2. í vinnu


Í dag mættum við til vinnu og tókum þátt í rapporti hjá ljósunum. Við létum vita að við ætluðum mest bara að fylgjast með. Á fæðingarstofunni var ein í fæðingu. Þegar kom að sjálfri fæðingunni skellti ljósan sér í stíbba og settu upp svuntu. Sömu stíbbarnir og sömu svunturnar sem eru notaðar í þrifin! Ég sá hana aldrei eiga nokkur samskipti við konuna.

Hér eru konur skoðaðar án þess (að mér virðist) að nokkur samskipti eigi sér stað áður og þeim er ekkert endilega tilkynnt hversu langt þær eru í ferlinnu. Pínu eins og þeim komi það ekkert við. Við sjálfa fæðinguna er ekki mikið um stuðning eða leiðbeiningar, eitthvað annað en við erum vanar. Það sem mér fannst samt sérstakast er að ég hef horft á fæðingu þar sem ljósan var að spjalla í síman á meðan hún tók á móti barninu! Nemi stóð og hélt símanum, og ljósan spjallaði á meðan hún lyfti barninu, á höfðinu, upp á maga mömmurnar. Það er alveg nýtt hérna. Að börnin fari beint á maga. Svo var klippt á naflastrenginn og barnið tekið. Hér tíðkast líka að legið sé hreinsað að innan til að minnka líkurnar á blæðingu eftir fæðinguna. Það er eitthvað sem er framkvæmt af læknum hjá okkur. Svo eru mæðurnar reknar fram til að þrífa sig. Ætli börnin séu þá ekki um það bil í 10 mínútn gömul. Ennþá höfum við ekki séð konu saumaða.

Konurnar hérna koma sjálfar með klæði og það sem þarf fyrir fæðinguna. Þær bera með sér bala og teppi, handklæði, gardínu eða annað efni til að vefja barnið innan í eftir fæðingu. Þær fá engin bindi og þeim er ekki einu sinni boðið upp á vatnsglas.

Önnur ung 22ja ára stelpa var komin til að eignast sitt 3ja barn. Það var nemi sem sá alfarið um hana. Hún spurði mig hvort ég vildi taka á móti en ég afþakkaði pent og sagði henni að ég vildi fyrst og fremst fylgjast með hvernig þær gerðu. Nemin varð pínu hvumsa og sagði mér að þeim langaði að sjá hvernig við færum að, og við ákváðum að einhvertíma í næstu viku, ef aðstæður eru þannig og við treystum okkur til, þá tökum við fæðingu. Ég lofaði henni samt að ég skyldi aðstoða með barnið.

Þegar barnið kom örvaði ég öndun og saug úr öndunarfærum þess (því að það tíðkast hérna). Fósturvatnið hafði verið þykkt og grænt, en það virðist ekki skipta máli hér. Mamman lá grafkyrr á meðan og það var ekki fyrr en ég fór að tala við hana og óskaði henni til hamingu með fallega strákinn hennar að hún tók utan um hann. Ég bar hann svo á borðið þar sem ég tvíbatt naflastrenginn (eftir leiðbeiningum) með bómullargarni og klippti hann stuttan með bitlausum skærum. Ég neitaði að gefa k-vítamín þar sem ég sá að skammtastærðin er allt önnur en heima og ég hafði reyndar ekki hugmynd um hvað var í sprautunni. Hér er smyrsl sett í augun á börnunum, ég frábað mér það líka.

Eftir þetta fórum við Kaja bara heim. Hún hafði veirð viðstödd keisara fyrr um daginn og við ákváðum að færa þessum þremur konum smá gjafir. Við fundum föt sem við höfðum tekið með okkur að heiman og sem  pössuðu þessum þremur börnum og fórum með til þeirra seinna um daginn. Og þvílík hamingja. Dásamlegt að sjá hversu glaðar þær urðu.

Við erum búnar að ákveða að vera í fríi um helgina og koma skipulagi á allt sem við erum búnar að upplifa og hvíla okkur vel. Erum ennþá uppgefnar.

Deila færslunni

Share to Google Plus