Helgin 17-18 ágúst

Helgin var fín. Við vorum búnar að ákveða að liggja bara í leti og gera ekkert. Safna smá orku og hreinsa til í höfðinu á okkur. Við vöknuðum snemma báða dagana og byrjuðum dagana báða á alltof þurrum bollum. Þær eru jafn vondar gamlar og þær eru góðar nýjar.

Annars er Húsmaðurinn frábær í að elda mat úr engu. Ég veit að Eva systir mundi elska hann. Held að hann hafi aldrei hent mat og við fáum alla afganga í breyttri útgáfu í næstu máltíð. Við fáum 3 máltíðar á dag. Morgunnmat sem er bara góður daginn sem bollurnar eru bakaðar. Stundum bakar hann þær daginn áður og þá fáum við ekki að smakka þær nýjar. Í morgunnmat eru bara þessar bollur og áleggið er smjör, plómusulta, hunang og hnetusmjör. Vildi að við gætum bara fengið ristað brauð.

Við fáum svo hádegismat milli 13:30 og 14:00. Held að þessi tími sé hafður svona því þá erum við búnar að vinna. Svo er kvöldmatur á bilinu 19 til 21. Mér finnst vera pínu Ítalskt yfirbragð yfir matnum hans. Alltaf eitthvað pasta eða risotto. Svo er kjöt og kartöflur eða annað grænmeti, yfirleitt í einhverskonar pastasósu. Stundum fáum við gamla bollu með, eða eitthvað steikt brauð. Við erum báðar jákvæðar á matseldina og þó að hann sé duglegur að nota afganga, þá er maturinn ekki bragðlaus og við borðum okkur saddar alltaf nema á morgnana.

Hér er líka húskona. Hún heitir Alice. Húsmaðurinn heitir eitthvað líka en ég get bara aldrei munað það. Alfedo, Antonio eða eitthvað slíkt. Er búin að spyrja svo oft að ég kann ekki við að gera það aftur. Allavega, Alice sér um að gera hreint og þvo af okkur. Held að hún geri það allt í höndunum. Hún er skuggalega dugleg.

Helgin er aðalega búin að fara í lestur, yatzy, spjall og át. Við fórum reyndar líka í „bæinn“ og leituðum af markaðinum sem á að vera hérna nálægt. Fundum oggulitla götu með nokkrum „verslunum“ í, en ég held ekki að það hafi verið markaðurinn. Þurfum að spyrjast betur fyrir.

Helgin er líka búin að einkennast af vatnsleysi. Vatnsleysi er = halda í sér hægðum. Það vill jú engin kúka án þess að geta losað sig við sönnunargögnin! Verst samt að komast ekki í bað. Ítalirnir skruppu í safarí um helgina, svo við Kaja erum búnar að hafa húsið útaf fyrir okkur. Dinner fyrir tvo og allt það. Búnar að hafa það voðalega notanlegt.

Það er ofboðslega ruslaralegt að ganga hérna um. Hvergi ruslafötur svo að þó maður væri til í plokk, þá gæti maður hvergi sett ruslið. Hér eru líka allir vegir úr rauðleitum leir eða mold, svo hér verður alt rauðleitt útaf rykinu sem myndast þegar er þurrt.

Hér eru geitur og einhverskonar kýr allstaðar. Líka hænur. Líka hérna inn á svæðinu. Hef aldrei á ævi minni óskað neinu dýri dauða, en ég get svo svarið það að það liggur við að ég óski þess að bölvaður haninn sem galar beint fyrir utan gluggan hjá okkur, oft á hverri nóttu detti niður dauður. Hann byrjar um kl 1 eftir miðnætti. Þá galar hann þar til hann er viss um að honum hafi tekist að vekja alla aðra hana í Kalongo. Hann er viss þegar allavega 2-3 aðrir svara honum. Þá heldur hann yfirleitt kjafti þar til um 3. Þá endurtekur hann kallið, helvítið á honum. Svo klukkan 5:30 í allra síðasta lagi galar kvikindið stanslaust til kl 7.

Mér finnst svo aðdáunarvert hvernig konur geta staflað hlutum á höfuðið á sér og gengið þannig langar leiðir. Hef alltaf haldið að þær bindi þá einhvernvegin, en það er ekki að sjá. Ætla að spyrjast fyrir um það.

Konur binda líka börnin sín á bakið. Hef enga hugmynd hvernig í ósköpunum þær fara að því, eða hvort að fari yfirleitt vel um barnið, en þau kvarta allavega ekki. Erum að sjá litlar stelpur niður í sennilega sjö ára með lítil systkini á bakinu.

Sum húsin hérna á svæðinu eru svo hrikalega krúttleg. Hringlótt með stráþaki. Nákvæmlega eins og í teiknimyndunum. Langar hrikalega að sjá hvernig er innandyra. Verð að reyna að vingast við einhvern sem býr í svona húsi.

Dýralífið hérna er allt annað en heima. Hér hlaupa eðlur, bæði stórar og litlar, um stéttina þó við sitjum úti. Litirnir á þeim eru fallegir og ég er alveg viss um að þetta séu fleiri en ein tegund. Við Kaja erum búnar að búa til fjölskyldu úr þeim. Pabbinn, mamman og svo litla barnið. Þegar við sjáum eina nýja er það að sjálfsögðu bara fjölskyldumeðlimur í heimsókn.

Deila færslunni

Share to Google Plus