Hver á hvað?

Í morgun var fundur vegna 5 barna sem hafa dáið í síðustu viku. Það var pínu sjokkerandi og við fengum báðar á tilfinninguna að það hefði verið hægt að bjarga öllum þessum börnum. Ekki bara vegna tækninnar sem við búum yfir heima heldur líka kunnáttunnar, sem virðist vera á öðru stigi hérna. Ég veit að það er mikið af börnum hérna sem lifa fæðinguna af sem eru samt dauðveik. Börn sem væru eytt á fósturstigi heima. Siðferðið í þessu öllu saman er að gera útaf við mig stundum.

Það var rólegt framan af en rétt fyrir kl. 12 voru allir 4 fæðingar bekkirnir uppteknir og ein sem beið fyrir utan og hékk í sturtuhenginu sem aðskilur almennings ganginn frá fæðingarstofunni, þegar henni leið sem verst. Fyrsta konan átti kl. 12, og sú næsta örlítið yfir kl. 12. Ég þurfti ekki að færa mig úr stað þar sem ég stóð. Aðeins að snúa höfðinu um 20°. Sú þriðja fæddi kl. 12:40 og sú sem beið fyrir utan, var nú búin að fá bekk inn á skoðunarstofu og fæddi þar kl. 12:58. Sem sagt 4 fæðingar á klukkutíma.
Við tókum ekki sjálfar á móti í dag og að sumu leyti finnst mér fínt að sjá hvernig þær bera sig að. Bæði ljósurnar, en líka konurnar sjálfar. Það er ekkert um verkjastillingu hérna og ég held að konurnar noti einverskonar íhugun eða eitthvað. Bara eitthvað sem ég held. Maður sér ekki á sumum þeirra að þær séu yfirhöfuð í fæðingu fyrr en síðustu 10 mínúturnar. Ég mundi vilja fá konu í byrjun fæðingar og fylgja henni í gegnum allt ferlið. Svona til að mynda smá tengingu við hana. En ég veit svei mér ekki hvort það er möguleiki.

Ég varð vitni að smá skrítnu samtali milli ljósu og nema. Það leit út fyrir að það væri einhver ruglingur með börnin. Börnin eru jú fjarlægð frá mömmunum, án þess að þær nái að skoða þau almennilega. Börnin eru vigtuð og fá K vítamín og smyrsl í augun (eitthvað sem við erum löngu hætt í DK) og svo er þeim bara raðað á bekk. Eitthvað virtist vera óskýrt hvaða barn tilheyrði hvaða móður enda börnin ekki merkt. Á endanum tók ljósan eitt barnið, og fór með það til einnar mömmunar. Virtist vera dálítið óörugg samt. En hvað veit ég. Ég kann ekki tungumálið þeirra og það getur vel verið að ég hafi misskilið eitthvað. Börnin eru samt ekki merkt, svo ég held að ruglingur sé mögulegur.

Þegar við komum heim nenntum við engu. Notuðum tækifærið fyrst að var vatn og fórum í sturtu og kúkuðum. Héngum svo og lásum og blogguðum þar til kom kvöldmatur.

Það kom hérna maður í gær og fór að spjalla við okkur, það kom í ljós að hann þekkir Uganda ótrúlega vel. Við sýndum honum planið okkar með 2ja vikna ferðinni sem við ætlum í þegar Eiki, pabbi og Bogga koma og hann virtist þekkja næstum hvern einasta stað. Hann sagði okkur frá ýmsu merkilegu og fyrir vikið erum við nú miklu spenntari en nokkru sinni fyrr. Já það var greinilega hægt.

Deila færslunni

Share to Google Plus