Vika!

Í gær var gleðidagur mikill! Komin vika á LKL og vigtin sýndi mér 71.6 kg sem þýða 2.4 kíló í tap. Hins vegar var ekki eins gleðlegt að Eikinn minn er búinn að bæta á sig kílói.

Þrátt fyrir að mér finnst dásamlegt að vinna, þá vorkenndi ég nú bollunni minni þegar hann kvaddi mig í morgunn með kossi, á grannan vanga minn. Ég bauð honum að sjálfsögðu að taka þátt í LKL átakinu okkar Írisar, en hann afþakkaði pent og ætlar bara að halda áfram að borða fituríka matinn sem snillingurinn hún vinkona mín útbýr og drekka kaloríur í formi ís-jökulkalds öls með.

Íris tók við eldhúsinu þegar hún kom. Þannig er það alltaf. Hún er reyndar ekkert rosalega hrifin af uppvaski og þar kemur Jói sterkur inn. Hann elskar að aðstoða okkur með uppvaski og gólfþvotti. Þessi elska.

Síðan Íris mætti á svæðið er hún búin að baka og elda og fylla allt af dásamlegum kolvetnalitlum kræsingum. Hér flýtur allt í smjöri og rjóma og maginn á mér er rólegur.

Við þurftum að fara til Þýskalands eftir hádegi með Dönu. Fyrri partinn var orkan svo mikil að við réðum varla við okkur. Íris var tekin í fót- og handsnyrtingu og neglur á bæði fótum og höndum lakkaðar. Svo hélt dekrið áfram og ég náði að vaxa bæði hennar leggi og mína + holhendur áður en klukkan varð 11. Áður en við rukum svo út fyltum við mallakút með dáamlegu lasanga (kovetnagrönnu) og blómkálsmúss,  svo við færum ekki að freistast í einhvern óþverra þarna niðurfrá.

 Þegar við sáum fram á að ná ekki heim í mat, tókum við á það ráð að fara á kínverskan veitingastað og athuga hvort við gætum ekki fengið eitthvað með fáum kolvetnum í.
Það er ekki hægt á kínverskum stöðum, bara svo að það sé á hreinu. Við tókum þá á það ráð að fá okkur kjúkling, sem að sjálfsögðu var borinn fram á núðlubeði, og svo keyptum við eina kjúklingasúpu með kókosmjólk, svona bara til að smakka.

Dana fékk leyfi til að úða í sig eins mörgum núðlum og hún vildi meðan við Íris nörtuðum penar í kjúllan. Ég meira að segja fláði orlýdeigið utanaf honum (þó ég hafi nú nartað í það seinna) Á leiðinni heim gúllaði ég svo í mig mola með súkkulaðifyllingu. EINUM. Held að kolvetnaþörfin hafi vaknað við allt rauðvínssmakkið sem ég neyddist til að taka þátt í, því að Dönu finnst rauðvín ekkert gott.

Já ég er ofboðslega veikgeðja. En er samt stolt af mér að hafa ekki hrunið í það eins og ég átti von á.

Í dag vaknaði ég svo með ofboðslegan höfuðverk. Ætli það sé ekki keitónu hausverkur.

Á laugardaginn verður partý í tilefni þess að litla barnið mitt er orðin þrítug og þann dag verð ég kærulaus ef ég þekki mig rétt þar sem ég heyrði nafnið brauðterta nefnt. Veit líka eftir áræðanlegum heimildum að það verður býsna gómsæt djöflaterta í boði og svo verður snittubrauðið hennar Írisar borið fram með matnum og ég hlakka næstum mest til að smakka það 😊

Nú ætla ég að fá mér smá kaffi með olíu og byrja svo að grennast geðveikt.

Deila færslunni

Share to Google Plus