Göngutúr í rigningu

Var ég búin að segja ykkur hvað ég elska þennan bæ? Og ég sem er annars ekkert voðalega hrifin að stórum bæjum. Finnst ég bara vera sjúklega orkumikil hérna og verð bara meira og meira hrifin af þessum bæ því meira sem ég sé af honum.

Sko í dag er heimavinnudagur. Þ.e.a.s ég er með fuck mikið af bókum bæði á dönsku, norsku og ensku sem ég á að lesa alltof mikið í. Og ég sem er með athyglisbrest, sjálfgreindan. Hef ekki kynnt mér athyglisbresti neitt að ráði en minn lýsir sér þannig að ég er einbeitingarlaus með öllu ef mér finnst efnið ekki þeim mun meira spennandi. Að tala um t.d pólitík við mig er voðalega tilgangslaust. Og efnafræði er ekki að halda mér við efnið. Það þarf stundum ekki nema einn fugl að fljúga fram hjá glugganum mínum og ég get gleymt mér í laaaangan tíma. Þetta getur verið stór ókostur, sérstaklega í „Folkesundhed og videnskabsteori“ svo ég tali nú ekki um faraldsfræði! Samt langar mig voða að læra þetta. Í gær las ég um 30 blaðsíður og ætlaði svo að skima textann aðeins fyrir svefn, en mundi ekki eftir einu einasta atriði.

Síðan ég kom hingað til Esbjerg er ég búin að labba tæpa 100 km. Og eyða 26.000 kaloríum. Ég er líka búin að fara nokkrum sinnum í sund og metið mitt er 1 km! Það er rosa mikið fyrir mig þar sem ég er ferlega hægsynd. Held að ég geri eitthvað vitlaust. Syndi miklu hraðar á bakinu en bringusund. Prófaði að æfa mig smá í flugsundi en hætti þegar ég uppgvötvaði að baðvörðurinn horfði á mig með áhyggjusvip og bjó sig undir björgun.

Ég bý á kollegii með fullt af öðrum kornugum manneskjum.
Hugsa að ég sé örlítið eldri en þau flest eða kannski 25 árum. Þau eru samt voða róleg og kurteis, flest. Bara einu sinni búið að vera frekar mikið fjör hérna en það var allt orðið svo til hljótt um miðnætti. Svo akkúrat núna heyrist mér einhver vera að missa vitið. Samt í alvöru er mjög rólegt hérna.

Aftur að bænum. Esbjerg er 5. stærsti bærinn í Danmörku. Ég hef ekkert kynnt mér um bæinn, annað en að rölta um hann, og ég lýg því ekki einu sinni þegar ég segi að hann sé sennilega hreinasti bær í allri Danmörk.

Hér er gríðarlega mikið lagt upp úr heilsueflingu og almennri hreysti. Hvar sem maður fer (og ég hef víða farið) er búið að koma upp æfingartækjum svo fólk geti tekið aðeins á því í guðsgrænni náttúrunni.

Það eru hlaupastígar um alla skóga og hvert sem þú ferð, eru bekkir og ruslatunnur. Taldi hvorki meira né minna en 15 ruslatunnur á 3.5 km göngu um skóginn í gær, og eitt klósett!

 

Það er svo þrifalegt hérna að það er leitun að öðru eins. Hjólastígarnir hérna eru óvenju breiðir og allsstaðar er þægilegt og auðvelt að komast um.

Fyrir utan blokkina mína er risastór sundhöll og vatnsland. Þar er líka badmintonhöll og tennisvöllur. Skautahöll og líkamsræktarstöð (tvær reyndar) og svo er líka bíó og steikhús í innan við 100 metra færi. Svo er risa fótboltavöllur og íshokkýhöll hérna hinu megin. Ég er 20 mínútur að labba í miðbæinn, sem er bæði með stórri göngugötu og fínni verslunarmiðstöð, og tæpan klukkutíma í skólann.

Eiki gaf mér reiðhjól þegar ég kom hingað en ég er pínu óörugg á því. Vantar líka bjöllu svo ég þarf að hrópa „dring, dring“ ef einhver er fyrir mér.
Ég er upp á 8. hæð og útsýnið hérna er frábært.

Ég er búin að draga sambýliskonuna mína í labb 2x á dag og í morgun náði ég henni bölvandi og ragnandi í sund kl 6! Hún var samt frekar góð með sig eftir sundið og eigilega ekkert fúl lengur.

Annars er rosa gott að búa með konu. Hún pissar sitjandi og ég þurfti ekki einu sinni að biðja hana að þurrka sturtuveggina og blöndurnartækin eftir sig með fíberklút. Hún bara gerði það. Svo fílar hún ´80 músík, svo við klingjum ágætlega saman.

Jæja er að fara heim eftir tæplega tveggja vikna útlegð.
Vigtun á morgun 🙂

Deila færslunni

Share to Google Plus