Fyrsti dagur

Dagurinn í gær gekk ljómandi vel. Ég fann hreinlega hvernig lýsið sprændist af mér við hverja hreyfingu. Eftir kvöldgönguna okkar Lísu sagði Eiki að ég hefði greinlega grennst talsvert þar sem fötin voru farin að hanga utan á mér, ég ákvað bara að trúa honum.

Áður en ég skreið upp í rúm, ákvað ég að fá mér stórt og svalandi vatnsglas, meðan ég horfði á þybbna eiginmanninn minn renna niður býsna girnilegum bjór. Get ekki sagt að ég hafi öfundað hann af þessari kaloríu-inntöku. Hugsa að hann sé jafnvel búttaðri í dag en í gær, þessi elska.

Svo kom að því að dagur 2 rann upp. Vaknaði í spreng (eftir stóra og svalandi vatnsglasið mitt) og ákvað að losa mig við allan umfram vökva svo ég mundi nú ekki vigta hann með. Sá strax í speglinum að ég hafði lagt töluvert af, og varð bara nokkuð ánægð með að hafa farið í seinni labbitúrinn minn. Steig svo ofurvarlega á fínu digital baðvigtina mína og þá hrundi næstum veröldin mín. Ég var ekki komin í kjörþyngd!
Stóð á vigtinni þar til hún varð næstum batteríslaus og ákvað þá að taka mig saman. Þurrkaði ímyndað tár af bústinni kinninni minni og tróð mér í náttslopp.

Ég hvíslaði að Lísu að við værum að fara fram og óskaði þess að Eiki hefði bætt örlitlu á sig, bara smá, bara 5 gr til dæmis, svo ég mundi vinna þennan fyrsta dag.

Nú er ég búin að fara í gegnum gærdaginn og held bara að ég gæti ekki verið sáttari, nema náttúrulega ef ég hefði vaknað í kjörþyngd.

Vigtin sagði mér að ég hefði misst 1.8 kg síðan í gær. Veit að þetta er mest vökvatap, en það er bara allt í lagi. Ég var ekkert svöng í gær nema bara rétt áður en ég borðaði og það eina sem mér fannst virkilega erfitt var að öfundast út í Eika meðan hann þambaði (óvenju hátt) bjórinn sinn. Hann sötraði hann eiginlega. Jú og smá þegar hann fékk sér franskbrauð með bráðnuðum osti beint úr öbbanum.

 

Matseðillinn

Minn matseðill var þannig:

Byrjaði morguninn á kaffibolla með vænnri skeið af kókosolíu.
Fékk mér svo stuttu seinna annan.

Um hádegið var ég svo orðin svöng svo ég fékk mér skyr sem ég vigtaði meira að segja. 150 gr af skyri með 35 ml af 18% rjóma út á. Vigta samt aldrei matinn minn.

Nokkru seinna langaði mig brjálæðislega mikið í eitthvað. Bara jafnvel sælgæti eða dásamlega kexköku. Lét það samt ekki eftir mér og fékk mér í staðinn 3 sneiðar af osti sem ég vafði utan um kjötálegg 😊 Jummý.

Í kvöldmat var Eiki svo búinn að ákveða að vera með tortillur og ég ELSKA tortillur. Ég átti í frysti eina kolvetnalausa tortillu síðan í gamladaga og ákvað að éta hana bara. Tók frá smá hakk fyrir mig áður en við bættum við nýrnabaunum og maísbaunum þar sem þær eru þekktar fyrir að vera útblásnar af kolvetnum. Samt hafði ég kryddað hakkið með kolvetna kryddi en áttaði mig ekki á því fyrr en núna. Svo skar ég tvo tómata og tróð inn í ásamt hakkinu. Setti smá lauk, ost og sýrðan rjóma (18%) yfir og voilà! Restina af hakkinu setti ég svo á kolvetnalausu tortilluna mína og var pakksödd á eftir.

Nú er ég hinsvegar að verða pínu svöng og ætla að búa mér til stóran bolla af eggjalatte. 😊

 

Deila færslunni

Share to Google Plus