Gögn handa hverjum sem vill?

Ef Lögreglustjórafélag Íslands álítur að það sé bara undir hverjum og einum komið hvort og hver fær afhent gögn úr sakamálarannsókn, þá undirstrikar það enn frekar þörfina á ytra eftirliti með þeirri vanhæfu stofnun sem lögreglan er.

Uppfært: Rúv hefur nú breytt fyrirsögninni á þessari frétt. Hún var: Ekki þurft að efast um heilindi starfsmanna en er nú: Samskipti gerð tortryggileg án tilefnis.

Hér er svo önnur frétt. Það er gott að aðrir lögreglustjórar skuli ekki kóa með þessu rugli og að það sé fáheyrt að ráðuneyti fari fram á upplýsingar um lögreglurannsóknir. Enda vandséð að ráðherra þurfi að vera með nefið ofan í sakamálarannsóknum til þess að geta gegnt yfirstjórnarhlutverki sínu.

Leynd

Löggan sagði löggunni ekki frá og löggan spurði ekki lögguna – þrátt fyrir að vita af símtölum og þrátt fyrir að viðbótin við skjalið og ummæli Fréttablaðsins bentu eindregið til þess að upplýsingar úr lögreglurannsókn hefðu farið á flakk. Er nú ekki tímabært að koma á ytra eftirliti með þessari stofnun sem fyrir utan það að gera sig reglulega seka um valdníðslu virðist gjörsamlega vanhæf til þess að sinna rannsóknum?

Ytra eftirlit takk

Það gengur náttúrulega ekki að löggan þurfi að lemja þunglyndið úr fólki. Biðjum Norðmenn um hríðskotabyssur strax svo þeir geti bara skotið þá sem eru með svona vesen.

Nú ætti öllum að vera ljóst að hvorki lögreglunni né innanríkisráðuneytinu er treystandi fyrir trúnaðargögnum. Löggan búin að skjóta geðsjúkan mann til bana og ekki hafa kollegar þeirra á Ísafirði lært meira af því en svo að þeir beita einmitt piparúða og skotvopnum þegar þeir lenda í því að þurfa að kljást við mann með geðkvilla. Hvað ætli þurfi meira til þess að þingmenn átti sig á nauðsyn þess að taka upp ytra eftirlit með lögreglunni? Ekki innra heldur einhverja stofnun eða embætti í stíl við Umboðsmann Alþingis. Einhvern sem getur kallað eftir öllum gögnum um þau mál sem ástæða er til að rannsaka.

Löggan er gegnrotin stofnun og núverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu ráðinn án auglýsingar. Ef hún hefur á annað borð látið þá sem rannsökuðu málið vita af samskiptum þeirra Gísla Freys þá hefur löggan ekki gert meira með það en svo að það kom ekki fram fyrr en eftir að hann játaði.

 

Og nei elskurnar, það er ekki eftirsjá að ráðherra sem
a) skilur ekki alvarleika þess að stjórnsýslustofnanir misnoti persónuupplýsingar og brjóti gegn trúnaðarskyldu,
b) lýgur blákalt að þinginu og fjölmiðlum,
c) skiptir sér af lögreglurannsókn (hvað þá rannsókn á eigin ráðuneyti) og
d) viðurkennir engin mistök nema með almennum yfirlýsingum á borð við þá að allir geri mistök. 
Það er þvert á móti alveg skelfilegt að hafa slíkt fólk í embætti.

Lekamálið Sigríður Björk

Jæja. Hún vissi semsagt að minnisblaðið hafði verið sent á fjölmiðla. Fannst henni ekkert áhugavert að hann væri að biðja um greinargerð um Tony Omos sama dag og fjölmiðlar greina frá upplýsingum sem eiga að hafa komið fram í rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum? Spurði hún virkilega ekki hvaðan blöðin hefðu þær upplýsingar?

Hún sendir Gísla greinargerð, hefur svo fljótlega komist að því, ef hún hefur á annað borð verið stödd á Íslandi og/eða haft aðgang að fjölmiðlum, að rógburði um hælisleitendur hafði verið bætt aftan við skjalið. Datt henni aldrei í hug allan þennan tíma að það væri eitthvert samband á milli fréttanna af minnisblaðinu og þess að Gísli Freyr hefði verið að reyna að ná í hana út af Tony Omos sama morgun?