Rún dagsins er Ás

Æsir eru tákn menningar, hernaðar og visku og Ás er viskurúnin. Hún táknar bæði bókvit og þá visku sem menn öðlast af reynslunni. Í galdri er hún notuð til þess að finna rétt og skynsamleg svör við ráðgátum og góð ráð í hverjum vanda.

Í rúnalestri táknar Ás að fyrirhyggju sé þörf og að spyrjandinn skuli lesa sér til eða leita ráða hjá sér viturra fólki áður en hann tekur ákvörðun. Hugsa málin til enda og skipuleggja verkið áður en hann hefst handa. Einnig getur hún táknað að nú sé rétti tíminn til að hefja nám eða leggja út á nýja braut í menningu og listum.

Rún dagsins er Þurs


Þurs er bölrún, sú öflugasta í rúnarófinu. Þurs er rún óhamdrar náttúru sem ekkert verður við ráðið. Í galdri er hún notuð til að kalla bölvun yfir óvin en þar sem Þurs er vandmeðfarinn getur slíkur fordæðuskapur auðveldlega snúist í höndum manns og því best að láta hann eiga sig.

Í rúnalestri táknar Þurs áfall sem spyrjandinn getur ekki komið í veg fyrir, svosem náttúruhamfarir, efnahagshrun, sjúkdóma og dauða. Það sem hann getur gert er hinsvegar að bregðast við áfallinu, gera ráðstafanir til að draga úr afleiðingunum ef hann sér það fyrir og  muna að það er engin skömm að leita hjálpar. Það gerðu víkingar einmitt þegar þeir ákölluðu guði sína.

Rún dagsins er Úr

Úr eða Úruxi er tákn nautsins sem plægir jörðina. Uxinn fer ekki mjög hratt en hann lætur engar fyrirstöður stöðva sig, Þetta er því rún styrks og þrautseigju. Í galdri er hún notuð til að efla viljastyrk og einbeitingu að einu markmiði.

Í rúnalestri felur Úr í sér ábendingu um að spyrjandinn eigi að halda ótrauður áfram á þeirri braut sem hann er þegar á eða þeirri sem blasir við, láta ekkert trufla sig og stilla sig um að sinna mörgu í einu. Einnig að hann eigi að hafa meiri trú á sjálfum sér því hann býr yfir miklu meiri styrk en hann gerir sér grein fyrir.

Rún dagsins er Fé

Eins og nafnið gefur til kynna er Fé rún búfénaðar sem er forgengileg eign en um leið eign sem getur ávaxtast.  Fé er notuð í galdri til þess að auka möguleika á hagnaði.

Þegar Fé kemur upp í rúnalestri er það ábending um að spyrjandinn eigi kost á að ávaxta fé sitt en rétt eins og bústofninn þarfnast umhirðu til þess að eign bóndans vaxi, er spyrjandanum nauðsyn á að sýna fyrirhyggju og vinna vel og markvisst að því að láta drauma sína rætast. Ef hún kemur upp með Ísrúninni er það vísbending um stöðugleika í fjármálum – til góðs eða ills eftir því hvernig staðan er.

Fúþarkinn sem verndarhringur

Norræna rúnarófið er kallað fuþark, eftir fyrstu 6 rúnunum. Rúnir voru ekki notaðar til þess að skrifa bækur heldur í áletranir, t.d. á bautasteina, rúmbríkur og kistla og ekki síður til galdraiðkunar. Á Íslandi var aðallega notað 16 rúna róf en þessi norræna gerð rúnarófsins er eldri og að mínu mati bæði fallegri og skemmtilegri. Halda áfram að lesa