Borgaralaun

Ég hef haft verulegar efasemdir um borgaralaun en eftir að hafa lesið nokkra kílómetra af álitum Umboðsmanns Alþingis og heyrt nokkrar persónulegar sögur af niðrandi framkomu, persónunjósnum, og öðrum ógeðslegheitum félagsmálabatterísins auk þess að verða vitni að slíku sjálf, er ég komin að þeirri niðurstöðu að með því væri ekki aðeins hægt að spara ómældar upphæðir vegna yfirbyggingar og launakostnaðar hjá félagsþjónustunni, heldur einnig bæta lýðheilsu. Það virðist sáralítill áhugi vera fyrir því innan þessa kerfis að styðja fólk til sjálfshjálpar.

Og þessvegna ætla ég næst að kjósa flokk sem er tilbúinn til að vinna að því að koma á borgaralaunum. Það myndi ekki eyða hlutallslegri fátækt en það myndi draga úr kostnaði við félagslega kerfið því það væri hægt að leggja niður stóran hluta af þjónustumiðstöðvum og reka nokkur hundruð svokallaðra ráðgjafa sem gegna því hlutverki einu að reyna að losna við fólk sem þarfnast fjárhagsaðstoðar. Auk þess gætu þeir fátækustu þá dregið fram lífið án þess að gefa einhverjum félagsráðgjafa aðgang að bankareikningum sínum og sitja undir niðurlægjandi „ráðgjöf“.

Deildu færslunni

Share to Facebook