Fæðingakúltúr

Í dag tókum við í sameiningu á móti okkar fyrsta barni. Kaja leysti barnið, meðan ég studdi mömmuna og reyndi eftir bestu getu að leiðbeina henni. Vigtaði svo og gekk frá naflastrengnim. Hér eru ekki notaðar klemmur eða teygjur. Bara bómullargarn. Börnin eru vigtuð en ekki mæld lengd eða önnur mál tekin. Þau eru heldur ekki skoðuð, en við Kaja gerðum okkar besta og þessi litla stúlka er sennilega bara gjörsamlega eins og hún á að vera. Algjörlega gordjöss. Mamman er bara 17 og þetta er fyrsta barnið hennar. Við gáfum henni gjöf áður en hún fór frá okkur og hún varð himinlifandi.

Svo skrítið hvað kúltúrinn hérna er allt öðruvísi en heima. Hérna er hlegið pínu að konum sem eru hræddar og halda að þær séu að deyja. Ekkert í kvikindiskap samt. Held þeir líti bara allt öðruvís á hlutina en við gerum. Ég er búin að fara marga hringi í hausnum á mér varðandi kúltúr og hvort það geti virkilega verið að mæður í kúltúr eins og þessum, þar sem er mikil fátækt og ungbarnadauði afar algengur, séu betur undir það búnar að missa frá sér barn og hvort þær hafi minni þörf fyrir stuðning en okkar konur. Eða sætta þær sig bara við þetta því að þetta er lífið fyrir þeim?


Einn hlutinn af verkefninu sem ég á að skila eftir þessa dvöl, snýst einmitt um annan fæðingakúltúr og ég er að hugsa um að fá að leggja nokkrar spurningar fyrir bæði mæður og ljósur, og jafnvel feður líka. Ekki bara í sambandi við ungbarnadauða heldur líka um hvað þeim finnist um stuðning sem þær fá frá ljósunum, hvort þær hefðu viljað hafa eitthvað öðruvísi og svo framvegis. Gæti trúað að svörin kæmu á óvart.

Annars var dagurinn rólegur. Fórum stofugang með læknunum og það er alveg hreint furðulegt að konunum sé ekki heilsað og spurt um líðan. Tókum eftir svaka breytingu hjá ljósunum þegar þær opnuðu einkastofu hjá einni og töluðu hver upp í aðra, skríktu og hlógu og dáðust að barninu. Það skýrðist samt þegar þær komu út úr stofunni aftur. Þetta var nefnilega samstarfsfélagi.

Á morgun fara tveir af Ítölunum heim. Þess vegna var fyrst borðaður kvöldmatur klukkan rúmlega 21 og ítalskur prestur og læknir komu við, plús að það bættust við maður og kona og tvö börn sem búa í öðrum húsum en borða hérna. Þau verða bara í viku.

Það er svo ofboðslega þæginlegur hiti hérna og sólin er dásamlega hlý. Stundum er of heitt að sitja úti, en smá blær ef við löbbum aðeins útfyrir. Þó að við svitnum eins og grísir hérna á venjulegum degi, er það samt öðruvísi en heima. Erfitt að útskýra það samt.

Deila færslunni

Share to Google Plus