Bíltúrinn til Kalongo

Við ókum af stað héðan kl 12. Bílstjóranum okkar, Símoni, og vini hans James, fannst ekkert annað koma til greina en að við sætum báðar frammí hjá Símoni, þótt við óskuðum frekar eftir að sitja aftur í.

Þar eru 2 bekkir á móti hvor öðrum og þrátt fyrir alltof mikinn farangur, fannst mér tilhugsunin um að veltast þarna aftan í ekkert svakalega slæm. Við ákváðum samt að vera ekki dónalegar og tróðum okkur báðar fram í. Í sæti sem var ein og hálf breidd, sem sagt eins og rassinn á mér! Það var bara eitt belti og ekki séns að væri hægt að spenna sig. Það mundi einfaldlega þýða að sú okkar sem væri óspennt mundi auk þess sitja á sætisbeltislásnum og það væri ekki sanngjarnt. Þannig að við keyrðum af stað og í 10 tíma sátum við og gátum varla hreyft okkur. Ég var í miðjunni og gerði mér fulla grein fyrir að Kaja greyið var kraminn upp að hurðinni. Ástæðan fyrir því var að ég var stundum í kremju upp að Símoni og þó ég sé ekki með snertifælni þá leið mér betur að svitna upp að Kaju en honum.

Við brunuðum út úr Entebbe og ég var svo heilluð af öllu sem ég sá að ég mundi ekki eftir myndavélinni eitt einasta augnablik. Hér og þar voru geitur, og fallegir hundar hlupu fram og tilbaka. Kaja segir að þeir séu villtir en mér fynnst það ótrúlegt miðað við hvað þeir eru gæfir. Þegar við komum til Kampala fór ég að óttast um líf okkar og það gerist nú ekki oft. Hef sennilega aldrei á ævinni verið jafn nálægt því að deyja eins og á þessu ferðalagi. En fólkið i umferðinni í Uganda er sem betur fer mjög tillitsamt í öllu tillitsleysinu og ef Símon til dæmis var að taka framm úr og bíll kom á móti, vék sá sem kom á móti og Símon klíndi sér alveg upp að þeim sem hann var að taka fram úr og sá sem verið var að taka fram úr fór eins langt útí kant og mögulegt var og ef voru gangandi vegfarendur fyrir þá stukku þeir bara út í skurð. Enginn langatöng, æsingur eða öskur.

Vegurinn sem liggur til Kalongo er að mestu leiti malbikaður. Thank god! Síðustu ca 60 km voru ekki malbikaðir og það var helvíti að keyra á þeim. Símon á sér sennilega þann draum að verða rallýkall og æfði sig stíft. Svo brosti hann bara fallega svo skein í stórar skjannahvítar og sterklegar tennurnar. Ég er eiginlega pottþétt á því að hann hefur haldið að okkur þætti rosalega mikið til hans komið og hefðum sjaldan skemmt okkur eins vel.

Við stoppuðum á einum stað þar sem þeir félagar keyptu sér steikta fuglsfætur á spjóti. Kaja vildi ekki að við myndum kaupa svona þar sem við hefðum ekki hugmynd um hverrsu lengi þeir væru búnir að vera á spjótunum og svo framvegis. Vel athugað hjá henni og gott að ég hafi hana með, eins hvatvís og ég nú er. Símon keypti líka einhverskonar grillaða banana sem ég fékk að smakka. Þessir bananar voru klístraðir og sætir og minntu á ananas. Þessir bananar hlutu nafnið BANANANAS. Hún litla dótturdóttir mín fann upp á þessu nafni og kallar banana aldrei neitt annað. Hér á þetta nafn ofur vel við.

Þegar við komum að bænum Gulu, fór að rigna. Eða eiginlega að míg-rigna. Það ringdi reyndar svo mikið á tímabili að ég sá ekki á milli stika og hafði ekki hugmynd um hvort við værum utan vegar eða ekki. En símon, the driver, virtist hafa góða stjórn á þessu. Á tímabili ók hann samt bara á 20 km hraða því vatnið var svo mikið. Um síðir og eftir 10 tíma keyrslu án þess að pissa, komumst við á leiðarenda.

Vopnaður vörður kom á móti okkur og hleypti okkur inn á svæðið. Eitthvað hefur þó skolast til í samskiptum okkar við systur Carmel því hér átti engin von á okkur. Kaja geyið var að drepast úr ógleði og var farin að þrá rúm og svefn meira en allt annað og ég verð að viðurkenna að ég var farin að hlakka óskaplega til að fara í bað og þvo mér um hárið. Símon hringdi einhver símtöl og eftir augnablik kom vingjarnlegur kolsvartur maður og var allur af vilja gerður til að hjálpa okkur. Hann er húsmaður í gestahúsinu og sér um matseld og þess háttar. Í gestahúsinu var ekkert laust herbergi Svo hann fór með okkur í hús við hliðina og baðst innilegrar afsökunar á því að væri ekki búið að þrífa, en hann hafði ekki átt von á okkur. Húsið var hreinlega viðbjóðslega óhreint og óvistlegt. En við létum okkur hafa það, og eftir að hafa þegið gamalt brauð og vont kaffi lögðum við okkur án þess að fara í bað. Ég drap risa-engisprettu fyrst og Kaja tók malaríulyfið sit og kastaði því næstum strax upp aftur. Við ákváðum að á morgun mundi hún prófa mínar töflur.

Deila færslunni

Share to Google Plus