögfræðilegt álit án þess að tiltekið mál sé til úrlausnar svo það þarf að draga einhvern fyrir dóm.

Ég tek fram að mér finnst Útvarp Saga fullkomlega viðbjóðsleg útvarpsstöð. Þetta er fyrirtæki sem er augljóslega rekið með því markmiði að vera vettvangur fyrir kynþáttahatur og niðingsskap gagnvart minnihlutahópum. En það réttlætir nú samt ekki að fólk sé dregið fyrr dóm fyrir það eitt að vera fyrirlitlegir asnar.

Klámið á RUV

Hvort er verra: Að RÚV bjóði landsmönnum upp á Önnu Töru að klæmast á spítalanærbuxum eða að RÚV sendi út afþreyingarefni yfirhöfuð?

Posted by Eva Hauksdottir on 28. febrúar 2016