Aðstaðan á spítalanum

Vöknuðum óvenju hressar. Kaja var ekkert veik í nótt sem betur fer og prófar mínar töflur í dag. Við fórum yfir í gestahúsið kl 7:30 eins og um var samið og borðuðum morgunmat með ítölsku læknanemunum sem eru hérna. Eftir það báðum við húsmannin okkar um að fylgja okkur til systur Carmel. Hann varð ótrúlega glaður yfir að fá tækifæri á að hjálpa okkur og göngutúrinn að spítalanum tekur ekki nema 3 mín.

Á spítalanum hittum við vingjarnlega konu sem var þó ekki systir Carmel. Hún sýndi okkur eitthvað af svæðinu og kynnti okkur svo fyrir kennara sem heitir Ruth. Falleg, svört og pínu sorgmædd kona. Yndislega hlý og með ofsalega skilningsríkt augnaráð.  Enskan hennar er svipuð og hjá öðrum hérna, illskiljanleg og mumlandi, samt gátum við sagt henni hvaða væntingar við hefðum til dvalarinnar og hún sýndi okkur spítalaumhverfið og fæðingaraðstöðuna.

Þetta er ekki spítali eins og við þekkjum að heiman. Hér eru mörg hús sem hafa öll sinn tilgang. Eitt hús fyrir móttöku, annað er barnadeild, eitt húsið inniheldur skurðstofur og svo framvegis. Við fengum líka að sjá deildir sem við komum ekki til með að eiga nein samskipti við. Barnadeildin olli okkur töluverðu sjokki. Fyrir utan biðu ca 160 börn og það voru 3 læknar á vakt. Þau börn sem ekki komast að í dag verða að bíða þar til á morgun. Það eru engar biðstofur inni, svo svæðin milli húsanna eru troðfull af fólki og lyktin er skelfileg. Ég áttaði mig á því strax í Brussel, þegar við vorum komnar út að hliðinu fyrir flugið til Entebbe, að svertingjarnir eru með allt öðruvísi líkams lykt en við. Ekki verri eða neitt þannig, bara allt öðruvís. Kannski vegna þess að þeir borða öðruvísi fæðu. Ég er pínu spennt að sjá hvort við venjumst þessari lykt. En allavega, hérna í morgunnsólinni með allt þetta fólk, sumt fárveikt, er lyktin kæfandi og ofboðslega erfitt að leyna því að áfallið yfir öllu hérna er mikið.

Þegar við komum að fæðingardeildinni langaði mig svakalega til að setjast niður og skæla. Ég hefði sennilega látið það eftir mér ef ég hefði séð hreinan stól. Aðstaðan er vægast sagt hrikaleg. Við komum inn í lítinn sal. Ca 20 – 30 m². Í miðjunni er skilrúm sem myndar kross. Sem sagt 4 hólf.  Í hverju hólfi er bekkur sem er sennilega 1,20 m á lengd. Yfir hann hálfan er svo sett plaststykki sem lafir fram af og ofan í stóra fötu. Þetta er hugsað þannig að legvatn, blæðing og annar úrgangur renni af stykkinu og ofan í fötuna. Við hvern bekk stendur statíf sem komast tveir litlir járnbalar á. Einn ofan á með sótthreinsuðum áhöldum í og annar undir fyrir rusl. Svo er lítið borð við hliðina á bekknum svo konurnar geti lagt frá sér tekönnuna sína og þar við hliðina er svo klósettstóll og vökvastöng.  Allt sem getur rifnað er rifið. Allt sem getur rispast er rispað. Allt sem getur ryðgað er ryðgað. Líka áhöldin.

Við fengum líka að sjá vökudeildina. Þar var kannski örlítið hreinna og við vorum látnar fara úr hreinu skónum okkar og í skelfilega ógeðslega skítuga skó til að mega fara þar inn. Þarna voru 4 mæður með börn sem þurftu einhverskonar hjálp. Þarna var líka lítið 3ja vikna barn sem var fætt í viku 24. Það lá aleitt upp á mjóu borði, undir rauðri peru. Eins peru og við notuðum fyrir kjúklingana okkar þegar við bjuggum í sveitinni. Það lá þarna sennilega bara til að deyja.

Eftir þennan sjokkerandi labbitúr og skipulagningu á næstu dögum með henni Ruth, fórum við aftur í gestahúsið. Vorum búnar að koma okkur saman um að biðja frekar um svefnpláss þar, líka til að vera innan um ítölsku nemana. Húsmanninum fannst það lítið mál en sagði að þá yrðum við að vera saman í herbergi. Þar sem það var hvort eða er planið hjá okkur, samþykktum við það og fórum að ná í allt draslið okkar.

Herbergið er nú frekar fátæklegt. Sitthvort rúmið, stóllinn og eitt lítið borð, sem er eiginlega bara kollur. Engir snagar eða naglar eða hillur. Það fylgir okkur hellingur af allskonar þannig að herbergið okkar lítur ekkert alltof vel út.

Hér er wifi sem er erfitt að komast inn á og netið sem við keyptum dugar ekki fyrir samfélasmiðla eða neitt annað en google. Náði samt að tala smá við Eika og láta vita af mér. Eftir að hafa spjallað smá við ítalina fórum við upp í rúm að lesa og vorum sennilega sofnaðar um 21 enda gjörsamlega búnar á því eftir erfiðan og stórundarlegan dag.

Deila færslunni

Share to Google Plus