Ferðin til Úganda

Hamborg – Brussel – Entebbe

Loksins!. Í gær uppfylltist langþráður draumur. Draumurinn um að heimsækja Afríku. Síðan ég var pínkulítil hefur mig dreymt um að koma hingað. Draumurinn hefur breyst og þroskast í stíl við árin sem hafa liðið, síðan ég var lítil og saklaus.

Ég þrái ennþá mest af öllu að fá að taka með báðum höndum í makkann á stóru og fallegu ljóni og þrýsta því upp að mér. Ég finn hvernig hárin á makkanum eru gróf eins og faxið á hesti, jafnvel grófari. Finn hvernig þau eru stömm af óhreinindum og þegar ímyndunin er sem sterkust finn ég sterka lykt af amoníaki og einhverjum öðrum óþverra af ljóninu. Ég dreg það að mér og nudda mínu andliti við þess. Það reisir sig á afturfærurna og leggur stóru og þungu framloppurnar á axlirnar á mér. Ég er soddan eymingi og hrín saman vegna þungans, en næ að faðma það að mér og klóra honum bakvið skítug eyrun, ég Þarf að nota alla höndina við það því eyrun eru svo stór. Ljónið lygnir aftur augunum og ég sver að ég get heyrt hann mala! Eins langt frá raunveruleikanum og þetta er, er þessi draumur einn af mínum uppáhalds, og ég þreytist aldrei á honum. Þegar ég sé eitthvað þessu líkt í sjónvarpinu eða þegar ég sé fallegt ljón í Givskud (Danskur dýragarður), fæ ég stundum köggul í hálsinn. Kannski afþví ég stend við hliðina á þessum draumi og veit að hann getur aldrei ræst. Nema ég sé tilbúin að láta rífa mig á hol og þar stoppa draumórar mínir snögglega, er fyrir löngu búin að sætta mig við minni kisur. En draumar eru góðir og ég gæti ekki hugsað mér lífið án þeirra.

Þegar ég var ung og saklaus, dreymdi mig lika um að hjálpa svöngum börnum og fátæku fólki. Eiga besta vin sem var kolsvartur og hrikalega skemmtilegur. Samt soldið skítugur og illa lyktandi. Afþví að þannig var Afríka í augum ungs barns. Fátæk, heillandi og skítug.

Um leið og ég hóf ljósmæðranámið mitt, ákvað jég að taka valfrjálsa starfsnámið hér í Afríku. Ég er enn þeirra skoðunar að ef ég get látið gott af mér leiða þá er það það sem ég geri. Ég var svo heppin að ein sem er með mér í bekk langaði líka til Afríku, þannig að við vorum búnar að skipuleggja og dreyma þennan dag í töluvert langan tíma. Uganda varð fyrir valinu. Að sumu leyti vega þess að skólinn okkar er með samband hérna og að örlitlu leyti vegna þess að ég gekk í bekk með stelpu frá Uganda fyrir nokkrum árum. Hún er dásamleg manneskja sem talaði oft um landið sitt með hlýju og ástríðu og mig hefur lengi langað til að sjá landið hennar. Hún verður alltaf uppáhalds Ugandastelpan mín.

Við verðum á Dr Ambrosoli Hospital á fæðingardeild. Held að meðgöngu og sængurlega tilheyri þeirri deild líka en er ekki viss. Síðustu vikur hafa farið í að safna ungbarnafötum og allt sem hefur fallið til á okkar eigin fæðingargangi hefur verið safnað saman fyrir okkur, og eins erum við með enskar fagnámsbækur sem við gefum spítalanum.

Svo í gær byrjaði ferðalagið. Við lögðum af stað kl.2 eftir miðnætti að heiman.
Ég og Eiki sem keyrði okkur til Hamburg komum við í Gluksborg í þýskalandi og sóttum Kaju. Vorum svo mættar tæplega kl. 5 til Hamborg. Það var ekki mikið af fólki svo við komumst strax að með töskurnar okkar.Samtals 120kg af farangri, þar af kannski max 50kg sem tilheyra okkur persónulega, restin eru ungbarnaföt og það sem fæðingardeildin okkar í Aabenraa hafði safnað saman fyrir okkur til að taka með.
Ég vissi upp á mig 5 kg aukalega en slapp í gegn. Þegar við vorum búnar að losa okkur við töskurnar hafði myndast margra kílómetra röð bakvið okkur, heppni eitt í hús, ég hata raðir. Rúlluðum líka í gegnum öryggisleitina, og röðin hlóðst upp fyrir aftan okkur.

Rétt áður en vélin lagði af stað til Brussel, þar sem við millilentum, var ég orðin svo þreytt að ég var byrjuð að sjá tvöfalt. Samt náði ég ekki að sofna í vélinni. Sennilega svona yfir spennt. Í seinna fluginu, Brussel – Entebbe, náðum við að sofa í heilan klukkutíma. Náði samt ekki heilum svefni því ég hafði svo miklar áhyggjur af útlitinu. Þið vitið… Vera gapandi, eða slefandi, eða hrjótandi. Við vorum því báðar frekar þreyttar en sælar þegar við stigum á Afríska jörð rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi. Fengum allar töskurnar okkar en fundum ekki bílstjórann okkar. Kaju fannst ekki góð hugmynd að taka leigubíl eða fara yfir höfuð út úr flugvallarbyggingunni, en ég náði að tala hana til svo við örkuðum út með öll kílóin okkar til að leita að „our guy“. Þegar hér var komið var ég farin að blanda saman hinum ýmsu tungumálum og gat ekki með góðu móti gert mig skiljanlega og átti líka afar erfit með að skilja aðra. Þetta tókst samt allt (þökk sé tungumálakunnáttu Kaju) og við komumst heilar á hótelið okkar.

Fínt hótel, engin glamúr, en hreint og snyrtilegt og dásamlega hjálpfúst fólk.

Við erum báðar byrjaðar að taka töflur til að fyrirbyggja Malaríu ef við skildum verða stungnar. Ég hef ekki fundið fyrir neinum aukaverkunum, en Kaju varð óglatt fyrsta daginn. Hún tók svo töflu númer 2 í gær áður en við komum okkur í rúmið og var fárveik í alla nótt. Hún náði þó að koma sér í morgunmat. Nú liggur þetta grey fyrir og hefur það frekar skítt.

Ég byrjaði morguninn á sturtu. Það var ekki fyrr en ég stóð undir jökulkaldri bununni að ég áttaði mig á að sennilega mundi það ekki tíðkast í Afríku að fara í heita sturtu daglega. Ég ákvað að sleppa því að þvo krullurnar mínar. Finnst hrikalega vont að fá ískalda vatnsbunu á höfuðið. Sá eiginlega fram á að þvo mér ekki um hárið í 6 vikur!
Við fengum hótelkonuna hérna til að tala við bílstjórann sem á að koma okkur til Kalongo. Nú bíðum við eftir að hann nái í okkur. Bíltúrinn til Kalongo tekur allavega tæpa 8 tíma í beinni keyrslu, svo ég vona að hann fari að koma. Hótelkonan sýndi mér líka hvernig ætti að skrúfa frá heita vatninu. Leið pínu eins og lúða þegar ég áttaði mig á hvað ég hefði verið þröngsýn.

Nú er Kaja að hressast og ég stakk upp á að hún mundi bara sleppa þessum pillum og taka sénsin á að fá Malaríu. Henni fannst það ekki góð hugmynd.

 

Deila færslunni

Share to Google Plus