Kókos

Úganda og Ísland eiga það sameiginlegt að fátt er um verulega huggulega veitingastaði sem sérhæfa sig í hefðbundnum mat innfæddra. (Reyndar lifa Íslendingar ekki lengur á saltkjöti og slátri en Úgandamenn lifa ennþá á matoke.) Við fórum með Árna og Drífu á flottan indverskan stað og þótt sé gaman að bragða afrískan mat verður að segjast eins og er að indversk matarmenning er öllu fjölbreyttari og áhugaverðari því hefðbundin afrísk mátíð samanstendur af fjórum tegundum af sterkju með örmagni af kjöti, fiski, baunum eða grænmeti.

Coconut Shack er allavega staður sem ég get mælt með og þar komst ég að dálitlu (ómerkilegu en áhugaverðu) sem ég hafði ekki vitað áður. Ég hef oft furðað mig á því að kókoshnetur skuli vera flokkaðar sem hnetur. Flestar hnetur eru harður kjarni í mjög harðri skel. Kókoshnetan er hinsvegar ekki með kjarna sem liggur inni í skelinni heldur er æti hlutinn fastur við skelina og vökvi innst. En á Coconut Shack komst ég að því að það sem við köllum kókoshnetu er einmitt kjarni.

Ég bað um vatn og var spurð hvort ég vildi venjulegt flöskuvatn eða kókosvatn borið fram í hnetunni. Það fannst mér auðvitað áhugavert svo ég sló til. Mér var borinn grænn ávöxtur (liturinn á myndinni er villandi, hann er grænni í raun) á stærð við vatnsmelónu. Skorið hafði verið ofan af honum, borað gat í ávöxtinn og röri stungið í hann. Áferðin utan á ávextinum er svipuð melónuberki en ávöxturinn sjálfur er óætur, þurrar trefjar, ljósar eins og epli. Inni í ávextinum er vökvi (þetta kókosvatn sem ég drakk) og á síðari stigum myndast þessi loðni, brúni kjarni með kókosmassanum. Ávöxturinn rotnar svo utan af kjarnanum og hnetan sjálf verður eftir.

Kókosvatnið er eilítið sætt. Ekki eins sætt og í fullþroskaðri kókoshnetu og ekki nógu sætt til að mér þyki það beinlínis bragðgott en það er alls ekki slæmt og mjög svalandi. Eynar er því reyndar ósammála að það sé ekki slæmt, hann smakkaði aðeins á því og hryllti sig.

Strangt til tekið er kókoshnetan svo ekki hneta þrátt fyrir hnetukenndan kjarna, heldur fræ. Ég fann þessa mynd af óþroskaðri kókoshnetu á netinu.

Efsta mynd er héðan

Deila færslunni

Share to Facebook