Bíltúr og prufutilraun á carbnæt

Ertu að djóka hvað ég á erfitt með að einbeita mér. Ég hef tekið eftir því að ef ég vakna rosa snemma og sest fram áður en húsið vaknar, þá verður mér mest úr verki og það á við um allan daginn. Ef ég hins vegar, eins og í dag, vakna kl 10 og lufsast eitthvað áður en ég kem mér í sturtu, þá er næsta víst að ég mæti ólærð í skólan daginn eftir.

Við sváfum sem sagt fram eftir í dag. Sennilega vegna þess að við vöknuðum bæði kl 4 í nótt og fórum að horfa á næturvaktina. Eitthvað rugluð stundum. Þegar við svo loksins vorum búin að fara í sturtu, ákváðum við að fara í smá göngutúr áður en við mundum borða eitthvað. Þá var klukkan orðin 11!

Sko, þannig er að ég er búin að standa mig svo ágætlega í 17:7, þar til í gær. Eða það er að segja, þar til í gærkvöldi. Ég hef alla síðustu viku, látið líða 17 tíma frá kvöldmat og þar til ég borða aftur. Svo í gær, 17 tímum eftir kvöldmat fékk ég mér 2 egg. Svo fórum við með strákana okkar í smá bíltúr til þýskalands þar sem við fórum í voða fallegan göngutúr meðfram Glucksburgarvatni.

Svo settumst við út hjá höllini og fengum okkur kaffi og strákarnir bjór.

Eftir að hafa verslað var klukkan orðin það margt að við buðum strákunum upp á hamborgara. Sjálf vorum við að fara til Esbjerg og ætluðum bara að fá okkur eitthvað að borða þar. Akkúrat þarna fékk ég þá ljómandi hugmynd að prófa carb-næt í fyrsta sinn. Ekkert búin að borða fitu að ráði og byrjaði þess vegna að narta í franskar hjá strákunum. Í huganum var ég búin að ákveða að Eiki mundi panta pitsu á einum af 100 pitsustöðunum sem mig hefur langað til að prófa hérna í Esbjerg. Ég ætlaði líka að drekka bjór með. Og fá mér nammi.

Eftir að hafa skilað af okkur strákunum og pakkað þvottinum, ókum við af stað og reiknuðum út að við yrðum komin um 19:30. Ég át heila rúllu af súkkulaði-Mentos, sem er bæðevei hrikalega gott og gaf Eika sem minnst með mér. Eiki keyrði til að byrja með og hafði greinilega allt aðrar hugmyndir en ég um kvöldmat. Hann lét mig gúggla fram og til baka hvað væri hægt að panta og taka með heim, og ég fann pitsudrauminn fjara út og verða að engu. Þegar við vorum tæplega hálfnuð tók ég við keyrslunni svo Eiki gæti einbeitt sér að gúggul. Að lokum ákváðum við að koma bara við í Bilka og kaupa okkur steikur og taka með heim.

Ég missti mig næstum í Bilka. Ég sá allskonar gott út um allt og langaði í það allt. En skynsemin tók yfir og ég ákvað að kaupa bara smá. Snakk, ídýfu, og plómur og einn stóran bjór setti ég í körfuna meðan Eiki bætti um betur og setti líka súkkulaði og hnetur og tvær fallegar Entricod steikur. Mig langaði svo í eitthvað bakkelsi en ákvað að geyma það þar til seinna. Á leiðinni frá Bilka áttuðum við okkur á að við værum eiginlega ekkert svöng svo við komum við á bensínstöð og fengum okkur pulsu og ég fékk langþráðan bjór með. Steikurnar ætlum við að hafa í kvöld í staðinn.

Þegar heim var komið setti ég snakk í skál og ídýfu í aðra og Eiki blandaði okkur Gin og tónik. Meðan við vorum að sötra á gininu okkar setti hann svo camerbert í ofning og hitaði tvö hvítlauksbrauð sem við dýfðum svo í. Þvílíkt jummý. Ég náði að borða eina plómu, sem bragaðist ekki eins vel og hún leit út fyrir. Eiki gaf mér svo örlítið rauðvín í glas, og það slökkti á mér. Þannig fór fyrsta carb nætið mitt :/ Og þetta er sennilega líka ástæðan fyrir því að ég sitji hér og bloggi í staðinn fyrir að vera að læra. Útaf öllum þessu rugli í gær + að vakna í nótt til að horfa á Næturvaktina, þá fór dagurinn allur í rugl, heimanámslega séð.

En göngutúrinn var góður. Pínu blautur en voða góður. Fórum í nýjan skóg en hann var ekkert spes, svo við enduðum í dýragarðinum okkar og sáum bæði dádýr og íkorna.

Núna er klukkan orðin 17 og Eiki var að fara í sund svo ég gæti lært, svo ég ætti kannski að lesa pínu um vírusa og bakteríur.

 

Deila færslunni

Share to Google Plus